Um myndirnar hans afa

Sjá Roðann í austriÉg var beðinn að útskýra eitthvað hreyfimyndirnar sem ég hef verið að dunda við að hlaða hér inn á bloggsvæðið mitt og sjá má tengla í hér til hliðar. Mér er auðvitað ljúft að verða við þeirri ósk.

Myndirnar tók afi minn, Ragnar Þorsteinsson kennari. Þær myndir sem ég á í fórum mínum sýnist mér að séu teknar á árunum 1956 til þetta ca. 1962. Afi var óttalegur dillukarl og á þessum árum var hann forfallinn myndasjúklingur. Hann tók reiðinnar býsn af ljósmyndum (finna má nokkrar þeirra hér á þessu bloggsvæði) og einnig all nokkuð af kvikmyndum, 8 mm að ég held (eða var það 16?). Á árunum 1956 til ’73 var afi kennari á Reykjaskóla í Hrútafirði og eru mörg mynskeiðin þaðan og úr nágrenninu, en einnig eru einhver skot úr Eyjafirði, Reykjavík, vegavinnu væntanlega í Dölunum, og svo auðvitað Rússlandsferðinni. Til Rússlands fóru afi og amma 1957 ásamt einhverjum hópi fólks sem ég man nú svosem ekki deili á. Amma var þá ólétt af Gísla, yngsta syninum (sem á heiðurinn af því að hafa komið þessum myndum á stafrænt form), sem skýrir væntanlega hvað hún er veikluleg þarna í kojunni á einum stað í myndinni. Ekki veit ég hvort það var einhver tilgangur með ferðinni annar en bara að heimsækja Fyrirheitna Landið, en það má svosem vel vera að þetta hafi eitthvað tengst skólastarfinu. Afi var alla tíð eldheitur kommúnisti og lofaði Stalín og prísaði löngu eftir að minning hans var vanhelg orðin í Sovétríkjunum. Jafnvel eftir að Sovétríkin höfðu liðast í sundur hélt afi tryggð við sitt gamla átrúnaðargoð.

Mörg myndskeiðin (og aragrúi af ljósmyndum) eru svo tekin í vegavinnunni sem afi stundaði lengi vel á sumrin og eru þetta ugglaust verðmætar heimildir um lagningu vega á Íslandi.

Ég mun svo halda áfram að tína inn fleiri ljós- og kvikmyndir eftir því sem ég nenni og hef tíma til.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og núlli?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband