Minning um afa

Bjartur afi 1 

Hann Guðbjartur afi minn, Bjartur málari, lést þann 12. ágúst síðastliðinn og langar mig til að rifja upp fáeinar af þeim mörgu og góðu minningum sem ég á um hann.

 

Afi var að jafnaði hæglátur maður og dagfarsprúður. Hann var ekki sú manngerð sem göslast í gegn um lífið með hávaða og látum, en þó hafði hann nokkuð gaman af að tala og ef sá gállinn var á honum komu sögurnar á færibandi. Afi kunni líka vel að segja sögur. Hann átti gott með að koma auga á spaugilegu hliðarnar á breyskleika mannanna og hafði sérstaka hæfileika til að finna mönnum lýsandi og eftirminnileg viðurnefni sem voru óspart notuð til að krydda frásagnir hans. Sögurnar hans voru málaðar björtum litum kímni og glettni og blandaðar með hæfilegum skammti af himinhrópandi ýkjum. Maður var aldrei almennilega viss hvar raunveruleikanum sleppti og ævintýrin tóku við í sögunum hans afa og einhvern veginn grunaði mann að hann væri ekki rétt viss sjálfur á stundum, slík var innlifunin. Þó afi væri prúður að jafnaði gat vissulega fokið í hann. Höfðum við þá á orði að „súinn“ væri kominn upp í honum og mun þar vísað til hinna stórlyndu áa hans í Súgandafirði, en föðuramma hans var GOGuðrún hin stórráða Oddsdóttir, annálað kjarnorkukvendi. Ég man að „súinn“ átti það til að ráða ríkjum þegar glímt var við umferðina í Reykjavík. Þá fengu hinir tillitsminni ökuþórar það óþvegið á kjarnyrtri vestfirsku. Sjaldan hef ég heyrt riddurum götunnar blótað af jafn miklu listfengi og innlifun og var það nokkur hrelling litlum patta sem hafði átt öllu blíðlegri tóni að venjast frá hinum barngóða afa sínum. En, maður var fljótur að læra að „súinn“ var jafnan skammlífur og hvarf jafn fljótt og hann brast á.

 

Sköpunargleði afa var hamslaus. Hann gat engan veginn látið sér nægja að mála bara veggi, loft og gólf, eins og hann gerði dag hvern svo sem fag hans bauð, heldur málaði hann einnig þvílík ógrynni af myndum að enginn hefur tölu á. Aldrei hélt hann þó sýningu eða taldi sig á nokkurn hátt í hópi hinna uppnefjuðu listamanna þjóðarinnar. Myndir sínar málaði hann eingöngu sér og sínum til ánægju og yndisauka. Hann þurfti heldur ekki striga og trönur til að skapa listaverk sín. Húsveggir, fjalir, blaðsneplar, spýtukubbar, hvaðeina sem myndaði hæfilega sléttan flöt var málað á, allt frá einföldum skreytingum til flókinna og úthugsaðra listaverka. Mér er minnisstætt þegar ég dvaldi hjá honum vestur á Mýrum í vikutíma eða svo. Hann var þá að smíða einhvern húskofa og þóttist ég, þá tíu ára eða svo, ætla að hjálpa honum eitthvað, en hef nú trúlega gert meira af því að þvælast fyrir. Ég hafði tekið með mér stóra teikniblokk og á kvöldin reyndi afi að kenna mér að teikna. Hann hefur fljótlega fundið að mínir hæfileikar lágu annars staðar, en fyllti sjálfur blokkina hraðar en auga á festi af hinum skringilegustu og skemmtilegustu myndum sem ég dundaði mér svo við að lita.7.4.2007 13 46 49GTABV 0109 1

 

Eftir þau erfiðu og afar langvinnu veikindi sem afi þurfti að glíma við síðustu árin, raunar á annan áratug, er maður eiginlega, fyrir hans hönd, hvíldinni feginn. En, ég sakna hans þó.

Hér er svo albúm með myndum af afa ... og hér er albúm með nokkrum myndum eftir hann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og tuttugu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband