Gamla íþróttahúsið

Þá er ég líklega búinn að trassa það nógu lengi að halda áfram með staðarlýsinguna: 

Ef við fikrum okkur í suðurátt frá Kartöflukofanum rekumst við fyrst á Gamla íþróttahúsið. Reyndar minnir mig að þvottahús hafi staðið þar við endann á einhverjum tímapunkti - gott ef maður átti það ekki til að klifra upp á þak á því - en það má þó vera að mig misminni. Ekki man ég eftir Gamla íþróttahúsinu í notkun sem slíku, enda nýja íþróttahúsið byggt fyrir mína tíð, en hins vegar man ég vel eftir því sem skúr og draslgeymslu. Nyrsti hluti hússins var þá einhverskonar bílskúr, en í restinni af húsinu hafði verið klastrað saman íbúð og var ofan á þeirri hrákasmíð all stórt geymsluloft. Þar uppi kenndi ýmissa grasa og mátti m.a. finna gamlar leikmyndir og búninga sem nemendur höfðu búið til í gegn um árin. Þarna gat verið gaman að gramsa, en maður þurfti að passa sig, því mannvirkið var ekki ýkja traust.

Sumarið ´81, þessa fáeinu daga milli unglingavinnunnar og skólans, fékk ég svo aðstöðu þarna í skúrnum til að menja þakrennur og niðurföll sem setja átti upp á gamla skólahúsinu sem þá var verið að taka í gegn að innan sem utan. Þarna var kjörið að dunda sér við að menja á rignigardögum eða þegar of hvasst var til að ég gæti verið uppi á þaki að bera á kantinn, sem var hitt meginverkefni mitt, því þarna var skjól fyrir rigningunni og bölvuðum næðingnum sem látlaust beljar inn Hrútafjörðinn ... og svo var býsna stutt í kaffi, því það innbyrðum við, ásamt óhemju magni af kleinum og hnallþórum, inni í áðurnefndri hrákasmíð. Ekki man ég hvers vegna ... trúlega hefur matsalurinn bara ekki verið tilbúinn eftir endurbygginguna.

Verandi barnið í hópnum varð ég að sjálfsögðu fyrir barðinu á uppáhaldstómstundargamni allra iðnaðarmanna - senda græningjann eftir uppdiktuðum tækjum og tólum. Smiðir virðast einkar duglegir við að mjólka þennan gamla og úr sér gengna brandara. Það hafa því líklega verið þeir sem reyndu trekk í trekk að senda mig upp á geymsluloftið eftir plankastrekkjurum, stikknöglum, rörapenslum, rósóttri árabátamálningu og öðru ámóta drasli. Það virðist kannski ekki mikil rökvísi í því að ætla þessum þarfaamboðum stað uppi á gömlu og rykföllnu geymslulofti, en þar gekk þeim það til að hér var ekki aðeins verið að senda mig erindisleysu heldur einnig að gera mér þann stórskemmtilega grikk að láta mig húrra niður úr loftinu og beina leið ofan í súpupottinn hjá matseljunni (sem einnig hafði aðstöðu þarna í skríflinu). En, ég sá nú aldeilis við þeim, hafandi margra ára reynslu af þessu ágæta lofti og vitandi full vel hve ótraust það var, hvar mátti stíga niður og hvar ekki. Ég tiplaði því ósmeykur eftir burðarbitunum um loftið þvert og endilangt, kom hróðugur til baka og tilkynnti hátt og snjallt að ég hefði leitað um allt loftið en gæti hvergi fundið þessa fjandans rishallaréttskeið - hún hlyti bara að vera einhversstaðar annarsstaðar. 

Ég minni svo aftur og enn á kladdann. Vel má vera að ég hafi gleymt að færa inn einhverjar upplýsingar í hann, svo það er um að gera að kíkja á hann.  

Svo má geta þess að það eru komnar nokkrar nýjar gamlar myndir í safnið ... fleiri bætast við von bráðar. Njótið vel! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er nú ekki hægt að afgreiða gamla þvottahúsið með einni setningu. Þvottahúsið var til margra hluta nytsamlegt.Það var ekki bara þvottahús, heldur líka baðhús, sláturgerðarhús og síðast en ekki síst voru fínir sleikstaðir við hvert horn.  Í þvottahúsinu var mjög stórt baðkar, stór kolakynntur pottur og svo að sjálfsögðu þvottavélar. Þar var vél sem skólinn átti önnur sem Sólveig átti og svo fína BTH þvottavélin hennar mömmu, sem var með rafmagnsvindu og hægt var að taka vinduna af og setja í staðinn strauvélina fínu.  Ég var svo heppin að þegar ég fór að búa var mamma búin að fá sjálfvirka þvottavél svo hún gaf mér þá gömlu og það get ég sagt ykkur að aldrei hefur verið eins vel þveginn þvottur, eða strauaður á mínu heimili eins og á meðan ég notaði hana. Stóri potturinn var notaður til að sjóða þvottinn og baðkarið til að skola hann. En þetta voru ekki einu hlutverk þessara eðal gripa.  Fyrstu árin okkar í Reykjaskóla var ekkert bað í íbúðinni, þannig að þegar baða þurfti okkur systkinin fór mamma með strolluna út í þvottahús og þar baðaði hún okkur öll í einu í stóra baðkarinu, síðan vorum við látin hlaupa inn með handklæði utan um okkur, og hlupum við eins hratt og við gátum ef veðrið var vont. Þar sem við vorum náttúrulega einstaklega pen börn´, þá þurfti nú ekki að baða okkur á hverjum degi heldur var skolað af okkur upp úr vaskinum  sem var í svefnherberginu.  Á haustin var mikið um að vera í þvottahúsinu, vambir kaloneraðar og skolaðar í baðkarinu, og ef manni tókst ekki að laumast í burtu var maður settur í að reita ristla,  sauma vambir eða eitthvað álíka geðslegt. Slátrið var síðan soðið í stóra pottinum.  Eitt mjög merkilegt tæki bættist fljótlega við, en það var rafmagnsþeytivinda, og síðast þegar ég vissi var hún enn í notkun og búið að færa hana út í nýja þvottahúsið.  Við vinkonurnar ég Alda og Minna reyndum yfirleitt að laumast út á kvöldin áður en útivistartíminn (sleiktíminn) byrjaði. þÁ var allra skemmtilegast að koma sér fyrir upp á þaki á þvottahúsinu, lágum við þar í leyni og biðum eftir pörunum. Svo ef við vorum svo heppnar að það væri snjór á þakinu, þá bjuggum við til snjólbolta og biðum eftir rétta augnablikinu. Þegar ástarbríminn var að komast í hámark og strákurinn ætlaði að fara að slumma blautum kossi á dömuna létum við snjóboltunum rigna niður á milli þeirra.  Þá áttum við stundum fótum fjör að launa.  Læt þetta duga um þvottahúsið.  Hvernig er þetta með systkini mín eru þau orðin elliær? Afhverju koma engin skrif frá ykkur?  já eða barnabörnin þeirra gömlu, hvað munið þið frá Reykjaskóla, já eða vegavinnunni Kalli ,Gísli, Steini Öddi?.   Og heyrðu Oddur ég geri alvarlegar athugasemdir við veðurlýsingar þínar út Hrútafirðinum, þær eru alveg gersamlega út í hött. Þar er alltaf spegilsléttur sjór, logn og blíða.   Kveðja Gúa

Gúa (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 21:32

2 identicon

Ég var að skoða nýjustu myndirnar hérna til hliðar.  Ég sé ekki betur en að þetta sé Lauga og hún haldi á Ödda, og drengurinn með slönguna sé Öddi. Mér sýnast þetta vera tröppurnar hjá Krumma.  Hvað segir Lilja?  kv. Gúa

Gúa (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 21:39

3 identicon

Já, gott að minnst var á gamla íþróttahúsið. Ég man þá tíð sem maður fór í kerfi til Axels Adréssonar þar sem maður var látinn gera ýmsar boltaþrautir meðal annars að fella kubb með brjóstsykurmola ofan á. Ef manni tókst að fella helvítis kubbinn þá fékk maður að éta molann sem venjulega var perubrjóstsykur með grænu bragði. Þið getið ímyndað ykkur hvað það var mikil sæla fyrir lítinn gutta sem ekk fékk nammi í hverri viku og jafnvel ekki í hverjum mánuði að ná sér í eins og einn mola í tíma. Axel lét okkur líka standa upp á sól og fara með vísu. Ég kunni: Jólasveinar ein og átta.....

Seinna þegar við stálpuðumst svolítið þá var íþróttahúsið leikvöllur okkar meðan nemendur voru á lestíma. Við fórum í eltingaleik og skollaleik og róluðum og klifruðum. Sérstaklega var gaman að fara í hollonn skollin því salinn var hægt að myrkva algerlega.

Seinna, eftir að nýja íþróttahúsið var komið i notkun, þá var sett vatnsdæla inn í húsið. Dæla þessi átti að halda þrýstingi á vatnskerfi Reykjaskóla. Að auki var innréttuð skólastofa þarn niðri. Og í þrjá vetur þjáðist maður við nám þarna en í tíma og ótíma fór helítis vatnsdælan í gang með tilheyrandi hávaða. Þarna náði maður þó einhverjum þroska þrátt fyrir að Magnús Gestsson væri kennari okkar tvo síðustu veturna. Hann var nú einn af þessum mönnum sem ekki ætti að hleypa nærri börnum við nám. Leiðindin voru óskapleg.

Sorrý

Bæti við þetta seinna

Þaða eru nefnilega komnir gestir til að trufla mann.

Öddi (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og níu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband