Náttúruminjar og söfn

Enn og aftur heyrir maður að Náttúruminjasafn Íslands sé á hrakhólum. Sorglegt, en kemur svosem ekki á óvart. Af einhverjum mér algjörlega huldum ástæðum virðist nefnilega vera ómögulegt að fá Ríkið til að standa við skuldbindingar sínar um að reka þessa merku og menningarlega nauðsynlegu sClip_108tofnun af þeim myndarskap sem hún á skilið.

Hvað um það, mig langaði til að skrifa nokkrar línur um náttúruminjasöfn. Þetta eru merkar stofnanir sem mér er hlýtt til, eins og raunar flestum, að mig grunar. Starfs míns vegna er ég oft einsamall á rjáli um mér lítt kunnar borgir í útlöndum og leita þá oftar en ekki í sýningar náttúruminjasafna til að drepa tímann. Hér eru nokkur af mínum uppáhalds söfnum:

Natural History Museum í London. Hreinlega stórfenglegt safn. Stórt og mikið, með mörgum vel upp settum, fróðlegum og skemmtilegum sýningum. Hér er einnig stundað mikið rannsóknastarf, eins og á flestum stærri náttúruminjasöfnum. Ég held ég megi segja, að öðrum söfnum ólöstuðum, að þetta sé með alflottustu náttúrugripasöfnum veraldar.

Museum für Naturkunde í Berlín. Hér höfum við fjölskyldan verið heimangangar til fjölda ára. Skyldustopp í öllum Berlínarheimsóknum. Skemmtilegt safn og líkt og mörg önnur stærri náttúruminjasöfn er bæði fastasýning og breytilegar sérsýningar sem oft eru mjög skemmtilegar og fræðandi (þó ég hafi reyndar orðið frekar foj um árið, þegar upp var sett DNA-sýning af nokkurri vanþekkingu á erfðatækni!)

Bristol Museum & Art Gellery. Þarna stoppaði ég við í fyrra og undi mér heldur betur vel í heilan eftirmiðdag. Náttúrugripasafn + menningarsögusafn + listasafn allt í einum pakka. Af hverju ekki? Ég skemmti mér allavega vel!

Naturhistorisches Museum í Vínarborg er sérlega gaman að heimsækja. Virðulegt safn af gamla, rykfallna skólanum. Maður fær sterklega á tilfinninguna að maður hafi stigið aftur í 19. öldina og á allt eins von á að rekast á Frans gamla Jósef handan við næsta sýningarskáp.

The Houston Museum of Natural Science var mikið uppáhald þegar ég bjó þar um slóðir, enda staðsett við Hermann Park þar sem oft var notalegt að halda til. Skemmtilegt safn og iðandi af lífi.

The Smithsonian National Museum of Natural History í Washington DC er skyldustopp þegar maður er þar í borg. Feykistórt og skemmtilegt, staðsett við The Mall. Steypireyðurin er minnisstæð.

The Field Museum í Chicago. Hvað skal segja? Þetta safn er lifandi klassík!

Zoology Museum í Aberdeen. Ókei – kannski ekki flottasta, stærsta eða ríkasta safn í heimi, en þarna vann maður nú um tíma og það var gaman trítla þarna um í hádegishléinu og njóta sýningarinnar.

... og þannig mætti áfram telja.

Af hverju í ósköpunum getum við íslendingar – sem þykjumst vera svo mikil náttúrubörn – ekki heiðrað náttúru lands okkar með mannsæmandi hætti? Ferðamenn eru margir hverjir gapandi hissa á þessari hrópandi vöntun.

Að lokum, þá er hér tengill í lista yfir helstu náttúruminjasöfn heimsins frá Wikipediu. Njótið!

 

 

  

 

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og tólf?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband