ættarmót yfirvofandi

Enn er Snæbjörn kominn með einhverja sýkingu ... þetta er nú meira pestrbælið hjá þessari dagmömmu. Í þetta sinn er hann með einhverskonar veirusýkingu í munninum - líkast til herpes eða eitthvað slíkt. Hann er sosum ekki mjög veikur, en mjög aumur í munninum og þarafleiðandi sípirraður.

Annars gengur lífið bara sinn vanagang. Við drifum okkur að heimsækja Tana gamla um daginn. Það var nú bara gaman. Alltaf jafn eiturhress, kallinn, og þau hjón talandi hvort uppí annað sleitulaust. En ég dáist mjög að því hvað hún Anett er dugleg að halda svona sambandi við fólk - sjálfur er ég kolónýtur í slíku, en hef þó gaman af þegar Anett dregur mig, nauðugan viljugan, til að umgangast fólk. Það er því kannski ákveðin íronía fólgin í því að ég skuli hafi fundið það upp hjá mér (að mestu af sjálfsdáðum) að taka að mér, ásamt Ödda frænda mínum og vonandi einhvejum fleirum, að skipuleggja ættarmót. Þetta er að vísu bara svona mini-ættarmót, varla mjög mikið yfir 100 manns, en fjöldasamkoma engu að síður sem stendur til að halda seinnipart júlí næsta ár á Reykjaskóla. Þetta er sumsé móðurslektið mitt - afkomendur afa og ömmu, sem orðin eru glettilega mörg. Líklega eins gott að segi Stínu ömmu ekki hversu mörg þau eru - hætt er við að það myndi eitthvað koma við keppnisskapið í henni að komast að því að afkomendur Laugu ömmu og Ragnars afa eru töluvert fleiri en hennar. Úrþví ég minnist á þetta er trúlega ekki úr vegi að ég búi til nýtt myndaalbúm og slengi inn nokkrum fjölskyldumyndum.

Annars hefur ósköp lítið gerst hér hjá okkur. Úti á plani eru hellusteinarnir okkar enn í snyrtilegum stöflum. Við höfum ekkert komist í að spreyta okkur á að leggja þá vegna anna í vinnunni og veikinda Snæbjörns. Að vísu var Anett eitthvað að snudda þarna úti eitt kvöldið um daginn og komst að því að okkur vantar meiri sand áður en við getum farið að leggja þetta. Það væri náttúrlega gott að koma þeim niður fyrir veturinn, en kannski gerir ekkert til þó þetta bíði til vors.

Fleiri eru tíðindin ekki að þessu sinni. 


dsc02312.jpg

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband