5.5.2007 | 11:54
Kartöflukofinn og lækurinn
Eins og glöggir hafa tekið eftir, þá hafa bæst fáeinar myndir í albúmið. Þessar komu frá Ingu og eru teknar í Ráðleysu. Gaman að þessu.
Á dögunum lofaði ég því að ég myndi setja hér inn einhverja pistla um Reykjaskóla, svona úr því við ætlum að hittast þar. Reykjaskóli hefur skipað all stóran sess í mínu lífi reyndar væri varla ofsagt að kalla hann einn af tiltölulega fáum föstum punktum lífs míns. Eins og gildir um flest okkar, þá átti ég þar margar góðar stundir á meðan amma og afi bjuggu þar enn, en eftir að þau fluttu suður var þó mínum tengslum við staðinn engan veginn lokið, því pabbi var af og til að mála þar á sumrin og var ég þá gjarnan að sniglast í kringum hann á milli þess sem ég sótti sundnámskeið hjá Höskuldi Goða, sællar minningar. Mína allra fyrstu alvöru vinnu stundaði ég svo að sjálfsögðu á Reykjaskóla síðsumars 1981, eftir að unglingavinnunni á Hvammstanga lauk, en þá var verið að leggja lokahönd á breytingarnar miklu á Gamla skólahúsinu og fékk ég að menja þakrennur, mála þakkannta, grindverk og sitthvað fleira. Þau voru ófá, sumrin á 9. áratuginum sem ég fékkst við málningarvinnu í hinum ýmsustu byggingum skólans og telst mér til að það láti nærri að einu húsin á Reykjatanga í hverjum ég hef aldrei lyft pensli séu Byggðasafnið, Sæberg og Kartöflukofinn. Veturinn ´82-´83 var ég nemandi í 9. bekk (sem nú heitir 10. bekkur) á Reykjaskóla. Það er svo einstaklega viðeigandi að eftir að ég fluttist aftur til Íslands 2004 var það mitt fyrsta verk, á meðan ég beið í óþreyju eftir að fá að vita hvort ég fengi starfið mitt á Akureyri eða ekki, að mála að utan gluggana á Gamla skólahúsinu á Reykjaskóla. Að lokum má svo geta frábærs fjölskyldumót Stínu ömmu minnar og hennar niðja það sama sumar, en það var mikið skrall og skemmtilegt.
<!--[if !supportLineBreakNewLine]-->
<!--[endif]-->
Það má því nærri geta að mér þykir nokkuð annt um staðinn og þykist geta dregið fáeinar minningar honum tengdar upp úr götóttum hausnum að minnsta kosti þegar vel árar. Ég hef því hugsað mér að stinga hér inn á síðuna fáeinum pistlum um helstu kennileyti Reykjatanga. Minni mitt er reyndar löngu úr sér gengið af gegndarlausri ofnotkun og ofskólun, svo ég skammast mín bara ekkert þó eitthvað slæðist inn af villum og rangfærslum. Hér kemur þá fyrsti pistillinn og var ég að hugsa um að byrja þessa yfirferð á Kartöflukofanum, þeirri stórmerku byggingu:
Í mínum huga er og verður Kartöflukofinn hennar ömmu einhver merkasta byggingin á Reykjatanga. Hann lætur lítið yfir sér, blessaður. Bara svona lítill hóll með dvergadyrum í og er ég ekki frá því að hann hafi skroppið all mikið saman frá því í denn. En, þegar maður var fjögurra ára var hann hinn dægilegasti ævintýrakastali. Þarna mátti hæglega sjá fyrir sér að álfakóngur og -drottning ættu sér höll hvaðan þau stjórnuðu ríki sínu af hinum mesta myndugskap. Eða, ef sá gállinn var á manni, var kofinn hið myndarlegasta fjall sem beið þess að verða klifið af hugumprúðum könnuði, nú eða þá rennibraut sem skilað gat þessari líka eðal-grasgrænku á bossann, skelfileg draugakompa og ... jú, kartöflugeymsla sosum líka.
Þarna átti ég margar góðar stundir. Lengi vel var ég reyndar dál´tið smeykur að fara inn í hann þar var dimmt og skrýtin lykt. En, eins og með svo margt annað sem maður hræðist, þá var óttinn blandinn óstjórnlegri forvitni og ævintýraþrá. Að utanverðu var Kartöflukofinn einnig afar áhugaverður. Það var endalaust hægt að hlaupa upp á mæni og rúlla sér niður aftur og ekki spillti ef maður hafði lítinn frænda til að hnoðast með í leiðinni.
Einnig er það meðal sérstakra landkosta Kartöflukofans að hann er býsna nálægt læknum. Þaðan er því stutt að fara og sulla aðeins á milli bylta og annarra ævintýra, en lækurinn var einstaklega vel sullhæfur á þeim árum sem hér um ræðir, og helgaðist það einkum af tvennu: hann var alveg passlega volgur þarna í nánd við Kartöflukofann (en full heitur ofar og farinn að verða pínu svalur neðan við Sæbergsveginn), og svo hinu að í lækjarbotninum var þetta líka herlegasta slím og allnokkuð af leir líka. Slímið gerði það að verkum að lækjarbotninn var nokkuð háll, en það, ásamt leirnum, varð þess valdandi að sullið vildi verða nokkuð svona sjabbí á tíðum. Rétt neðan við Kartöflukofann rann lækurinn í gegn um ræsi sem var svo haganlega gert að fjögurra ára snáðar áttu tiltölulega hægt með að vaða þar inn og jafnvel alveg í gegn um veginn, en þrautin að komast út hinum megin var heldur þyngri, því þar féll lækurinn út í litlum fossi oní dálítinn hyl. En þetta var verðug þraut, þó svo sumum frændum manns hafi þótt þetta brambolt full glannalegt. Einnig voru bakkarnir brattir í þessum hluta lækjarins, svo maður varð eiginlega að vaða nokkurn spotta þar til maður komst með góðu móti uppúr aftur. Það var segin saga að þá væri löngu flotið ofaní stígvélin.
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkur: Reykjaskóli | Breytt 23.10.2008 kl. 08:44 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir skemmtilega grein um kartöflukofann. Við krakkarnir notuðum hann líka fyrir sleða-og skíðabrekku, stundum notuðum við pappa eða bara eitthvað sem hendi var næst til að renna okkur á. Svo má nú ekki gleyma honum "meistara Jakob", sem svaf sínum Þyrnirósarsvefni í kofanum á hverjum vetri, og reyndar gaf þar upp öndina eitt vorið. Þeir félagarnir Ragnar og Bjarni Aðalsteins fóru með líkið upp á Hrútafjarðarháls og skildu það þar eftir. Síðan skemmtu þeir sér við tilhugsunina um það að ef hann finndist eftir mörg hundruð ár mundu fornleifafræðingar eða einhverjir aðrir sérfræðingar klóra sér í höfðinu og velta vöngum yfir dýralífinu á Hrútafjarðarhálsinum. Ég vildi bara bæta þessu við kv. Gúa
Gúa (IP-tala skráð) 6.5.2007 kl. 17:53
Öddi hvar eru þín skrif um kartöflukofann?
Guðrún Ragnarsdóttir (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 12:15
Já, Það er þetta með kartöflukofann. Í minningu minni var hann heilt fjall þar sem vi krakkarnir renndum okkur á sleða. Það var óskaplegt puð fyrir litla krakka að tosa sleðanum upp en Ragnar gamli hafði smíðað nokkuð stóran sleða (þriggjabarna) úr vinkiljárni. Þessi sleði sló reyndar öllum öðrum sleðum við í rennsli og hraða. Fínustu skrautmáluðu trésleðar bliknuðu þegar maður þrusaðist af stað. Best þótti að ná upp á veg fyrir neðan kofann og langbest var að ná alla leið yfir en það tókst nú bara örsjaldan hjá hörðustu sleðamönnum.
Önnur minnig um kofann var kannski ekki eins ánægjuleg en það var þegar maður var sendur að sækja kartöflur þangað inn. Þar var myrkur og þar voru mýs og heldur leiðinleg lykt.
Meira seinna.
Örn Ragnarsson, 10.7.2007 kl. 16:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning