Stína amma

5.4.2007 17 43 58GTABV 00031Hún Stína amma mín er nú látin eftir nokkuð erfið veikindi undanfarna mánuði. Það er auðvitað ekki hægt að segja að andlát hennar hafi komið á óvart – úr því sem komið var – en samt finnst manni þetta pínulítið skrítið. Manni fannst einhvern veginn eins og lífsgleði hennar og þróttur hlytu að vara að eilífu eða þar um bil, slík var útgeislun hennar alveg fram undir það síðasta.

Það var alltaf gaman að koma til ömmu. Þar var líf og fjör, og stöðugt rennerí af fólki, þó svo aldrei væri nóg um að vera að dómi þeirrar þróttmiklu félagsveru sem amma var. Hvernig má enda annað vera, hafandi bæði alist upp í hinni fjölmennu og líflegu „Lúðrasveit Maríu“ og svo alið upp annan eins og síst fyrirferðarminni skara?

Mínar fyrstu minningar um ömmu eru frá Bergstaðastrætinu – Hótel Skrölt, eins og það var ævinlega kallað. Rifsberin í garðinum, kleinur í poka, nýsteiktar lummur ... einhvern veginn var amma alltaf nátengd við góðan mat í mínum huga. Jólin á Hótel Skrölt eru öllum ógleymanleg sem þeirra fengu að njóta. Jafnvel litlum pöttum sem mest lítið skildu í öllum þeim fyrirgangi sem þeim fylgdu. Þá var nú skarkað í pottum, glamrað í diskum og bollum, skrafað og hlegið hátt og hvellt. Þá var tekið hraustlega til matar síns, og það þó slíkur væri fjöldinn að sérhver borðflötur var þétt setinn og við krakkarnir máttum tylla okkur á kolla eða bara á gólfið með diskana í kjöltunni.

Minningar mínar um ömmu frá hinum síðari árum eru skýrari, eins og vonlegt er, en ekki síður hlýlegar. Sumarið 2003, komin vel á níræðisaldur, heimsótti hún okkur Anett í Skotlandi, ásamt 26.2.2009 19 31 04 0002pabba, mömmu og Fannari. Við dáðumst mjög að krafti hennar og úthaldi – ekki mátti á það minnast að taka því rólega hennar vegna – og ekki síður að hlýju hennar og lífsnautn. Samband okkar ömmu styrktist svo enn frekar eftir að við Anett fluttum hingað heim aftur. Það var sérlega gaman að sjá hve hún ljómaði í hvert sinn sem við kíktum við í Sólholtinu, enda var Snæbjörn litli snemma farinn að hlakka mikið til að hitta langömmu sína í hvert sinn sem brugðum okkur suður yfir heiðar.

Ömmu er sárt saknað, en nokkur huggun er þó að vita að fáir munu hafa lifað lífinu betur en hún.

Hér eru nokkrar myndir til minningar um hana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fín grein hjá  þér ætlarðu að senda hana í Moggann.

kv. mamma

Guðrún ´Ragnarsdóttir (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 15:31

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og fimmtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband