Spennandi framtíð í líftækni

Vorið er komið og grundirnar gróa … og bakkalárkandidatar í líftækni við Háskólann á Akureyri kynna og verja lokaverkefni sín. Það er óhætt að segja að rannsóknir líftækninema séu fjölbreyttar í ár, en meðal viðfangsefna má nefna ræktun nýrrar frumulínu lungnaþekjufrumna, endurhönnun úrbeiningarferla á nautgripum, nýjungar í nýtingu á rækjuskel, etanól- og vetnisframleiðslu með hitakærum bakteríum, áburðar- og jarðgerð úr slammi, stöðu og tækifæri í framleiðslu örveruhindrandi peptíða, og greiningu á prótínmengi sýklalyfsþolinna baktería, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hagnýting var í fyrirrúmi, líkt og endranær, og voru mörg verkefnin unnin í náinni samvinnu með fyrirtækjum og stofnunum þar sem leitað var lausna á þekktum vandamálum. Rannsóknir nemenda nýtast þannig með beinum hætti til verðmætasköpunar í íslenskum fyrirtækjum. Meðal samstarfaðila má nefna Matís, Krabbameinsfélagið, ORF líftækni, Mjólkursamsöluna, VGK hönnun og Norðlenska matarborðið.

Eins og ráða má af verkefnavalinu, þá kemur líftæknin víða við og hafa fjölmörg atvinnutækifæri skapast fyrir fólk menntað á þessu ört vaxandi sviði. Líftæknin er þverfagleg grein þar sem saman eru tekin öll þau fræði er lúta að framleiðslu lyfja, matvæla, lífvirkra efna og annarra efnasambanda með aðstoð lífvera, erfðabreyttra sem náttúrlegra. Líftæknin kemur einnig við sögu við verndun og hreinsun umhverfis, en bakteríur og sveppi má nota með stýrðum hætti til niðurbrots spilliefna í náttúrunni. Meðal helstu fræðilegra stoða líftækninnar mætti því nefna lífefnafræði, erfðafræði, erfðaverkfræði og framleiðslufræði, auk almennra lífvísinda og rekstrargreina. Megináherslur náms og rannsókna í líftækni við Háskólann á Akureyri eru á sviðum umhverfis- og orkulíftækni (niðurbrot lífræns úrgangs og nýmyndun orkuríkra efna), skimunar og framleiðslu lífvirkra efna og fæðubótarefna úr íslenskri flóru og fánu og sambýlisörverum þeirra, fiskeldislíftækni, og lífupplýsingatækni.

Í náminu öðlast nemendur víðtæka þekkingu á hagnýtum lífvísindum og þjálfast í beitingu bæði hefðbundinna og nýstárlegra rannsóknaaðferða. Einnig er lögð rík áhersla á viðskiptagreinar og rekstur líftæknifyrirtækja. Nemendur öðlast því færni í rannsóknum, stjórnun og rekstri sem nýtast mun í krefjandi störfum innan hins ört vaxandi líftæknigeira, auk þess sem námið veitir góðan undirbúning undir framhaldsnám í hagnýtum lífvísindum. Verkefnavinna er snar þáttur í náminu og vinna nemendur að sjálfstæðum rannsóknaverkefnum undir leiðsögn kennara og annarra sérfræðinga HA og samstarfsaðila. Líftækni er því einkar vænlegur kostur fyrir nemendur sem áhuga hafa á lífvísindum og hagnýtingu þeirra til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.

(Þessi grein birtist einnig í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag, eins og sjá má hér


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og þrettán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband