Færsluflokkur: Ljóð

Skröggskvæði

New PictureÖll þekkjum við Grýlu gömlu og Leppalúða, og óþekktarormana þeirra, jólasveinana. Önnur grýlubörn, eins og Láp, Skráp, Lepp, Skrepp og Leiðindaskjóðu þekkja líka margir. En, minna hefur í seinni tíð farið fyrir hálfbróður jólasveinanna úr „hinni helvítis ættinni“, honum Skröggi Leppalúðasyni, og er hann þó ódámur hinn versti og rammgöldróttur í þokkabót eins og sjá má í kvæðinu sem fer hér á eftir. Ekki veit ég hver orti þessa stórskemmtilegu þulu, en hún mun hafa verið all þekkt í Dölunum í kring um þarsíðustu aldamót. Njótið vel.  

 

S K R Ö G G S K V Æ Ð I

Eitt vil ég kvæði kveða til gamans mér,

og skemmta með því börnunum hvað skeður nú hér.

Og skemmta með því börnunum og skiljið þið nú,

út gekk ég eitt sinn, mín ætlan var sú.

Út gekk ég eitt sinn og ætlaði út í fjós,

fínt var þá veður og fagurt tunglsljós.

Fínt var þá veður, en frost nokkuð hart,

sá ég hvar hann Skröggur skundaði snart.

Sá ég hvar hann Skröggur skringilegur fór,

ærið mjög var ygldur og yfirburðastór.

Ærið mög var ygldur, mig óttaði af þeim segg,

með kafloðna kjálkana og kolsvart var skegg.

Með kafloðna kjálkana og kampa þandi út,

nasirnar víðar og nefið sem á hrút.

Nasirnar víðar og nóg kinnbeinin há,

eins voru augun og þar sæi í skjá.

Eins voru augun, ég þetta sá,

hundsbelgur loðinn á höfðinu lá.

Hundsbelgur loðinn á  höfðinu var,

harla stóran klasserk á herðunum bar.

Með harla stóran klasserk hann heilsar upp á mig

með kurteisi nóga og knébeygði sig.

Með kurteisi nóga hann kveður svo til mín:

"Nauðstaddur kem ég núna til þín.

Nauðstaddur kem ég að náðir þú mig fljótt,

vildi  ég fá að vera að vísu í nótt.

Vildi ég fá að vera, ef veittirðu það mér,

Kalt er mér næsta því kvöldað nú er.

Kalt er mér næsta og kemst ei lengra nú,

Segi ég þér sannleikann og sver það við trú."

"Ef segirðu mér sannleikann," svaraði ég þá,

"hermdu mér þitt heiti og hvaðan ertu frá?

Hermdu mér þitt heiti og hver er þín ætt,

ef ég hefi áður heyrt um hana rætt."

"Ef ég hefi áður heyrt," ansaði hann þá

„Skröggur er mitt heiti, ég skýri svo frá.

Skröggur er mitt heiti, ég skrafa nú um hitt

að hérna uppi í Hyrnunni er heimilið mitt.

Hérna uppi í Hyrnunni hef ég til þess von,

lýstur hef ég verið Leppalúðason.

Lýst hefur verið Lúpa móðir mín,

dáfalleg næsta, dyggðug og fín.

Dáfalleg næsta, dróst það svo til nú,

giftur var hann Leppalúði, en Grýla hét hans frú.

Giftur var hann Leppalúði, en Grýla lagðist sjúk,

heilt lá hún árið og hrærði ei sinn búk.

Heilt lá hún árið og hlaut minn faðir þá

að biðja sér styrktar um búið að sjá.

Að biðja sér styrktar því börn hann átti mörg,

þau voru þybbin, þrálynd og körg

Þau voru þybbin, þar var ei stans,

þá fékk hann Lúpu að þjóna krökkum hans.

Þá fékk hann Lúpu, þæg var honum sú,

furðu mjög var framsýn og forstóð hans bú.

Furðu mjög var framsýn, það frétta sérhver má,

hann gekk í sæng til hennar og gjörðist ég þá.

Hann gekk í sæng til hennar en hún Grýla þar

fór á fætur aftur þá fullbatnað var.

Fór á fætur aftur með fólskulegt geð,

varð hún næsta ybbin, er vissi hún hvað var skeð.

Varð hún næsta ybbin og yggldi þá sig,

út rak hún Lúpu og einnig líka mig.

Út rak hún Lúpu æði langt sér frá,

ekki vildi hún okkur með augunum sjá.

Ekki vildi hún okkur una neins góðs,

þó var honum Leppalúða þetta til móðs.

Þó var honum Leppalúða þrautamikið bann,

eitt fékk okkur eyland til uppeldis hann.

Eitt fékk okkur eyland, æði langt sér frá

og bátskip eitt lítið að bjarga okkur á.

Með bátskip eitt lítið bjuggum við svo þar

allt til þess að ára tólf orðinn ég var.

Allt til þess að ára tólf, uppá féll svo þá,

missti ég hana móður mína mér í burtu frá.

Missti ég hana móður mína, mest það harma ég nú,

einn var ég þar eftir um árin heil þrjú.

Einn var ég þar eftir, en eitt sinn svo til bar

að herkóngur nokkur hélt að eyjunni þar.

Að herkóngur nokkur hélt álfheimum frá,

ég vék í ferð með honum og var ég glaður þá.

Ég vék í ferð með honum, víst ég um það get,

heyrði ég það skrafað að Hængur hann hét.

Heyrði ég það skrafað að Hængur væri hans nafn,

við flesta þótti hann frægðunum fremur en jafn.

Við flesta þótti hann frægðunum fjárafla von,

giftur var hann Hængur, en Gnípa hét hans kvon.

Giftur var hann Hængur, gildur höfðings mann,

listirnar margar lét mér kenna hann.

Listirnar margar lærði ég honum hjá.

Dávæna dóttur sá döglingur á.

Dávæna dóttur, dygg var hún og trú,

Skröfuðu það margir að Skjóða héti sú.

Skröfuðu það margir, ég skrökva ekki má

að drjúga lagði ég elskuna dóttur kóngsins á.

Að drjúga lagði ég elskuna, dóttur kóngs ég bað,

ég meinti að mér gengi vel málefni það.

Ég meinti að mér gengi að mægjast við hann hér,

Reiddist þá Hængur svo réði varla sér.

Reiddist þá Hængur, en ráð ég annað tók,

kennt hafði hann mér listir, en kunnáttuna ég jók.

Kennt hafði hann mér listir, en kólna tók mitt geð,

dóttur kóngs ég náði svo dimmrúnum með.

Dóttur kóngs ég náði, því drós mér unni blíð,

vildi ég þaðan halda, þá hentug var tíð.

Vildi ég þaðan halda, því heitt hún unni mér,

þótt heimanfylgju enga hefði með sér.

Þótt heimanfylgju enga hafa með sér má,

eftir það héldum við álfheimum frá.

Eftir það héldum við Eyrarhyrnu að,

höfum við svo verið hingað til við það.

Höfum við svo verið með harla lítinn auð,

á meðan við gátum unnið, þá veittist okkur brauð.

Á meðan við gátum unnið og vorum bæði ung,

við áttum þar börnin og ómegð var þung.

Við áttum þar börnin tuttugu og tvö,

af þeim deyði fimmtán, en eftir lifðu sjö.

Af þeim deyði fimmtán, en uppólust hin,

eftir það kom bólan, sem ekki þótti lin.

Eftir það kom bólan, öll þau deyði þá,

síðan af þeim misstum ég segja víst má.

Síðan hefur kerlingin karar legið mín,

ei kemst hún á fætur, það eykur mér pín.

Ei kemst hún á fætur, eins erum bæði við

örvasa orðin, um ölmusu því bið.

Örvasa orðin, af því fýsti mig,

fór ég því að heiman að finna vildi ég þig.

Fór ég því að heiman að frétt hafði ég enn

að góðsöm þú værir við gustukamenn.

Að góðsöm þú værir og gustukagjörn,

herði ég það skrafað að hér væru börn.

Heyrði ég það skrafað að hér væru piltar tveir.

Guðmundur og Egill, greindir eru þeir.

Guðmund og Egil girnir mig að fá,

ég heyri í þeim hrinurnar og hljóðin ósmá.

Ég heyri í þeim hrinurnar hvern dag sem nátt,

skrafa þá margir að Skröggur sé í gátt.

Skrafa þá margir, ég skríði gluggum á,

hlusti ég til barnanna hvort þau ýli þá.

Hlusta ég til barnanna og heyri þeirra són,

seldu mér hann Guðmund sú er mín bón."

"Ég sel þér ei hann Guðmund, því gott barn hann er,

eins er um hann Egil, aldrei gefst hann þér.

Eins er um hann Egil, til orða svo ég tek,

þó heyra þykist þeirra hljóðin og brek.

Þó heyra þykist þeirra hljóðin svo há,

þá eru þeir að syngja Saltarann á.

Þá eru þeir að syngja sín bænavers.

Ekki þarftu Skröggur að ætlast til þess.

Ekki þarftu Skröggur að ætlast sílks af mér,

þú ert ei svo haltur , sem hinkrar þú hér.

Þú ert ei svo haltur, þó hafir þú hér dvöl,

busla máttu í fjörunni marinkjarna og söl.

Busla máttu i fjörunni marinkjarna um sker,

grásleppuroðin, þau gefast líka þér.

Grásleppuroðin þau gefast þér í lóg,

í Hyrnunni hjá þér af hrafnsungum er nóg.

Í Hyrnunni hjá þér, hafa máttu það,

þá máttu brytja þér alla í spað.

Þá máttu brytja svo þú sért nokkru nær,

ekki þarftu að svelta, ef allt þetta fær."

"Þótt ei þurfi ég að svelta," ansaði hann þá.

"Það er ekki af þínu, þó þetta megi ég fá.

Það er ekki af þínu," og þá espaði hann sig,

Hann gerðist svo reiður að gleypa ætlaði hann mig,

Hann gerðist svo reiður og gegndi ég honum þá:

"Lifur og lungu úr lambi skaltu fá.

Lifur og lungu láttu nægja þér,"

Gladdist þá Skröggur og gjörði þakka mér.

Gladdist þá Skröggur og gekk sig svo á burt,

hefi ég ekki síðan neitt af honum spurt.

Hefi ég ekki siðan heyrt hvar hann heldur sig,

virði menn til góða, vísir báðu mig.

Virði menn til góða vísnastefja tón.

Blessuð veri börnin en bragar hverfur són.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband