Júbilering 2007

Vegna mikils fjölda áskorana birtist hér með ræðan sem ég flutti fyrir hönd júbilanta við útskrift ML síðasta laugardag. Reyndar var nokkur hluti ræðunnar spunninn upp á staðnum, en eftirfarandi er nokkuð nærri lagi, að ég held:

Kæru stúdentar,

Fyrir hönd júbilanta vil ég óska ykkur kærlega til hamingju með áfangann ... og skólanum til lukku með þennan föngulega hóp.  

Þegar ég var beðinn um að halda stutta tölu fyrir ykkur var ég fljótur að segja já, enda taldi ég að þar sem ég hef eytt lunganum af þessum tuttugu árum frá minni útskrift innan veggja háskóla, ýmist við nám eða önnur störf, þá hlyti ég að hafa eitthvað fram að færa sem þjónað gæti sem hvatningarorð og móralskur stuðningur fyrir yfirvofandi háskólanám, því ef tölfræðin lýgur ekki, þá munu flest ykkar, ef ekki þið öll, halda áfram innan skamms að feta menntaveginn. Það reyndist svosem rétt ályktað hjá mér, en ég áttaði mig þó fljótt á því að til þess að gera því öllu viðhlýtandi skil þyrfti ég að tala hér í allan dag, og því nenni ég satt að segja ekki. Ég get þó sem snöggvast sagt ykkur að sá undirbúningur sem ég hlaut hér á Laugarvatni mér ómetanlegt vegarnesti fyrir mína löngu háskólaferð. Og, það er ekki bara ég sem hef slíka sögu að segja. Innan þess smáa en knáa hóps kennara sem sinnir kennslu í líftækni við Háskólann á Akureyri eru ekki færri en 4 með stúdentspróf frá ML upp á vasann – um þriðjungur fastráðins kennarliðs í auðlindafræðum. Þetta segir sína sögu um gæði þess undirbúnings sem ML færir sínum nemendum í stúdentsgjöf. Ég er því ekki í nokkrum vafa um að fræðilegan undirbúning undir háskólanám hafið þið fengið góðan og ég býð ykkur hjartanlega velkomin til náms í líftækni við Háskólann á Akureyri (umsóknarfrestur er til 5. júní).

En, nóg um framtíðina. Hún hleypur ekki í burtu frá okkur. Við skulum frekar líta um öxl, og af því ég veit að þið eruð fróðleiksfúst fólk sem unir sér frekar við auðgun andans en froðublástur dægur- og gamanmála, þá ætla ég að lesa fyrir ykkur valda kafla úr merkri og háalvarlegri skýrslu þar sem greint er frá rannsóknum rannsóknateymisins Mímis sem stundaði rannsóknir á velflestum sviðum mannlegrar þekkingar að Laugarvatni veturna 1983-1987.  

Tíminn er naumur, svo við sleppum bara Inngangi og Aðferðum og vindum okkur beina leið í Niðurstöðurnar:

Á sviði eðlisvísinda fóru fram ítarlegar mælingar á hegðun Vimms í andrúmslofti, og var þar einkum hugað að svifgetu, dreifni og sethraða við staðalaðstæður í staðalvistarverum staðalnemanda í staðalástandi. Niðurstöður voru eftir væntingum og krefjast ekki endurtekningar. Jafnframt fóru fram hjóunarfræðilegar tilraunir þar sem mæld voru hornhröðun, fallhraði og öskurstyrkur hjóaðra nemenda við staðlaðar aðstæður, sem og í frávikatilfellum til samanburðar. Ekki fannst tölfræðilega marktæk fylgni milli fallhraða nemenda og líkamsþyngdar og er það í góðu samræmi við brautryðjendarannsóknir Galileos í hjóunarfræðum ... sem skoðast þá hér með staðfestar. 

Á sviði líftækni var unnið ötullega að rannsóknum á framleiðslu líftækniafurða á fljótandi formi með gersveppum af Saccharomyces ættkvísl úr tilfallandi hráefni, svo sem strásykri, mólassa, rúgbrauði og mjólk. Meðal niðurstaðna má nefna að heimtur líftækniafurðanna stóðu í beinu samhengi við hversu vel falið gerjunarílátið var, svo og hve vandlega ilmrænir eiginleikar framleiðslunnar voru skermdir með angan af kæstum sokkum og undirfatnaði.

Líftæknirannsóknirnar voru einnig samþættar við geðjunarrannsóknir, svo og, af stakri fórnfýsi, rannsóknir á lífeðlisfræðilegum áhrifum neyslu afurðanna á þætti á borð við námsgetu og félagslega færni neytenda. Þrátt fyrir fádæma elju rannsóknateymisins tókst ekki að kryfja þessi atriði til mergjar með fullnægjandi hætti, en áhugasömum má benda á að nám og rannsóknir í líftækni fara nú fram af fullum þunga við þá menntastofnun háskólastigsins sem ágætust er hér á landi, Háskólann á Akureyri (umsóknarfrestur er til 5. júní).   

Rannsóknir á líkamsbyggingu nemenda voru stundaðar af kappi, og var þar einkum hugað að rúmmáli nafla, sem og að fótafýsíógnómíu, einkum hvað varðar formfegurð táa. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir og gott bókhald mælingarniðurstaðna reyndist ekki unnt að draga tölfræðilega marktækar ályktanir af niðurstöðunum og mælir rannsóknateymið Mímir því með áframhaldandi rannsóknum á þessu sviði.

Á sviði hugvísinda var kastað fram fyrriparti og beðið botna. Enn er beðið. 

Á sviði viðskipta- og hagfræða voru áhrif tappagjalds á verðmætasköpun í sjálfstæðum atvinnurekstri bíleigandi nemenda metin. Í ljós kom að þó áhrif gjaldsins á vísitölu framfærslukostnaðar hins almenna nemanda væru veruleg reyndist fælingarmáttur gjaldsins óverulegur og áhrif á verðmætasköpun voru því jákvæð.

Á sviði matvæla- og næringarfræða eru þær niðurstöður helstar að mæjónes er, þrátt fyrir allt, ekki gott með hverju sem er. Ennfremur leiddu rannsóknir teymisins í ljós að hnullungar kálfa drullu eru og verða bölvað eiturbras. 

Unnið var að rannsóknum á sviði stjórnmálafræða af fádæma elju. Einkum var beitt rökræðu- og argaþrassaðferðum og voru þær niðurstöður helstar að Bolsévisminn blífur og er raunar aðeins tímaspursmál hvenær fullnaðarsigur næst í byltingunni gegn kapítalísku aurasálunum  ... lengi lifi félagi Andrópoff!

Þá látum við þetta gott heita úr þessari skýrslu, en hún mun birtast innan skamms, eða um líkt leyti og alisvínin taka flugið.

Megi ykkur farnast vel. Lifið heil.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og tíu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband