Hríðarsund

Þá er blessaður veturinn farinn að láta á sér kræla og vonandi að hann staldri nú við lengur en fáeina daga í þetta skiptið. Það hleypur nefnilega óttalegur krakki í mig þegar snjóa festir. Þá vil ég helst vera úti að leika með litlu börnunum. Nú, eða þá í sundi, en af einhverjum ástæðum finnst mér alveg sérstaklega notalegt að synda í snjókomu. Það er einstaklega makindalegt að synda rólegt baksund horfandi upp í mugguna með opinn munn og reyna að ná sem flestum snjóflygsum á útrétta tunguna. Ég mæli sterklega með þessari þerapíu fyrir þá sem eru að fara á taugum yfir einhverri fjármálakreppu þarna í Rigningavík: Bara skella sér hingað norður í dýrðina og öðlast nirvana svamlandi í hríðinni með opið gin. Ef það setjast a.m.k. fimm snjóflygsur á tunguna fyrir hvern syntan metra eru sundtökin hæfilega letileg.

Talandi um sund, þá erum við öll, familían, farin að synda reglulega tvisvar í viku. Það er virkilega gaman að fylgjast með Snæbirni í lauginni. Hann segist syndur sem selur, en mér sýnist þetta nú frekar líkjast ísbjarnarsundi, eins og hann á jú nafn til. Hann á þó ekki í nokkrum vandræðum með að krafla sig áfram og spænir bæði langs og þvers yfir laugina á ótrúlegum hraða fyrir svona lítinn mann.

Það er svo auðvitað búið að halda upp á afmælið hans með pompi og prakt ... ekki sjaldnar en þrisvar. Nú síðast um þarsíðustu helgi og dreif ég nú loks í að skella nokkrum myndum í albúm, eins og sjá má hér til hliðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það hlýnar líklega um mánaðamótin. Langir vetur eru nú ekki í tísku!

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.10.2008 kl. 00:40

2 identicon

Sæll. Ég datt inn á síðuna þína þegar ég googlaði Reykjaskóla.

Skoðaði myndirnar af Reykjaskóla og sá þar mynd af afa mínum þegar hann var 18 ára:) (Ólafur Kristjánsson). Svo skoðaði ég myndbönd og sá þar ótrúlega kunnulegt andlit og var að hugsa hvort það gæti verið að það væri þarna myndband þar sem Þórði Ólafssyni bregður fyrir sem litlum dreng?

Það væri frábært ef þú gætir sent mér e-mail eða bara svarað hér.

Kveðja Silja Þórðardóttir

Silja Þórðardóttir (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 11:24

3 Smámynd: Oddur Vilhelmsson

Sæl Silja,

Það getur vel verið. Ég þekki ekki nærri því alla sem sjást í þessum myndum. Það væri helst að spyrja mömmu mína eða hennar systkini. Ef þú sendir mér tölvupóstfangið þitt skal ég gjarnan koma fyrirspurn á framfæri. Hvar var það annars, sem þér fannst Þórði bregða fyrir?

Bestu kvaðjur, Oddur

Oddur Vilhelmsson, 22.10.2008 kl. 13:01

4 identicon

Sæll Oddur og takk fyrir að svara.

Heyrðu, það er á myndbandinu sem heitir "Reykskælingar" og hann birtist eftir svona 10-15 sek. er litli strákurinn (ca 8 ára) sem er einn á mynd í smá tíma.

tölvupóstfangið mitt er siljat@hi.is  

kærar þakkir, Silja

silja (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 15:14

5 identicon

sæll Oddur

 Gaman að villast inná bloggið þitt, ég var að leita af efni um líftækni og fékk upp síðuna þína. Skemmtilegir pistlar hjá þér um líftækni.

 Kveðja Stefanía

Stefanía (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og tveimur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband