28.9.2008 | 17:19
Haggis
Eftir rúmlega árs hlé hef ég byrjað aftur að nostra eitthvað við þessa bloggsíðu. Ég kenni þar helst um einhverjum haustfiðringi í fingurgómunum ásamt heiladoða af völdum yfirvofandi Rannís-umsóknarfrests og tilheyrandi skrifum heilu og hálfu næturnar .
Annar ótvíræður haustboði er blessuð sláturtíðin, en við feðgar skelltum okkur í Hagkaup í gær og föluðum okkur til kaups þrjú slátur sem við tókum heim og föndruðum með eitthvað frameftir kvöldi (fátt hentar betur til að dreifa þreyttum huga en að taka slátur!)
Svona til að draga aðeins úr þjóðlega fílingnum tókum við Skotann á þetta og bjuggum til haggis, en það er skemmtilegt og sérdeilis bragðgott tilbrigði við lifrarpylsu. Uppskriftin sem við fylgdum" var einhvern veginn svona:
Ca. 3 lúkur af heilum höfrum saxaðar eins vel og þolinmæði Snæbjörns leyfði, dreift á bökunarplötu og ristaðar við 150°C með blæstri í hub. hálftíma
3 hjörtu, 6 nýru, 3 þindar, 1 lifur og ein lúka af mör hökkuð ásamt 6 meðalstórum laukum
Öllu gumsinu, ásamt þetta 2-3 lúkum af haframjöli, ca. 2 kúfuðum teskeiðum af nautakrafti, slatta af Köd&Grillkryddi, vænum slatta af svörtum pipar, ca. 1-2 tsk salti og smá slatta af cayenne-pipar hrært saman. Sjóðandi vatni bætt út í þar til soppan er orðin hæfilega meðfærileg.
Soppunni mokað í keppi (rúmlega hálffylltir) og saumað fyrir.
Slátrið skal svo soðið í 3 klst og borið fram við sekkjarpípuleik með neeps & tatties (kartöflum og rófustöppu). Skolist niður með óblönduðu viskíi.
Við höfðum svo ekki orku í blóðmörinn í bili ... hann bíður betri tíma.
Góðar stundir
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:38 | Facebook
Athugasemdir
Ég skil vel allar skriftirnar vegna RANNIS umsóknanna. Óska einnig til hamingju með haggisinn. Ég er jú fædd í Edinborg sjálfri, og mér finnst haggis rosalega gott!
Kærar kveðjur frá Selfossi, Ingibjörg
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 28.9.2008 kl. 17:43
Takk fyrir það, Ingibjörg. Hann kom svona líka bara ljómandi út, hagisinn - bragðmikill og góður, enda sparaði ég ekki piparinn. Við spúsa mín bjuggum í Skotlandi (Stonehaven) í tvö ár og líkaði afar vel (sérstaklega eftir að hafa dúsað í Englandi árið þar áður, við lítinn fögnuð viðstaddra ). Einstaklega ljúft og gott fólk, Skotar ... og mun betri kokkar en þeir fá almennt kredit fyrir.
Bestu kveðjur frá Akureyri, Oddur
Oddur Vilhelmsson, 28.9.2008 kl. 18:04
Oddur. þetta myndband sem þú hefur sett inn er stórkostleg söguleg heimild. Þú segir það frá afa þínum, sem eflaust hefur tekið þetta á 8 mm filmu, svart hvíta. En hvaða erindi átti hann til Rússlands 1957? - Mér finnst ótrúlegt að sjá þetta. Þarna keyrir blöðruskóti á íslenskum malargötum áleiðis til skips, svo sýnist mér ég sjá austfirsk fjöll áður en komið er til Rússlands, þar sem allt er baðið í glansheitum. Ekki furða þótt menn hafi hrifist af því sem var að gerast þar þá. - Settu inn fleiri upplýsingar. - kveðja úr þorpinu.
Haraldur Bjarnason, 1.10.2008 kl. 20:30
Ég skellti inn færslu með einhverri stuttri útskýringu á þessum myndum. Það má svo vera að einhverjir úr familíunni, langminnugri en ég, geti einhverju þar við bætt.
Oddur Vilhelmsson, 1.10.2008 kl. 23:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning