18.7.2007 | 13:36
Gamla skólahúsið
Ég verð að játa á mig þá skömm að hafa ekki staðið mig sem skyldi við að setja saman staðarlýsinguna sem ég var búinn að lofa. Auk þess var ég að frétta að gamla íþróttahúsið hafi verið rifið í vetur! (ég vona bara að kartöflukofinn hafi fengið að standa). Enn eru margar merkar byggingar sem ég á eftir að lýsa ... s.s. smíðahúsið, frystigeymslurnar, skúrarnir, nýja skólahúsið sundlaugin, nýja íþróttahúsið, strákavistin og sjálf einkennisbygging Reykjatanga: Gamla skólahúsið. Það er nokkuð ljóst að ég næ ekki að klára þetta fyrir ættarmótið okkar, en ég krota þó allavega í fljótheitum einhverja punkta um Gamla skólahúsið, ekki má sleppa því.
Það fer auðvitað ekki á milli mála að glæsilegasta og myndrænasta byggingin á Reykjatanga er Gamla skólahúsið. Í dag er þetta eiginlega allt annað hús en það var í þá gömlu góðu, því á árunum 79 til 81 voru gerðar á því verulegar breytingar. Allt var brotið og bramlað fyrir sunnan húsið myndaðist stærðarinnar haugur af veggjarbrotum og rusli og hið myndarlegasta fjall af pússningasandi sem hentaði ákaflega vel í bíló (þó maður þættist nú reyndar vera fullgamall fyrir svoleiðis ef einhver sá til). Helstu breytingarnar voru þær að eldhúsið og matsalurinn voru færð úr kjallaranum upp á miðhæðina, þar sem skólastofurnar voru áður, og búinn var til nýr aðalinngangur sunnan á húsinu. Nú er semsagt gengið beint inn í það sem áður var kjallari. Við þessar breytingar hvarf stiginn sem lá upp á ganginn framan við skólastofurnar (og reyndar bæði gangurinn og stofurnar líka), þannig að myndin hans Bjarts afa míns af Hrútafirðinum sem sjá má hér til hliðar er nú horfin (mér skilst reyndar að hún sé enn til á bak við eitthvert þil). Myndina hans á Efstuvist má reyndar enn sjá þar, en hún er þó orðin nokkuð skemmd. Talandi um Efstuvist, þá var hún tekin í gegn nokkru seinna ... að mig minnir einhverntíma í kring um ´85. Allt var rifið út og vistin endurbyggð svo að segja frá grunni. Sjaldan hef ég upplifað aðra eins rykmengun og það sumar, en maður var hvítur af gips- og sparslryki frá toppi til táar hvern dag í margar vikur. Hinar vistirnar tvær í Gamla skólahúsinu, Sundlaugarvistin og Vesturvist, voru einnig endurbyggðar á svipuðum tíma. Herbergin sem þið gistið í eru því mun betri vistarverur en kompurnar sem þið munið kannski eftir frá því í gamla daga.
Hér í denn bar maður alltaf ákveðna virðingu fyrir þessu volduga húsi sem Gamla skólahúsið er og þótti spennandi að væflast þar um. Eins og vera vill, þá bráir virðinguna fljótt af og þegar komið var á sundnámskeiðaaldurinn var maður farinn að renna sér á handriðunum niður stigagangana. Þegar breytingarnar voru gerðar á skólahúsinu 79 til 80 varð mögulegt að renna sér alla leið ofan af Efstuvist og niður í kjallara í einni bunu. Þetta varð augljóslega mikið sport og mannraun hin mesta að reyna þetta án þess að detta af á leiðinni. Handriðið var fremur hátt járnvirki með einhverskonar plastslíðri ofan á. Plastið var býsna hált og gat maður því náð sæmilegum hraða. Einhverra hluta vegna var svo all stæðilegur kinkur á plastslíðrinu á milli inngangsins og fyrstu hæðarinnar og var manni gjarnan óþægur ljár í þúfu. Þurfti ákveðið lag til þess að komast yfir þessa hindrun án þess að skaða æxlunarfærin sem rétt voru tekin að þroskast á þessum árum.Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkur: Reykjaskóli | Breytt 23.10.2008 kl. 08:44 | Facebook
Athugasemdir
Gamla skólahúsið er svo sannarlega einkenni staðarins. Það var teiknað á fána og hvaðeina. Ég man eftir því að renna mér niður stigahandrið á fullri ferð og ég man eftir því að hanga öfugur yfir handriðið á kennskustofuganginum. Lífið var skemmtilegt þegar maður elst upp á svona stað.
ég man eftir drununum þegar kennarinn sem sat/stóð yfir í matsal sagði: Verði ykkur að góðu. Þá þurfti maður helst að vera búinn að borða sjálfur til að vera tilbúinn að fara niður í fjörið.
Ég man líka þegar rafmagnið var alltaf að fara, sérstaklega þegar vont var veður. Þá var gott að eiga vasaljós.
Oddur minnist einhvers staðar á lækinn. Hann var (og er kannski enn) óþrjótandi uppspretta leikja og framkvæmda. Við gerðum stíflur, lögðum vegi, veiddum hornsíli. Dag eftir dag. Og á hverjum morgni var hægt að ganga að leiksvæðinu nýju og fersku. Flóð og fjara breyttu öllu.
Svo einkennilegt sem það má vera þá fengum við krakkarnir nánast óheftan aðgang að sundlauginni sumar eftir sumar. Og við nýttum okkur það óspart. enda urðum við öll flugsynd á unga aldri og maður átti erfitt með að ímynda sér að einhver væri ósyndur kominn fram yfir fermingu. Ég man haustið sem ég byrjaði sem nemandi í 1. bekk. Þá kom í ljós að ekki höfðu allir skólafélagar manns haft jafngóða aðgang að sundi og við og mig rak í rogastans að uppgötva að sumir voru nánast ósyndir.
Ég man þegar Steini synti 200 metrana í fyrsta skiptið, þá 5 ára. Þegar ein ferð var eftir snaraðist hann upp á bakkann og sagði: "Nú ætla ég að hvíla mig." En það var þá bannað.
Ég man líka þegar Steini lenti á hvolfi með kút um sig miðjan og sparkaði bara út í loftið.
Svo voru það hafísárin og skautasvellið á Hrútafirðinum og rauðmagaveiðin og Hrútey og svona má endalaust telja.
Ég skora á Steina og Gísla að láta í sér heyra á þessum síðum.
Öddi
Örn Ragnarsson, 22.7.2007 kl. 20:23
Gamla skólahúsið er náttúrulega aðall staðarins. Kvennagangurinn efst, kennarastofan 1.2.og 3.bekkjarstofurnar á miðhæðinni að ógleymdum ganginum þar sem alltaf var eitthvað um að vera, og þar var líka símaklefinn. Unga gemsa fólk athugið að heima hjá Ragnari og Sigurlaugu í Reykjaskóla var aldrei sími. Þau þurftu að fara niður í símaklefann eða á kennarastofuna ef þau þurftu að hringja eða ef hringt var í þau. Ég man að það var alltaf einhver nemandi á símavakt seinni part dagsins sem hafði það hlutverk að svara í símann og hlaupa síðan og ná í þann sem hringt var í. Í vesturendanum var íbúðin hans Ólafs og í austurendanum íbúðin okkar. Á neðsu hæðinni voru síðan Sundlaugarvistin í austurendanum og nýja vistin í vesturendanum, það verður gaman að skoða herbergin á vistunum og minnast þess að í hverju þeirra voru að meðaltali fjórir til sex nemendur. Ég er hrædd um að ekki væri pláss fyrir græjur, ísskáp, sjónvarp, tölvu og örbylgjuofn eins krakkar þurfa í dag þegar þau fara á heimavist. Í miðhúsinu var eldhúsið, búrið, klósettin og matsalurinn. Það er rétt hjá Ödda að miklir skruðningar heyrðust þegar risið var upp frá borðum. Oft gat maður reiknað út hvað hafði verið í matinn eftir því hvað þau voru lengi í mat. t.d. var skyrsúpan mjög vinsæl og þá voru þau lengi í mat. Á laugardagskvöldum eftir skemmtiatriðin var okkur boðið í fínt kvöldkaffi þ.e. heitt súkkulaði og kökur,það var sérstakt borð fyrir kennara og máttum við krakkarnir sitja þar. En aftur að kvennaganginum, það var ótrúlega gaman að þvælast um upp á kvennagangi eftir hádegi á laugardögum. Þá var mikið um að vera tvö til þrjú herbergi breyttust þá í hárgreiðslustofur, það voru settar í rúllur, hárið þurrkað, túberað og greitt. Það voru semsé einhverjar þrjár fjórar stelpur sem greiddu öllum stelpunum fyrir kvöldið. Aðrar höfðu síðan það hlutverk að mála og snyrta. Svo voru það fötin, maður sá stelpurnar þeysast milli herbergja "Ætlar þú að vera í gulu blússunni þinni í kvöld, get ég fengið hana lánaða þú getur fengið svarta pilsið mitt, getur einhver lánað mér skjört, og á þeim árum þurfti sko mörg skjört undir eitt pils. (krakkar vitið þið hvað skjört er?) Því meira sem pilsin stóðu út því flottara. Ég átti eitt slíkt úr svampi. Fötin voru sem sagt lánuð þvers og kruss. Síðan eftir allt tilstandið var farið út í sal að horfa á kvöldskemmtunina, síðan kaffið eins og ég minntist á áðan, og loks ballið. Yfirleitt voru tvær til þrjár skólahljómsveitir sem léku til skiptis fyrir dansi. Eitt hús langar mig líka til að minnast á en það er Grundin. Breski herinn byggði Grundina sem þvottahús, en Þegar við fluttum fyrst í Rsk. var Grundin notuð sem kennaraíbúð. Þar bjó Björn kennari með sína fjölskyldu. Seinna þegar sem flestir nemendur voru í skólanum var hún notuð sem vist. Ég held að síðustu íbúar Grundarinnar hafi verið Bjartur tengdó með sína fjölskyldu. Villi bjó sem sagt þar sumarið 1967, en sumarið 1968 var hún brennd, eins og sjá má á mynd hér á síðunni. Þetta hús var það albesta "yfirhús "sem ég hef komist í kynni við.( Það er að segja boltaleikurinn yfir) Það var passlega hátt og ferkantað.
Hvernig er með Steina og Gísla taka þeir ekki áskorun.
kveðja Gúa
Gua (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 15:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning