hitt og þetta

Þá er undirbúningsnefndin fyrir ættarmótið fullskipuð. Ég hringdi semsagt í Laugu frænku og hún veitti bara merkilega litla mótspyrnu ... svo við þrjú munum væntanlega hittast næst þegar ég á leið þarna suðurfyrir og plotta eitthvað. Ég heyri þó ekki annað en allir séu ánægðir með helgina 27.-29. júlí, svo ég held ég staðfesti það bara.

Annars var ég bara heimavið í mestu makindum í gær. Snæbjörn var að ná sér eftir herpesinn og okkur þótti réttast að láta hann vera heima einn dag. Hann er núna farinn aftur til dagmömmunnar með stokkbólgna vör, en þó öllu hressari. Annars var hann býsna hress í gær og við feðgar nutum góða veðursins til hins ítrasta ... fengum okkur góðan göngutúr um bæinn og splæstum í vöfflur með rjóma og kókómjólk. Mér sýnist að litli maðurinn ætli ekki að verða neinn ættleri hvað rjómafíkn og kókómjólkurlosta varðar.

Það er einnig gaman að segja frá því að Anett er í góðum gír í vinnunni og finnst manni nú sem ÍSOR sé loksins að meta hana að verðleikum og leyfa henni að sýna hverju 7-ára starfsreynsla sem sérfræðingur hjá alþjóðlegu olíufyrirtæki getur skilað. Mér fannst alltaf mjög skrítið hvað henni virtist tekið af miklu fálæti í byrjun, hafandi alla þessa (að maður skyldi halda) verðmætu reynslu ... en kannski var það nú bara þetta íslenska skipulagsleysi og óframfærni sem skapaði það andrúmsloft. Allavega er hún mjög ánægð núna og stolt af því sem hún er að gera og er það vel.

Fleira er það þá ekki í bili. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér þykir merkilegt hversu ættrækinn þú ert orðinn! Af hinu góða tel ég. Kannski ég endi svona einn daginn líka. Er jafnvel að hugsa um að koma á þetta ættarmót næsta sumar... það gæti bara verið gaman. -Villi bró

Villi (IP-tala skráð) 21.9.2006 kl. 15:37

2 Smámynd: Oddur Vilhelmsson

Já, það er merkilegt ... sennilega spratt þessi frændrækni bara uppaf því að hafa verið í burtu svona lengi. En, það er gaman að heyra að þú sért að hugsa um að kíkja næsta sumar. Ég held einmitt að það verði mjög gaman og Reykjaskóli er nú bara orðinn afskaplega vinalegur og skemmtilegur staður fyrir svona samkomur. Oddur.

Oddur Vilhelmsson, 22.9.2006 kl. 13:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband