Grænar smiðjur

ORF líftækni, fyrirtæki þeirra Einars Mäntylä, Björns L. Örvar og Júlíusar Kristinssonar, er eitt af skemmtilegri líftæknifyrirtækjum landsins. Viðskiptahugmynd þeirra byggir á því að nota erfðabreytt bygg sem lífræna smiðju, þ.e. að láta það framleiða lyfjavirk prótín sem síðan eru einangruð og seld til lyfjagerðar. Möguleikarnir til verðmætasköpunar eru gríðarlega miklir í þessum geira og ástæða til að fagna góðu gengi ORF og óska þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Ég átta mig, hins vegar, ekki alveg á því hvert þessi frétt í Mogganum er að fara. Þarna er talað um „notkun á erfðabreyttum plöntum í landbúnaði“, áhrif (hvort sem þau nú eru ímynduð eða raunveruleg) á heilsu manna og þar fram eftir götunum. Ég er svosem enginn heimangangur hjá þeim í ORF og þekki ekki þeirra áætlanir, en eftir því sem ég best veit hafa þeir ekki sóst eftir því að rækta erfðabreytt bygg til manneldis. Það er því ansi misvísandi að setja þetta í eitthvert samhengi við hina hvatvísu og oft illa ígrunduðu umræðu um erfðabreytt matvæli.

Það er svo aftur annað mál að sjálfsagt og rétt er að gæta ýtrustu varúðar þegar erfðabreyttar lífverur eru ræktaðar úti í náttúrunni fremur en í lokuðum gróðurhúsum. Þó svo líkurnar á víxlfrjóvgun séu ekki miklar, þá eru það eðlileg og góð vinnubrögð að takmarka þær eftir því sem kostur er.


mbl.is Ætlar að rækta erfðabreytt bygg á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

varast þarf að einkaleyfi séu á tegundinni svo að aðrir byggræktendur þurfi ekki að borga þeim gjöld ef tegundin þá dreifist og krossast við annað bygg villt og galið.

Bændur í Bandaríkjunum hafa lent í því að þurfa að borga stórfyrirtækjum stórar upphæðir reglulega fyrir "að fá að nota erfðabreytta ræktun" sem reyndar barst yfir á akra þeirra og útrýmdi þeim tegundum sem þeir voru að rækta fyrir án þess að nokkuð væri hægt að gera við því.

Gamla Gullbjórinn fyrir mig takk. (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 17:08

2 identicon

Bygg víxlfrjóvgast ekki. Plantan æxlast með sjálfsfrjóvgun sem kemur í veg fyrir alla víxlun erfðaefnis milli plantna. Auk þess er nauðsynlegt að sá byggi hér á landi til þess að það vaxi, náttúruleg dreifing þess þekkist ekki hér á landi.

Ég veit að ORF og Landbúnaðarháskólinn hafa látið gera rannsóknir um hvort erfðabreytt bygg og náttúrulegt víxlfrjóvgist. Ekki hefur fundist nein víxlfrjóvgun í hátt í milljón plöntum sem hafa verið rannsakaðar. Auk þess hafa þeir áætlanir um varnarbelti og fuglalínur til að takmarka sem mest aðgang smádýra að ökrunum. Þó auðvitað verði aldrei hægt að útiloka það.

Karma (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 18:39

3 Smámynd: jórunn

Ég bendi þér á að skoða seinni athugasemd Helga Jóhanns við þetta blogg sitt þar sem koma fram heimildir fyrir því að melgresi hafi margoft í gegnum árin víxlfrjóvgast við bygg í villtri íslenskri náttúru, án aðstoðar.

jórunn, 30.5.2009 kl. 08:23

4 Smámynd: Oddur Vilhelmsson

Takk kærlega fyrir þessa ábendingu, Jórunn. Það er ánægjulegt að sjá umræðuna færast á hærra plan og vera studd vísunum í ritrýndar rannsóknir. Svona á vísindaleg rökræða að fara fram! Ég mun skoða þetta við tækifæri.

Oddur Vilhelmsson, 30.5.2009 kl. 11:40

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og átta?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband