Ammæli

Þá er Snæbjörn orðinn ársgamall og búið að halda uppá það svo um munar, en Það dugðu auðvitað ekki færri en tvær helgar undir svona merkisafmæli. Um síðustu helgi komu afinn og amman ásamt Lilju í heimsókn og fögnuðu áfanganum með okkur. Það var nú býsna gaman og Snæbjörn var gersamlega úrvinda eftir alla athyglina. Svo sporðrenndum við náttúrlega nokkrum kökusneiðum á sjálfan ammælisdaginn. Að lokum var svo bundinn endi á hátíðarnar með heljarinnar knalli í gær. Anett bakaði þessi líka lifandis ósköp af kökum og tertum (og ég laumaði inn einni brauðtertu líka, svona til að vera með) og við skreyttum allt húsið með blöðrum. Það kom svo slatti af börnum: vinir Snæbjörns úr útlendingamömmuhópnum, Kieron, Linda og Emma (Sía og Eric voru lasin og komust því ekki) mættu, svo var þarna pínulítil dama sem ég held að heiti Elín - nýr meðlimur í hópnum. Og svo mættu skriðdrekarnir úr næsta húsi, Breki og Trausti, og sáu til þess að fagnaðurinn færi nú örugglega fram með hæfilegum skammti af ærslum og óhljóðum. Þessu liði fylgdi svo einhver slæðingur af fullorðnu fólki líka. Mér sýnist þó að við munum lifa á kökum næstu dagana ... en okkur Snæbirni leiðist það nú ekki! Maður var auðvitað búinn að ætla sér að mynda gleðskapinn í bak og fyrir, en svo mikið var fjörið að það gafst eiginlega enginn tími til þess. Þó náðust fáeinar myndir, sumar þeirra svona skítsæmilegar og skelli ég þeim hérmeð í myndaalbúmið.  

Í öllum hamaganginum yfir afmæli Snæbjörns má segja að afmæli Anettar hafi nánast gleymst ... og var það þó svona „hálfmerkisafmæli“. Meira að segja gleymdi ég að skrifa kort til hennar (en mundi þó eftir gjöfinni ... svo ég er ekki alslæmur). Það er þó ekki hægt að segja annað en hún hafi skemmt sér hið besta síðustu vikuna.

Ætli ég láti þetta þá ekki duga í bili. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband