Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Náttúruminjar og söfn

Enn og aftur heyrir maður að Náttúruminjasafn Íslands sé á hrakhólum. Sorglegt, en kemur svosem ekki á óvart. Af einhverjum mér algjörlega huldum ástæðum virðist nefnilega vera ómögulegt að fá Ríkið til að standa við skuldbindingar sínar um að reka þessa merku og menningarlega nauðsynlegu sClip_108tofnun af þeim myndarskap sem hún á skilið.

Hvað um það, mig langaði til að skrifa nokkrar línur um náttúruminjasöfn. Þetta eru merkar stofnanir sem mér er hlýtt til, eins og raunar flestum, að mig grunar. Starfs míns vegna er ég oft einsamall á rjáli um mér lítt kunnar borgir í útlöndum og leita þá oftar en ekki í sýningar náttúruminjasafna til að drepa tímann. Hér eru nokkur af mínum uppáhalds söfnum:

Natural History Museum í London. Hreinlega stórfenglegt safn. Stórt og mikið, með mörgum vel upp settum, fróðlegum og skemmtilegum sýningum. Hér er einnig stundað mikið rannsóknastarf, eins og á flestum stærri náttúruminjasöfnum. Ég held ég megi segja, að öðrum söfnum ólöstuðum, að þetta sé með alflottustu náttúrugripasöfnum veraldar.

Museum für Naturkunde í Berlín. Hér höfum við fjölskyldan verið heimangangar til fjölda ára. Skyldustopp í öllum Berlínarheimsóknum. Skemmtilegt safn og líkt og mörg önnur stærri náttúruminjasöfn er bæði fastasýning og breytilegar sérsýningar sem oft eru mjög skemmtilegar og fræðandi (þó ég hafi reyndar orðið frekar foj um árið, þegar upp var sett DNA-sýning af nokkurri vanþekkingu á erfðatækni!)

Bristol Museum & Art Gellery. Þarna stoppaði ég við í fyrra og undi mér heldur betur vel í heilan eftirmiðdag. Náttúrugripasafn + menningarsögusafn + listasafn allt í einum pakka. Af hverju ekki? Ég skemmti mér allavega vel!

Naturhistorisches Museum í Vínarborg er sérlega gaman að heimsækja. Virðulegt safn af gamla, rykfallna skólanum. Maður fær sterklega á tilfinninguna að maður hafi stigið aftur í 19. öldina og á allt eins von á að rekast á Frans gamla Jósef handan við næsta sýningarskáp.

The Houston Museum of Natural Science var mikið uppáhald þegar ég bjó þar um slóðir, enda staðsett við Hermann Park þar sem oft var notalegt að halda til. Skemmtilegt safn og iðandi af lífi.

The Smithsonian National Museum of Natural History í Washington DC er skyldustopp þegar maður er þar í borg. Feykistórt og skemmtilegt, staðsett við The Mall. Steypireyðurin er minnisstæð.

The Field Museum í Chicago. Hvað skal segja? Þetta safn er lifandi klassík!

Zoology Museum í Aberdeen. Ókei – kannski ekki flottasta, stærsta eða ríkasta safn í heimi, en þarna vann maður nú um tíma og það var gaman trítla þarna um í hádegishléinu og njóta sýningarinnar.

... og þannig mætti áfram telja.

Af hverju í ósköpunum getum við íslendingar – sem þykjumst vera svo mikil náttúrubörn – ekki heiðrað náttúru lands okkar með mannsæmandi hætti? Ferðamenn eru margir hverjir gapandi hissa á þessari hrópandi vöntun.

Að lokum, þá er hér tengill í lista yfir helstu náttúruminjasöfn heimsins frá Wikipediu. Njótið!

 

 

  

 

 


Dansandi bakteríur á blogspot

Heil og sæl!

Eins og þeir sem slysast hafa hér inn á bloggið undanfarið hafa kannski tekið eftir, þá hef ég verið mjög lítið virkur hér síðastliðin misseri. Það á sér ýmsar skýringar. Ein er sú að þetta blogg mitt er orðið að óttalegu kraðaki. Hér ægir saman færslum um líftækni, ljóðagerð, fjölskyldumál og hvaðeina. Ég veit hins vegar til þess að einhverjar bloggfærslur mínar hafa vakið áhuga á líftækni og örverufræði, svo ég ákvað að búa til nýtt blogg, eingöngu helgað þeim efnum. Pöddubloggið er sumsé hér: http://orverur.blogspot.com/ og má þar nú finna nýja færslu um dansandi bakteríur sem nærast á spilliefnum. Bráðskemmtilegt efni. Kíkið endilega á það. Smile 


Minning um afa

Bjartur afi 1 

Hann Guðbjartur afi minn, Bjartur málari, lést þann 12. ágúst síðastliðinn og langar mig til að rifja upp fáeinar af þeim mörgu og góðu minningum sem ég á um hann.

 

Afi var að jafnaði hæglátur maður og dagfarsprúður. Hann var ekki sú manngerð sem göslast í gegn um lífið með hávaða og látum, en þó hafði hann nokkuð gaman af að tala og ef sá gállinn var á honum komu sögurnar á færibandi. Afi kunni líka vel að segja sögur. Hann átti gott með að koma auga á spaugilegu hliðarnar á breyskleika mannanna og hafði sérstaka hæfileika til að finna mönnum lýsandi og eftirminnileg viðurnefni sem voru óspart notuð til að krydda frásagnir hans. Sögurnar hans voru málaðar björtum litum kímni og glettni og blandaðar með hæfilegum skammti af himinhrópandi ýkjum. Maður var aldrei almennilega viss hvar raunveruleikanum sleppti og ævintýrin tóku við í sögunum hans afa og einhvern veginn grunaði mann að hann væri ekki rétt viss sjálfur á stundum, slík var innlifunin. Þó afi væri prúður að jafnaði gat vissulega fokið í hann. Höfðum við þá á orði að „súinn“ væri kominn upp í honum og mun þar vísað til hinna stórlyndu áa hans í Súgandafirði, en föðuramma hans var GOGuðrún hin stórráða Oddsdóttir, annálað kjarnorkukvendi. Ég man að „súinn“ átti það til að ráða ríkjum þegar glímt var við umferðina í Reykjavík. Þá fengu hinir tillitsminni ökuþórar það óþvegið á kjarnyrtri vestfirsku. Sjaldan hef ég heyrt riddurum götunnar blótað af jafn miklu listfengi og innlifun og var það nokkur hrelling litlum patta sem hafði átt öllu blíðlegri tóni að venjast frá hinum barngóða afa sínum. En, maður var fljótur að læra að „súinn“ var jafnan skammlífur og hvarf jafn fljótt og hann brast á.

 

Sköpunargleði afa var hamslaus. Hann gat engan veginn látið sér nægja að mála bara veggi, loft og gólf, eins og hann gerði dag hvern svo sem fag hans bauð, heldur málaði hann einnig þvílík ógrynni af myndum að enginn hefur tölu á. Aldrei hélt hann þó sýningu eða taldi sig á nokkurn hátt í hópi hinna uppnefjuðu listamanna þjóðarinnar. Myndir sínar málaði hann eingöngu sér og sínum til ánægju og yndisauka. Hann þurfti heldur ekki striga og trönur til að skapa listaverk sín. Húsveggir, fjalir, blaðsneplar, spýtukubbar, hvaðeina sem myndaði hæfilega sléttan flöt var málað á, allt frá einföldum skreytingum til flókinna og úthugsaðra listaverka. Mér er minnisstætt þegar ég dvaldi hjá honum vestur á Mýrum í vikutíma eða svo. Hann var þá að smíða einhvern húskofa og þóttist ég, þá tíu ára eða svo, ætla að hjálpa honum eitthvað, en hef nú trúlega gert meira af því að þvælast fyrir. Ég hafði tekið með mér stóra teikniblokk og á kvöldin reyndi afi að kenna mér að teikna. Hann hefur fljótlega fundið að mínir hæfileikar lágu annars staðar, en fyllti sjálfur blokkina hraðar en auga á festi af hinum skringilegustu og skemmtilegustu myndum sem ég dundaði mér svo við að lita.7.4.2007 13 46 49GTABV 0109 1

 

Eftir þau erfiðu og afar langvinnu veikindi sem afi þurfti að glíma við síðustu árin, raunar á annan áratug, er maður eiginlega, fyrir hans hönd, hvíldinni feginn. En, ég sakna hans þó.

Hér er svo albúm með myndum af afa ... og hér er albúm með nokkrum myndum eftir hann.


Richard Örn

 

Það kunngjörist hér með að Richard Örn kom í heiminn með keisaraskurði í morgun kl. 09:50. Drengurinn stendur vel undir sínu riddaralega nafni: Hann er stór og hraustur, orgaði eins og herforingi nánast um leið og rist var á kviðinn og kastaði þvagi á barnalækninnn við fyrsta tækifæri.

Móður og barni heilsast vel. Myndir eru hér ... og svo eru enn fleiri myndir á Facebook


Stína amma

5.4.2007 17 43 58GTABV 00031Hún Stína amma mín er nú látin eftir nokkuð erfið veikindi undanfarna mánuði. Það er auðvitað ekki hægt að segja að andlát hennar hafi komið á óvart – úr því sem komið var – en samt finnst manni þetta pínulítið skrítið. Manni fannst einhvern veginn eins og lífsgleði hennar og þróttur hlytu að vara að eilífu eða þar um bil, slík var útgeislun hennar alveg fram undir það síðasta.

Það var alltaf gaman að koma til ömmu. Þar var líf og fjör, og stöðugt rennerí af fólki, þó svo aldrei væri nóg um að vera að dómi þeirrar þróttmiklu félagsveru sem amma var. Hvernig má enda annað vera, hafandi bæði alist upp í hinni fjölmennu og líflegu „Lúðrasveit Maríu“ og svo alið upp annan eins og síst fyrirferðarminni skara?

Mínar fyrstu minningar um ömmu eru frá Bergstaðastrætinu – Hótel Skrölt, eins og það var ævinlega kallað. Rifsberin í garðinum, kleinur í poka, nýsteiktar lummur ... einhvern veginn var amma alltaf nátengd við góðan mat í mínum huga. Jólin á Hótel Skrölt eru öllum ógleymanleg sem þeirra fengu að njóta. Jafnvel litlum pöttum sem mest lítið skildu í öllum þeim fyrirgangi sem þeim fylgdu. Þá var nú skarkað í pottum, glamrað í diskum og bollum, skrafað og hlegið hátt og hvellt. Þá var tekið hraustlega til matar síns, og það þó slíkur væri fjöldinn að sérhver borðflötur var þétt setinn og við krakkarnir máttum tylla okkur á kolla eða bara á gólfið með diskana í kjöltunni.

Minningar mínar um ömmu frá hinum síðari árum eru skýrari, eins og vonlegt er, en ekki síður hlýlegar. Sumarið 2003, komin vel á níræðisaldur, heimsótti hún okkur Anett í Skotlandi, ásamt 26.2.2009 19 31 04 0002pabba, mömmu og Fannari. Við dáðumst mjög að krafti hennar og úthaldi – ekki mátti á það minnast að taka því rólega hennar vegna – og ekki síður að hlýju hennar og lífsnautn. Samband okkar ömmu styrktist svo enn frekar eftir að við Anett fluttum hingað heim aftur. Það var sérlega gaman að sjá hve hún ljómaði í hvert sinn sem við kíktum við í Sólholtinu, enda var Snæbjörn litli snemma farinn að hlakka mikið til að hitta langömmu sína í hvert sinn sem brugðum okkur suður yfir heiðar.

Ömmu er sárt saknað, en nokkur huggun er þó að vita að fáir munu hafa lifað lífinu betur en hún.

Hér eru nokkrar myndir til minningar um hana.


Fleiri myndir (loksins)

Jæja, þá dreif ég mig loksins í því að ganga frá síðustu kvikmyndunum sem ég er með frá Ragnari afa mínum. Reyndar er nú eitthvað meira í því efni sem ég er með, en það er af það slöku2008 07 22 10 34 48 003411m gæðum að það þjónar tæpast tilgangi að setja það hér inn. Ég tek reyndar eftir því að þessar wmv-myndir eru í frekar slakri upplausn, en upphaflegu myndirnar sem Gísli brenndi á disk eru í mun betri gæðum, svo ef einhvern langar í betri kópíu, þá er bara að láta mig vita!

Ég bætti líka inn nokkrum ljósmyndum í leiðinni (í „ansi gömlu“ möppuna). Þetta skannaði ég eftir slides-myndum frá afa. En, annars vil ég endilega benda á síðuna hans Steina: 123.is/steini, þar eru ógrynni af gömlum myndum frá afa og hafa verið skrifaðar athugasemdir við all margar þeirra. Mjög gaman að skoða þetta.

Njótið vel.


Hríðarsund

Þá er blessaður veturinn farinn að láta á sér kræla og vonandi að hann staldri nú við lengur en fáeina daga í þetta skiptið. Það hleypur nefnilega óttalegur krakki í mig þegar snjóa festir. Þá vil ég helst vera úti að leika með litlu börnunum. Nú, eða þá í sundi, en af einhverjum ástæðum finnst mér alveg sérstaklega notalegt að synda í snjókomu. Það er einstaklega makindalegt að synda rólegt baksund horfandi upp í mugguna með opinn munn og reyna að ná sem flestum snjóflygsum á útrétta tunguna. Ég mæli sterklega með þessari þerapíu fyrir þá sem eru að fara á taugum yfir einhverri fjármálakreppu þarna í Rigningavík: Bara skella sér hingað norður í dýrðina og öðlast nirvana svamlandi í hríðinni með opið gin. Ef það setjast a.m.k. fimm snjóflygsur á tunguna fyrir hvern syntan metra eru sundtökin hæfilega letileg.

Talandi um sund, þá erum við öll, familían, farin að synda reglulega tvisvar í viku. Það er virkilega gaman að fylgjast með Snæbirni í lauginni. Hann segist syndur sem selur, en mér sýnist þetta nú frekar líkjast ísbjarnarsundi, eins og hann á jú nafn til. Hann á þó ekki í nokkrum vandræðum með að krafla sig áfram og spænir bæði langs og þvers yfir laugina á ótrúlegum hraða fyrir svona lítinn mann.

Það er svo auðvitað búið að halda upp á afmælið hans með pompi og prakt ... ekki sjaldnar en þrisvar. Nú síðast um þarsíðustu helgi og dreif ég nú loks í að skella nokkrum myndum í albúm, eins og sjá má hér til hliðar.


Bjartur afi og myndirnar hans

Þá kem ég því loksins í verk sem ég hef lengi ætlað mér: Að koma einhve16.7.2006 11-53-51_0004_croprjum af málverkunum hans Bjarts afa míns á vefinn.

Bjartur afi, Guðbjartur Oddsson, hefur málað ógrynni af myndum vítt og breitt um landið, gjarnan sem veggskreytingar í félagsheimilum, skólum, sjúkrahúsum, barnahebergjum, eða hvar sem hann annars var að mála í það og það skiptið. Hann hefur nefnilega, að því er virðist ólsökkvandi listsköpunarþorsta, og reytti stanslaust af sér myndir og skreytingar á meðan hann enn gat málað.

Afi er fæddur á Flateyri 1925, annar af alls ellefu börnum Odds Guðmundssonar og Vilhelmínu Jónsdóttur. Á unglingsárum fluttist hann suður til Keflavíkur og stundaði þar sjómennsku í nokkur ár, en hóf svo nám í málaraiðn, fyrst hjá Magnúsi Sæmundssyni og síðar Jóhanni Sigurðssyni. Hann fluttist svo aftur vestur og lauk sveinsprófinu á Ísafirði 1951. Hann starfaði svo óslitið sem málari, fyrst í Bolungarvík, en síðar vítt og breitt um landið, mest á norðurlandi.

Ég bjó svo til albúm hér þar sem sjá má nokkrar mynda hans.


Um myndirnar hans afa

Sjá Roðann í austriÉg var beðinn að útskýra eitthvað hreyfimyndirnar sem ég hef verið að dunda við að hlaða hér inn á bloggsvæðið mitt og sjá má tengla í hér til hliðar. Mér er auðvitað ljúft að verða við þeirri ósk.

Myndirnar tók afi minn, Ragnar Þorsteinsson kennari. Þær myndir sem ég á í fórum mínum sýnist mér að séu teknar á árunum 1956 til þetta ca. 1962. Afi var óttalegur dillukarl og á þessum árum var hann forfallinn myndasjúklingur. Hann tók reiðinnar býsn af ljósmyndum (finna má nokkrar þeirra hér á þessu bloggsvæði) og einnig all nokkuð af kvikmyndum, 8 mm að ég held (eða var það 16?). Á árunum 1956 til ’73 var afi kennari á Reykjaskóla í Hrútafirði og eru mörg mynskeiðin þaðan og úr nágrenninu, en einnig eru einhver skot úr Eyjafirði, Reykjavík, vegavinnu væntanlega í Dölunum, og svo auðvitað Rússlandsferðinni. Til Rússlands fóru afi og amma 1957 ásamt einhverjum hópi fólks sem ég man nú svosem ekki deili á. Amma var þá ólétt af Gísla, yngsta syninum (sem á heiðurinn af því að hafa komið þessum myndum á stafrænt form), sem skýrir væntanlega hvað hún er veikluleg þarna í kojunni á einum stað í myndinni. Ekki veit ég hvort það var einhver tilgangur með ferðinni annar en bara að heimsækja Fyrirheitna Landið, en það má svosem vel vera að þetta hafi eitthvað tengst skólastarfinu. Afi var alla tíð eldheitur kommúnisti og lofaði Stalín og prísaði löngu eftir að minning hans var vanhelg orðin í Sovétríkjunum. Jafnvel eftir að Sovétríkin höfðu liðast í sundur hélt afi tryggð við sitt gamla átrúnaðargoð.

Mörg myndskeiðin (og aragrúi af ljósmyndum) eru svo tekin í vegavinnunni sem afi stundaði lengi vel á sumrin og eru þetta ugglaust verðmætar heimildir um lagningu vega á Íslandi.

Ég mun svo halda áfram að tína inn fleiri ljós- og kvikmyndir eftir því sem ég nenni og hef tíma til.

Lifandi myndir

Þá er ég loksins farinn að koma því í verk sem ég lofaði fyrir lifandi löngu: að koma á netið einhverju af kvikmyndunum hans afa, sem Gísli kom með á ættarmótið í fyrra á diski. Nokkur myndskeið eru komin inn hér. Svo setti ég líka nokkrar ljósmyndir hér.

Njótið vel.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband