Keila með perum og ananas í eldpiparsósu

Uss-fuss ... tveir mánuðir liðnir frá síðustu færslu. Ég stend mig greinilega ekki í þessum bloggmálum. Kannski þetta sé ekki minn stíll. Ég entist jú aldrei lengur en fáeina daga þegar ég reyndi að halda dagbók í denn. En, batnandi manni er best að lifa, svo ég reyni að byrja aftur á þessu.

Í gær bar það við einu sinni sem oftar að við feðgar brugðum okkur í búðina til að ná okkur í soðningu. Nú er það svo hér á Akureyri - sjálfustum Höfuðstað Norðursins - að það er ekki ein einasta fiskbúð hér í bæ. Við feðgar renndum því bara í Samkaup-Úrval og gægðumst í fiskborðið þar ... og urðum bara hreint ekki fyrir vonbrigðum eins og stundum hefur viljað brenna við. Þarna var bara hið dægilegasta úrval, þó svo ég vilji enn og aftur benda á að úrvalið var snöggtum minna en maður átti vanda til að sjá í fiskbúðinni í Reading ... lengst inni í landi og á Englandi, af öllum stöðum!

En, hvað um það, þarna mátti sjá bæði silung og lax, ýsu og þorsk, karfa og smálúðu ... og einnig rak ég augun í keilu, en það er fiskur sem ég hef ekki oft séð í búðum hér á landi ... sem er merkilegt, því keilan er hreinasti afbragðs matfiskur og munu íslendingar vera ein helsta keiluveiðiþjóðin. En jæja, keilan var ómerkt og þar sem ég sé hana svona sjaldan, þá þótti mér nú vissara að spyrja hvort þetta væri ekki örugglega keila. Konugarmurinn sem þar var að afgreiða hafði reyndar ekki hugmynd um það, en annar viðskiptavinur - eflaust gamall sjómaður - gat staðfest að svo væri. Ekki var nóg með að afgreiðsludaman kynni ekki deili á fiskinum sem hún var að selja, heldur tjáði hún mér að  enginn í búðinni vissi hvaða skepnur þetta væru sem fisksalinn (hvar svo sem hann er nú staddur á landinu - ég þorði ekki að spyrja) hafði sent þeim um morguninn. Hvað þá að hún vissi hvað fiskurinn ætti að kosta. Ég verð nú að segja að mér þykir þetta uggvænlegt metnaðarleysi hjá helsta fisksala bæjarins.

En, við Snæbjörn biðum bara þolinmóðir á meðan afgreiðsludaman og kjötiðnaðarmaðurinn réðu ráðum sínum um fiskinn og fórum svo heim og matreiddum gersemina. Hvaðan sem fiskurinn annars kom, þá vorum við ekki sviknir, því hann var ferskur og góður. Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að framkvæma svofelldan gjörning:

1 stk. keila flökuð, roðdregin, beinhreinsuð og skorin í „gúllasbita“

Slatti af Wok-grænmetisblöndu (ferskri)

Tveir niðursoðnir ananashringir bútaðir niður í hæfilega bita

Nokkrir niðursoðnir peruhelmingar, einnig bútaðir í stykki

Þessu öllu blandað saman við sósu sem gerð var úr létt-mæjonesi og sýrðum rjóma (ca. 50-50) ásamt slurk af einhverri tælenskri eldpiparsósu sem ég átti uppi í skáp og smá skvettu af piri-piri olíu.

Allt gúmmelaðið svo soðið á pönnu þar til keilan var soðin. Þetta reyndist bara alveg ljómandi gott. Keilan naut sín vel og skilaði sér hið besta í gegnum sósuna sem síðan veitti hressandi eldpipar-eftirbragð. Ávextirnir lífguðu einnig vel uppá réttinn.

Keilan (Brosme brosme) er lingeislungur af ættbálki þorskfiska (Gadiformes), ætt keila og langa (Lotidae) (sem sumir telja reyndar undirætt þorska [Gadidae]). Hún er fremur lík þorskinum í andliti - hefur hökuþráð og er svipuð að lit, en búkformið er allt annað, t.d. aðeins einn bakuggi og stirtlan af annarri formgerð. Sem matfiskur er hún þó all frábrugðin þorskinum - holdið er mun stinnara og hættir mun síður til að flagna. Hvað þetta varðar líkist hún ýmsum broddgeislungum, s.s. karfa og steinbít en er þó mun bragðmildari. Líkt og þorskurinn er keilan magur fiskur og ugglaust meinhollur. Færeyingar hafa heiðrað keiluna á frímerki, svo sem hér má sjá.


Keilan á færeysku frímerki

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband