5.4.2025 | 15:36
Söngsöknuður
Eitt alskemmtilegasta ferðalag sem ég hef farið um ævina var þegar ég tók upp á því að fara að læra söng, fyrst í einkatímum hjá hinum óviðjafnanlega Mikka Clarke, og svo í Tónlistarskólanum á Akureyri þar sem hjartagullið hún Magga Árnadóttir var lengst af minn aðalkennari. Þetta var þvílíkt ævintýri og ekki laust við að ég sakni þess ... sérstaklega nú, þegar ég er í söngstraffi á meðan lungun eru smám saman að skríða í samt lag eftir heiftarlega og afar langvinna lungnabólgu. En ... er þá ekki einmitt rétti tíminn til að rifja upp nokkra skemmtilega hápunkta úr þessum alltof stutta ferli sem söngnemandi? Það vill nefnilega svo til að ég geymi á YouTube ansi hreint margar söngtilraunir - mis góðar, eins og gengur - en allt var þetta ákaflega skemmtilegt!

Árni Thorsteinson (1870-1962) var eitt af nafntoguðustu tónskáldum landsins um þarsíðustu aldamót, og ekki að ósekju. Hann samdi einstaklega falleg sönglög með hreinum og tilgerðarlausum laglínum. Þeir Guðmundur skólaskáld voru miklir vinir og samdi Guðmundur mörg ljóð sín sérstaklega fyrir Árna. Hér er eitt þeirra, Friður á jörðu. Þetta fluttum við Eyþór Ingi Jónsson organisti í Akureyrarkirkju 22. nóvember 2019. Ef ég man rétt, þá var þetta í eitt af fyrstu skiptunum sem ég kom fram utan skólans og því eilítið nervus, eins og eflaust má heyra.

Og talandi um Árna T., þá er hér annað dásamlegt lag eftir hann, Þess bera menn sár við ljóð J. P. Jacobsen í þýðingu Hannesar Hafstein. Þetta var flutt á lokatónleikum mínum í Tónó, þann 11. maí 2024 og það er sjálfur meistari Richard Örn Blischke Oddsson sem leikur á píanóið. Ótrúlega gaman að fá að koma svona fram með syni sínum og kann ég honum ómælda þökk fyrir þolinmæðina við pabba sinn.

Annað yndislegt íslenskt tónskáld var Sigursveinn D. Kristinsson, en honum var ég svo heppinn að kynnast, bæði hjá afa og ömmu þar sem hann kom stundum íheimsókn, og svo kenndi hann mér á blokkflautu og undirstöðuatriði í tónfræði þegar ég var lítill. Aldeilis hreint yndislegur maður. Og þá er það ekki síðra valmenni sem hér leikur á píanóið lag Sigvalda, Lágnætti við ljóð Þorsteins Erlingssonar, Daníel Þorsteinsson, en af honum lærði ég gríðarmikið í Tónlistarskólanum.

Og Danni er sko ekki bara frábær píanisti, hann er líka stórgott tónskáld. Ég kann honum mikla þökk fyrir að hafa nennt að setja saman þessa einsöngsútgáfu af hinu bráðskemmtilega kórlagi sínu Kuldahlátur við ljóð Davíðs Stefánssonar. Mér þykir bara verst að hafa ekki gert söngnum nægilega góð skil þarna á lokatónleikunum mínum - ég get gert miklu betur og lagið á svo sannarlega skilið betri raddbeitingu ... en svona er það að flytja læv - það gengur ekki alltaf allt upp!

Vendum nú kvæði í kross. Í söngnáminu fær maður stundum að glíma við óperuaríur sem sumar eru ansi hreint skemmtileg flugeldasýning. Hér er það La calunnia e un venticello (Rógurinn er andvari) úr Rakaranum í Sevilla eftir Giacomo Rossini. Aldeilis hressandi! Þetta var flutt á masterklass hjá Diddú á Sönghátíð í Hafnarborg í júní 2024. Það er Helga Bryndís Magnúsdóttir sem leikur á píanóið.

Já, masterklassar ... þeir eru enn ein unaðssemdin við söngnámið. Sá fyrsti sem ég fór á fyrir utan skólann var masterklass Kristins Sigmundssonar á Sönghátíðinni í Hafnarborg 2020. Þar flutti ég þetta bráðskemmtilega lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, Valagilsá, við bráðskemmtilegt ljóð Hannesar Hafstein. Það er Hrönn Þráinsdóttir sem leikur á píanóið.




Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning