14.5.2009 | 09:48
Doktorsvörn í prótínmengjagreiningu
Það var einkar ánægjulegt að vera viðstaddur doktorsvörn Hólmfríðar Sveinsdóttur við Háskóla Íslands síðastliðinn föstudag. Hólmfríður vann verkefni sitt undir aðalleiðsögn Ágústu Guðmundsdóttur prófessors við matvæla- og næringarfræðideild HÍ, en meðleiðbeinendur voru auk mín þau Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir við HÍ og Helgi Thorarensen á Hólum. Verkefnið er því réttnefnt samstarfsverkefni þriggja háskóla: HÍ, HA og Hólaskóla. Frétt HÍ um verkefnið og vörnina má lesa hér.
Hólmfríður vann feikilega vandað og gott verkefni um þær breytingar sem verða á prótínmengi þorsklirfa við þroskun þeirra og þau áhrif sem ýmsir þættir í umhverfi og fæði hafa þar á. Að greina prótínmengi er ekkert áhlaupsverk. Það þekki ég af eigin reynslu. Nálgun Hólmfríðar er byggð á tvívíðum rafdrætti gjörvalls prótínmengis þorsklirfanna, en sú aðferð er tæknilega krefjandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Að auki fylgja ýmsar tæknilegar hindranir því að vinna með prótínmengi þorsklirfa. Þar má nefna að illgerlegt er að aðgreina vefi og því vann Hólmfríður með heildarmengi allrar lífverunnar, en það torveldar sjóngervingu og greiningu þeirra prótína sem eru til staðar í hlutfallslega litlu magni. Einnig er viss farartálmi fólginn í því að gagnabankar (oftast er hentugast að notast við hin ýmsu undirsöfn GenBank) eru fremur rýrir þegar kemur að þorskfiskum. Það ástand mun vonandi batna innan tíðar, því verið er að raðgreina gjörvallt erfðamengi Atlantshafsþorsksins.
Þrátt fyrir þessar tæknilegu hindranir vann Hólmfríður afar gott verkefni að mínu mati, þó auðvitað sé ég hlutdrægur . Of langt mál væri að rekja hér niðurstöðurnar, en benda má á að gerð er grein fyrir þeim í fimm ritrýndum tímaritsgreinum og einum ritrýndum bókarkafla, auk doktorsritgerðarinnar sjálfrar. Þar af eru tvær greinar þegar birtar: önnur í Aquaculture og hin í Comparative Biochemistry and Physiology.
Andmælendur voru þeir Phil Cash frá Háskólanum í Aberdeen og Albert Imsland frá Háskólanum í Bergen og ráku þeir báðir erindi sín snöfurmannlega og af stakri prýði. Vörn Hólmfríðar og athöfnin öll var HÍ til mikils sóma og þakka ég pent fyrir mig.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Líftækni, Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 10:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning