Til hvers er háskólamenntun?

academia.jpg

Á þeim niðurskurðartímum sem við lifum nú og hrærumst í er eðlilegt, raunar nauðsynlegt, að spurt sé áleitinna spurninga um gagnsemi og gæði þeirrar þjónustu sem skattfé borgaranna er varið í. Menntun er líklega af flestum talin einn af hornsteinum nútíma samfélags. Það hlýtur því að vera forgangsatriði að hún skili því sem henni ber, að skattgreiðendur hljóti svo góða menntun sem kostur er fyrir þá fjármuni sem til hennar er varið. En hvað er góð menntun? Er til eitthvað sem heitir slæm menntun? Hvað á menntaður maður að kunna? Hvað á hann að geta? Við þessum spurningum eiga menntunarfræðingar eflaust svör, eða það skyldi maður að minnsta kosti vona, en það eiga allir rétt á að velta þeim fyrir sér og því langar mig til að setja fram nokkra naflaskoðunarpunkta um þetta efni. Hér kemur fyrsti pistillinn. Ég sé svo til hvort ég nenni að skrifa fleiri.

Fyrir þetta einni öld eða svo vissu allir hvað það var að vera menntaður. Lærður maður var vel heima í klassískum fræðum, kunni skil á helstu stefnum og straumum í heimspeki, hugmyndasögu og listum, var ritfær og vel máli farinn en var þó vís til að slá um sig með torskildum latínufrösum og tilvitnunum í Shakespeare, Goethe eða Jónas Halgrímsson. Til viðbótar hafði hann svo afburða þekkingu á kjörsviði sínu, hvort sem það var nú guðfræði, lög eða náttúruvísindi, og skyldi engum dirfast að draga yfirburði hans á því sviði í efa, enda var hann þrautæfður í rökfræði og þrætubókarlist.

Í dag er öldin nokkuð önnur. Sérfræðingar nútímans, og ég undanskil sjálfan mig ekki hvað þetta varðar, eru oftar en ekki hálfvankaðir nördar fastir í hugarheimi eigin kjörsviðs, þekkja hvorki haus né sporð á helstu verkum menningarsögunnar og geta ekki tjáð sig nema í flaumósa biðu fræðiorða sem enginn utan fámenns hóps sérfræðinga skilur. Maður vonar þó að sérfræðiþekking þeirra sé hafin yfir gagnrýni en þorir eiginlega ekki að spyrja af ótta við að drukkna í áðurnefndu fræðiorðaflóði.

geo_1032570.jpg Fyrir nokkrum árum (nánar tiltekið í september 2006) birtist í hinu ágæta leikmannsvísindariti Geo skemmtileg grein þar sem blaðamaðurinn Susanne Paulsen stillti einmitt upp þessum andstæðum (að vísu ekki í þessum orðum) og velti vöngum yfir spurningunni um hvað lærður maður á yfirleitt að kunna og hvernig því er sinnt í háskólum víðs vegar um Evrópu. Mér þótti greinin merkileg og geymdi því eintakið uppi í hillu, hafandi það í huga að gaman gæti verið að blogga um efnið, en kem því ekki í verk fyrr en nú. Greinin er ekki síst áhugaverð fyrir meðfylgjandi mynd sem ég gerðist svo djarfur að stela. Hún samanstendur af 76 tölusettum íkonum sem ritstjórn Geo valdi með það að markmiði að gefa einhvers konar þverskurð af mannlegri þekkingu. Það er gaman að spreyta sig á myndinni og velta vöngum yfir þeim hugrenningatengslum sem hvert íkonanna kveikir. Ég verð að játa að ég áttaði mig ekki strax á öllum myndunum. Er menntun minni þá ábótavant? Eða er það ef til vill nóg að ég þekki mínar bakteríur? Það er freistandi að halda áfram með þessar pælingar, en mynd segir meira en mörg orð, svo ég mæli frekar með að blogglesendur verji tíma sínum í að grannskoða myndina og spreyta sig á þrautinni. ATH: Það þarf að smella á myndina til að opna hana og smella svo aftur á hana til að sjá hana í almennilegri upplausn.

Góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill. Þetta er auðvitað sígild spurning fræðanna: Hvort er betra að menntaðir menn séu fjölfræðingar, vel að sér í mörgum greinum og færir um að setja tengingar á milli þeirra og beita greiningaraðferðum ólíkra fræðigreina (það sem í dag er gjarnan kallað "þverfaglegt") eða hvort betra sé að viðkomandi menntamaður einbeiti sér að sínu fagi og þekki á því hvern krók og kima. Við þessu eru auðvitað engin auðveld svör, og í raun var ein af ástæðunum fyrir því að ég fór í sagnfræði það að ég taldi að þær væri auðveldara en ella að blanda saman ólíkum greinum og öðlast þar með víðtækari þekkingu, flest á sér jú sögu sem sagnfræðingar rannsaka þá.

Svo er enn önnur spurning hvort sérhæfingin eigi að vera meiri eða minni á yngri skólastigum. Ég man t.d. að ég skildi ekki tilganginn með sumu af því sem ég neyddist til að taka í framhaldsskóla og verð að viðurkenna að stærðfræðin er t.d. öll meira eða minna horfin, þó líklega sé auðveldara að rifja hana upp heldur en þurfa að læra hana frá grunni.

 Svo eru fleiri spurningar sem vert er að taka með sem tengjast þessu. Hversu straumlínulaga á t.d. menntun að vera? Er tilgangur náms aðeins að standast stöðluð próf? Hvað með þjálfun gagnrýnnar hugsunar og sjálfstæðra skoðana/ákvarðana? Eru sum fög mikilvægari en önnur? Nú er verið að endurskoða kennsluskrá framhaldsskólanna í tengslum við styttingu framhaldsskólanáms og svo virðist sem það séu fyrst og fremst þau fög sem erfiðara er að mæla með stöðluðum prófum og sem hafa hugsanlega ekki jafn augljósan ávinning sem eru skorin burt. T.d. sagnfræði, sálfræði, heimspeki og fleira í þeim dúr. Er það æskileg þróun?

Allavega, góð grein enda þarft umræðuefni

Villi (IP-tala skráð) 7.10.2010 kl. 15:09

2 Smámynd: Oddur Vilhelmsson

Takk fyrir þetta, Villi.

Já, þetta er snúin spurning. Djúp og ítarleg sérfræðiþekking er auðvitað nauðsynleg sérfræðingum, hvort sem um er að ræða sérfræðinga í akademískum stöðum eða til dæmis gæðastjóra í fyrirtæki, en breiður grunnur er líka nauðsynlegur, einkum þegar að því kemur að „hugsa út fyrir kassann“. Ég er þeirrar skoðunar að styttings náms sé óheillaskref. Ég sé ekki að nokkuð gott hljótist af því að æða í gegn um námsárin með bægslagangi og látum. Raunar er ég líka þeirrar skoðunar að BS-nám sé allt of stutt. Þú nærð hvorki almennilegri dýpt né yfirsýn á þremur árum. Hér í auðlindadeild pökkum við alltof miklu efni á þennanstuttan tíma. Nemendur eiga varla séns í að tileinka sér þetta allt á þeim tíma sem gefinn er. Eftir því sem ég hugsa þessi mál meira verð ég sannfærðari um að heillavænlegra væri að fella niður BS-stigið og innrita nemendur beint í 5-ára MS-nám, svona svipað og í gamla þýska Diplom-kerfinu. En það er líklega borin von að af einhverju slíku verði í bráð. Nú eiga allir að fylgja Bologna-kerfinu (sem hefur svosem sína kosti líka).

Oddur Vilhelmsson, 7.10.2010 kl. 15:50

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og átján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband