1.8.2007 | 09:54
Postscriptum
Jæja, þá er ættarmótinu lokið og held ég að flestir hafi nú bara haft gaman af. Kærar þakkir fyrir skemmtunina, þið öll!
Veðrið var að vísu ekki tiltakanlega samvinnuþýtt framan af, en þó rættist eitthvað úr því seinnipart mótsins. Dagskráin var að mestu af fingrum fram og lukkaðist það bara býsna vel. Þó voru tvær skipulagðar uppákomur: rútuferð upp í Borgarvirki þar sem varla var stætt fyrir roki, en partahlaðborð Gúu gerði meira en að bæta upp fyrir hrekki veðurguðanna. Hin uppákoman var hinn stórskemmtilegi trommuhringur sem Kalli stjórnaði af hjartans innlifun. Hann vakti gríðarlega lukku jafnt meðal þátttakenda sem áheyrenda. Svo var það náttúrlega hátíðarkvöldverðurinn sem Kalli Örvars eldaði fyrir okkur af sinni alkunnu snilld, en undir borðhaldinu skoðuðum við glærusjóv og gamlar kvikmyndir auk þess sem ófáar bráðskemmtilegar sögur fengu að fjúka. Að matnum loknum fengum við að skoða gömlu íbúðina Laugu og Ragnars sem er líklega eini hluti gamla skólahússins sem enn er svo að segja óbreyttur frá fyrri tíð og röltum um staðinn og rifjuðum upp hitt og þetta ... fengum m.a. tilsögn í rúðubrotum frá meistaranum sjálfum (mynd 1, mynd 2). Að því loknu var farið í kubbaleik - bráðskemmtilegur leikur við allra hæfi. Bæði kvöldin var svo setið í nýja skólahúsinu (Bjarnaborg) og skrafað og sungið langt fram eftir nóttu. Skilst mér að hörðustu partíljónin hafi skriðið í bælið um fimmleytið. Þau systkini, Öddi litli og Drífa eiga öðrum fremur heiðurinn af að halda uppi fjörinu með gítarspili og söng. Að sjálfsögðu voru nokkur rússnesk og kommúnísk lög kyrjuð af stakri innlifun ... en Nallinn gleymdist! Þetta er yfirsjón sem bæta þarf úr á næsta móti.
Talandi um næsta mót, þá var ný nefnd skipuð með harðri hendi. Kiddi, Inga og Valdís voru skipuð í nefndina við dynjandi lófatak og engar mótbárur teknar til greina . Ekki var endanlega skorið úr um hvenær halda skyldi næsta mót, en ýmsum þótti full ástæða til að svona skemmtilegar samkomur væru haldnar annað hvert ár eða svo.
Hér er bæklingur um fjölskylduna og framættir hennar sem ég bjó til fyrir mótið. Hann er sniðinn til útprentunar beggja megin á pappírinn í booklet-formi (þ.e. síðurnar raðast þannig að þær lenda á réttum stað ef pappírinn er brotinn saman í miðjunni). Skjalið er nokkuð stórt (um 30 Mb).
Ég bjó svo til nýtt albúm og stakk inn nokkrum myndum sem ég tók. Ég hef reyndar aldrei gefið mig út fyrir að vera góður myndasmiður, en það sýnist mér hins vegar hann Tryggvi vera, en hans ættarmótsmyndasíða er hér og hvet ég alla til að kíkja á hana. Flottar myndir!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 22.10.2008 kl. 21:37 | Facebook
Athugasemdir
Gaman að skoða myndirnar af þessu frábæra ættarmóti! Einstaklega skemmtilegt og vel heppnað ættarmót og ég er strax farin að hlakka til þess næsta!
Drífa Þöll (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 11:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning