27.8.2006 | 11:58
veikindi og vísindi, trúmál og tungumál
Jæja, þá erum við Anett komin í hóp þeirra foreldra sem geta hallað sér aftur og kinkað gáfulega kolli þegar talið berst að barnaveikindum og andvökunóttum þeirra vegna. Snæbjörn hefur að vísu veikst áður, og er þar skemst að minnast berkjubólgunnar illvígu sem hann fékk í vor, en aldrei hefur hann verið svona veikur áður. 40 stiga hiti nótt eftir nótt - svo mikill hiti að strákgreyið fékk krampakippi hvað eftir annað í fyrrinótt - og þessi líflegi litli karl er eins og umskiptingur, orðinn sljór og daufur í dálkinn - svona hálfkjökrandi flestum stundum. Það er ámátlegt að horfa uppá þetta og skelfilega pirrandi að geta ekkert gert til að láta honum líða betur. Mér finnst þó að hann sé að byrja að braggast. Hann var farinn að líkjast sjálfum sér í morgun og sefur nú lengri lúra.
Annars ætlaði ég mér eiginlega að blogga til að dreifa huganum - hugsa um eitthvað annað í smástund á meðan Snæbjörn sefur. Nú fer misserið að byrja hér hjá okkur (er reyndar byrjað formlega þó mín kennsla byrji ekki fyrr en á miðvikudag) og þar sem fyrstu fyrirlestrarnir í Líffræðinni eru um sögu lífvísindanna, þá leitar hugurinn óneitanlega til þessa merkilega fyrirbæris sem hugmyndasagan er. Hvernig margar góðar hugmyndir falla í gleymskunnar dá um aldir áður en þær eru uppvaktar í nýjum búningi á nýjum forsendum og hvernig aðrar góðar hugmyndir eru skrumskældar og misnotaðar af óprúttnum pólitíkusum og trúarleiðtogum. Ég á erfitt með að fyllast ekki réttlátri reiði þegar ég segi frá afbökun heilags Tómasar frá Akvínó á náttúrufræði Aristótelesar - afbökun sem vafalítið hefti framþróun lífvísindanna um aldaraðir og gerir að sumu leyti enn. Eða þá grófa misnotkun nasistanna á þróunarkenningu Darwins til mannræktar. Ástandið virðist síst hafa batnað. Það er áhyggjuefni hvernig útúrsnúningur á rannsóknaniðurstöðum og fræðilegum vangaveltum ríður húsum í fjölmiðlum þessa dagana. Í dag virðist eingöngu hægt að ræða málin í kjarnyrtum, tilvitnunarvænum setningum og slagorðum. Sjaldnast er kafað ofaní málin og þau skoðuð hlutlægt og í smáatriðum. Er þá sama hvort menn eru með eða á móti Kárahnjúkavirkjun - báðir aðilar eru jafn sekir um útúrsnúninga, valháða meðtöku á rannsóknaniðurstöðum og stundum hreinar og beinar rangfærslur. Í báðum herbúðum er völdum sérfræðingum flaggað í topp þar sem þeir hanga eins og hræ í gálga á meðan pólitíkusarnir velja hagstæðar setningar úr skýrslum þeirra til kasta hver í annan. Manni verður hálf bumbult af að horfa uppá þetta. Sama er auðvitað uppi á teningnum varðandi loftslagshlýnun og fleiri málefni.
Og nú virðast trúarleiðtogarnir vera að færa sig upp á skaftið líka ... eins og það hafi nú verið þörf á því. Í sumar var haldin trúleysisráðstefna í Reykjavík. Mig langaði mikið til að fara á hana, enda hef ég bæði lesið og hlustað á Richard Dawkins áður og þykir mikið til hans málflutnings koma, þó hann sé nú kannski full herskár í máli fyrir minn smekk. En það kosta bæði hönd og fót, svo maður sletti nú aðeins, að fá að sitja þessa ágætu ráðstefnu, svo ég tímdi ekki að fara. Í ljósi allrar þeirrar umræðu sem verið hefur síðan, þá sé ég nú soldið eftir því að hafa heima setið, því Dawkins virðist hafa náð að stuða fólk nokkuð vel. Þannig falla biskup og prestar nú hver um annan þveran við að skrifa um ágæti trúar sinnar í blöðin. Það er svosem allt í lagi, en pirrandi að þeir þurfa endilega að blanda vísindum í málið - fara háðuglegum orðum um vísindahyggju og fleira í þeim dúr og hefur jafnvel borið á því að upp sé dreginn gamli fjandskapurinn við þróunarkenningu Darwins. Ég fæ því ekki betur séð en draugur heilags Tómasar hafi verið vakinn upp á ný. Hann hefði nú alveg mátt liggja, að mínu mati, enda þessi tugga orðin all vel jöpluð. Ég er svona að bræða það með mér að fara að skipta mér af þessu rifrildi á síðum blaðanna, en þó er varla að ég nenni því.
En, talandi um trúmál, þá má ég til eð að koma því að hvað ég er gapandi hissa á því hversu gegnsýrt allt okkar líf og menning hér á Íslandi er af blessaðri Þjóðkirkjunni og þeirra eilífa Jesújarmi. Eftir að hafa búið erlendis svona lengi, þá einhverveginn tekur maður miklu meira eftir þessu en áður. Sjálft tungumálið okkar er gegnsýrt af þessari óværu. Þannig hnaut ég um frétt í útvarpinu um daginn þar sem eitthvað var verið að tala um ófriðinn í Írak og þannig komist að orði að allir kirkjugarðarnir í Írak væru að verða fullir af ... einhverju, man ekki hverju. Skyldu vera margir kirkjugarðar í Írak? Ég veit það svosem ekki, en mig grunar að átt hafi verið við þá staði þar sem heimamenn grafa líkin, óháð því hvort kirkja kemur þar við sögu eða ekki. Ég fór því að velta fyrir mér hvort það væri virkilega ekki til í íslensku annað orð en kirkjugarður yfir þessháttar stað? Grafreitur finnst mér einhvernveginn vera annað og þrengra orð, en orðabók Menningarsjóðs gefur ekkert betra. Mér finnst það eiginlega óttalegur dónaskapur við múslima að kalla þeirra grafreiti kirkjugarða. Ég verð nú bara að segja eins og Mikki refur að Einar Ben var rugludallur. Það er barasta tómt kjaftæði og vitleysa að á íslensku sé til orð yfir allt það sem hugsað er á jörðu. Annað þessu skylt sem pirrar mig stundum: af hverju er ekki hægt að segja eitthvað annað en gvöðhjálpiðér þegar maður hnerrar? Mér finnst það bölvuð hræsni af mér að biðja einhvern um hjálp sem ég þykist vita að sé ekki til, enda er ég farinn að grípa til þýskunnar þegar Snæbjörn litli hnerrar. Gesundheit finnst mér miklu vinalegri kveðja, auk þess sem hún fer betur í munni.
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkur: Vísindi og fræði | Breytt 23.10.2008 kl. 08:45 | Facebook
Athugasemdir
Mikið óskö er ég sammála þér með hversu takmarkað ástkæra og ylhýra getur nú verið, synd og skömm eiginlega vegna þess hversu skemmtilegt móðurmálið getur nú verið. Ég held að óttinn við erlend áhrif spili hér töluvert inn í. Þannig hefur Gesundheit náð inn í mörg tungumál hér á vesturhveli, kanar og skandinavar nota orðið hiklaust og ég er ekki frá því að það sé komið í einhverjar orðabækur sem hluti af daglegu tali í t.d. ensku eða sænsku. Á Íslandi er það hins vegar nánast dauðasynd að taka upp erlend orð eða áhrif í tungumálið.
Villi (IP-tala skráð) 28.8.2006 kl. 07:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.