6.3.2007 | 15:43
Helstu upplýsingar
Það kunngjörist hérmeð og staðfestist að niðjamót þeirra heiðurshjóna Laugu Stefánsdóttur og Ragnars Þorsteinssonar verður haldið að Reykjaskóla í Hrútafirði helgina 27. til 29. júlí næstkomandi. Það þarf vart að taka það fram að hér er um sérstakt einvalalið ljúflinga, listamanna og látúnsbarka að ræða, og er því ljóst að hér er mannfagnaður sem enginn sómakær afkomandi Ragnars & Laugu má fyrir nokkurn mun missa af. Takið því endilega helgina frá og hefjið söng- og málbeinsliðkunaræfingar hið fyrsta.
Vart þarf heldur að fjölyrða um ágæti staðarins, en eins og við öll vitum er Reykjaskóli Paradís á jörðu með sundlaug, gufu, íþróttasal, íþróttavelli, heimavistum, tjaldstæði og frábærum mat, svo nefndir séu fáeinir landkostir og standa þeir gestum til boða margir ókeypis en aðrir gegn hóflegu gjaldi, svo sem hér má sjá (börn 6-12 ára greiða hálft gjald, fyrir 5 ára og yngri er frítt):
- Gisting í 2ja manna herbergi: 2.500 kr. á mann á nótt. Gestir eru vinsamlegast beðnir um að koma með eigin rúmfatnað.
- Gisting á tjaldstæði (í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl): 500 kr. á mann á nótt.
- Aðgangur að sundlaug, gufu og heitum pottum: 0 kr.
- Morgunverður fyrir þá sem þess óska: 850 kr.
- Hátíðarkvöldverður laugardagskvöldið 28. júlí: 3.200 kr. á mann. Vínveitingar verða á staðnum.
Dagskrá mótsins hefur ekki verið skipulögð út í hörgul enn sem komið er og reyndar óvíst hvort nefndinni muni þykja nokkur gustuk af því að njörva fólk niður í prógramm. Það eru því allar líkur á að dagskráin verði fremur laus í reipunum. Hér er þó tillaga:
- Mæting er á föstudagseftirmiðdegi og er þá óvitlaust að líta í setustofuna í gömlu skólabyggingunni, en hugsanlegt er að þar megi þá finna einhvur ættmenni sitjandi að skrafi (og jafnvel vægu sumbli) eitthvað frameftir kvöldi.
- Á laugardeginum er lagt til að farin verði rútu-, göngu- og grillferð upp í Ljárskógasel. Þar verða uppeldisstöðvar Ragnars skoðaðar, maulað á grilluðum pulsum, og svo haldið aftur til baka til Reykjaskóla. Gera má ráð fyrir að þetta verði hálfsdagsferð og muni kosta fáeinar spesíur, svona til að kovvera rútuna, pulsurnar, remúlaðið og gosið.
- Um laugardagskvöldið er boðið upp á hátíðarkvöldverð í matsalnum í gömlu skólabyggingunni. Vínveitingar verða á staðnum. Að kvöldverði loknum er óvitlaust að safnast saman í íþróttahúsinu, taka nokkur létt lög og jafnvel slá upp balli.
- Á sunnudagsmorgni mætti t.d. fara í leiki á íþróttavellinum áður en við kveðjumst og höldum hver í sína átt.
Svo þetta gangi nú allt létt og lipurlega fyrir sig, þá þætti mér vænt um að þið létuð mig vita eins fljótt og kostur er hvort þið mætið og hversu mörg, hvernig gistingu þið kjósið, o.s.fr.v. Það má gjarnan senda mér þessar upplýsingar í tölvupósti í póstfang oddurv@unak.is eða oddurvilhelms@simnet.is, en einnig er velkomið að hafa samband við mig símleiðis: 462 2215, 697 4252 eða 460 8503.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 22.10.2008 kl. 21:41 | Facebook
Athugasemdir
mér líst vel á þetta. Það er reyndar bekkjarmót hjá mér 28. júlí þannig að ég get bara verið á föstudeginum en þetta hljómar engu að síður vel.
kveðja, Villi
Villi (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 07:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning