Tækifæri í raunvísindum og grunnrannsóknum

Óhætt er að segja að naflaskoðunarskriða hafi farið af stað í þjóðfélaginu á umliðnum vikum þar sem meginstoðir íslensks efnahagslífs og samfélagsins alls hafa verið teknar til gagngerrar ítarskoðunar. Sitt sýnist hverjum, eins og vonlegt er. Sumir finna hugarfróun í að benda á það sem aflaga hefur farið, á meðan aðrir einbeita sér að því að leita nýs upphafs og skima eftir möguleikum og tækifærum. Háskólinn á Akureyri (HA) ætlar sér að taka þátt í þessari umræðu og leggja þar á vogarskálar þá miklu þekkingu og reynslu sem finna má meðal sérfræðinga skólans. Í þessum greinarstúfi verður sjónum beint að raunvísindum og rannsóknastarfi almennt, en við HA er starfandi raunvísindaskor þar sem fram fara bæði kennsla og rannsóknir á nokkrum sviðum hagnýtra raunvísinda, nánar tiltekið líftækni, sjávarútvegs- og fiskeldisfræðum, tölvunarfræðum og umhverfis- og orkufræðum.

Fáir munu andhæfa þeirri staðhæfingu að í hagnýtum rannsóknum á sviði vísinda og tækni felist fjölmörg tækifæri. Í gegn um hagnýtar rannsóknir fyrirtækja, stofnana og háskólasamfélagsins opnast tækifæri til nýsköpunar og myndunar sprotafyrirtækja sem með tíð og tíma geta vaxið og dafnað í leiðandi hátæknifyrirtæki. Á hinn bóginn heyrast þær raddir af og til, að grunnrannsóknir með fræðilegt ekki síður, og jafnvel fremur en, hagnýtt gildi séu dragbítur á samfélaginu. Þær séu rándýr gæluverkefni sérlundaðra fílabeinsturnbúa úr öllum tengslum við þarfir og kröfur þjóðarinnar. Í þessu sambandi er skemmst að minnast ummæla Söru Palin, varaforsetaefnis bandaríska repúblikanaflokksins í nýafstöðnum forsetakosningum þar vestra, en hún fór mikinn í vandlætingu sinni á fjáraustri í grunnrannsóknir á erfðafræðum ávaxtaflugna1. En, skyldi þessi afstaða vera nægilega vel ígrunduð? Hvernig ákveðum við hvaða rannsóknir hafa hagnýtt gildi og hverjar ekki?

David Baltimore, forseti bandarísku vísindaþróunarakademíunnar (American Academy for the Advancement of Science), skrifaði áhugaverða grein sem birtist 24. október síðastliðinn í vísindafréttaritinu Science2. Þar kemur m.a. fram sú skoðun hans að það sé einmitt áhersla Bandaríkjastjórnar á stuðning við grunnrannsóknir, óháð meintu hagnýtu gildi eða annarri þarfagreiningu, sem hefur verið „leynivopn“ Bandaríkjanna í efnahagslegu kapphlaupi þjóða heimsins undanfarna áratugi. Í grein sinni veltir Baltimore því fyrir sér hvaða lærdóm önnur ríki geti dregið af reynslu Bandaríkjanna á stjórnun vísindastarfsemi, einkum hvað varðar skipulag og stefnumörkun háskóla og annarra rannsóknastofnana. Hann leggur fram fimm einfaldar reglur sem ég tel rétt að ráðamenn mennta- og vísindamála hér á landi taki til skoðunar:

1.       Gæði séu ávallt í öndvegi, jafnt í mannaráðningum sem á öðrum vettvangi. Baltimore telur það óráð að reynt sé að fylla í faglegar eyður þegar ráðið er í nýjar stöður. Fremur skuli stilla nýráðningum í hóf og einblína á þá kandidata sem skara fram úr á sínu sviði.

2.       Kröftum sé ekki dreift um of. Augljóst er að lítil hagkerfi geta ekki skarað fram úr á öllum sviðum.

3.       Byggja skal upp smáar einingar. Smæð er kostur að mörgu leyti og mun hægara er um vik að halda uppi háum gæðakröfum í smáum, þröngt skilgreindum einingum heldur en á stórum, víðtækum stofnunum.

4.       Ekki aðskilja kennslu og rannsóknir. Háskólastúdentar eru vísindamenn morgundagsins og hagur bæði nemenda og annars rannsóknafólks  af nánu samstarfi er ótvíræður.

5.       Akademískt frelsi til rannsókna skal tryggt. Afskipti ríkis eða annarra utanaðkomandi aðila af verkefnavali vísindamanna hefur hvergi gefist vel. Í frelsinu liggur sköpunarkrafturinn.

Rétt er að benda á að Baltimore nefnir hvergi í grein sinni að ákveðnar greinar vísindanna séu öðrum mikilvægari, þó reyndar bendi hann á líftæknigeirann í heild sinni sem dæmi um frábæran árangur bandarískrar vísindastefnu undanfarna áratugi. Þvert á móti verður honum tíðrætt um gildi akademísks frelsis og getur þess að það séu einmitt grunnrannsóknir sem skila þeim stökkum í skilningi og hugsun sem eru grundvöllur tækniframfara og nýsköpunar.

 Heimildir:

1.            Rutherford, A., Palin and the fruit fly, á vef The Guardian (www.guardian.co.uk), 27. október 2008.

2.            Baltimore, D., A global perspective on science and technology, Science 322, 544-551, 2008.

 (Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag.)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Pálsson

Frábær pistill Oddur.

Ég var að rekast hér inn. Það er mjög mikilvægt að þessari hugmynd sé haldið á lofti í moldviðri getuleysis, afneitunar, ótta og afsakana.

Kær kveðja,

Arnar Pálsson, 13.1.2009 kl. 11:11

2 identicon

Góð vísa aldrei of oft kveðin.

 Takk Oddur.

Ólafur S. Andrésson (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 18:43

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og sjö?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband