Söngsöknuður

Eitt alskemmtilegasta ferðalag sem ég hef farið um ævina var þegar ég tók upp á því að fara að læra söng, fyrst í einkatímum hjá hinum óviðjafnanlega Mikka Clarke, og svo í Tónlistarskólanum á Akureyri þar sem hjartagullið hún Magga Árnadóttir var lengst af minn aðalkennari. Þetta var þvílíkt ævintýri og ekki laust við að ég sakni þess ... sérstaklega nú, þegar ég er í söngstraffi á meðan lungun eru smám saman að skríða í samt lag eftir heiftarlega og afar langvinna lungnabólgu. En ... er þá ekki einmitt rétti tíminn til að rifja upp nokkra skemmtilega hápunkta úr þessum alltof stutta ferli sem söngnemandi? Það vill nefnilega svo til að ég geymi á YouTube ansi hreint margar söngtilraunir - mis góðar, eins og gengur - en allt var þetta ákaflega skemmtilegt!

Árni Thorsteinson (1870-1962) var eitt af nafntoguðustu tónskáldum landsins um þarsíðustu aldamót, og ekki að ósekju. Hann samdi einstaklega falleg sönglög með hreinum og tilgerðarlausum laglínum. Þeir Guðmundur skólaskáld voru miklir vinir og samdi Guðmundur mörg ljóð sín sérstaklega fyrir Árna. Hér er eitt þeirra, Friður á jörðu. Þetta fluttum við Eyþór Ingi Jónsson organisti í Akureyrarkirkju 22. nóvember 2019. Ef ég man rétt, þá var þetta í eitt af fyrstu skiptunum sem ég kom fram utan skólans og því eilítið nervus, eins og eflaust má heyra.

 

Og talandi um Árna T., þá er hér annað dásamlegt lag eftir hann, Þess bera menn sár við ljóð J. P. Jacobsen í þýðingu Hannesar Hafstein. Þetta var flutt á lokatónleikum mínum í Tónó, þann 11. maí 2024 og það er sjálfur meistari Richard Örn Blischke Oddsson sem leikur á píanóið. Ótrúlega gaman að fá að koma svona fram með syni sínum og kann ég honum ómælda þökk fyrir þolinmæðina við pabba sinn.

Annað yndislegt íslenskt tónskáld var Sigursveinn D. Kristinsson, en honum var ég svo heppinn að kynnast, bæði hjá afa og ömmu þar sem hann kom stundum íheimsókn, og svo kenndi hann mér á blokkflautu og undirstöðuatriði í tónfræði þegar ég var lítill. Aldeilis hreint yndislegur maður. Og þá er það ekki síðra valmenni sem hér leikur á píanóið lag Sigvalda, Lágnætti við ljóð Þorsteins Erlingssonar, Daníel Þorsteinsson, en af honum lærði ég gríðarmikið í Tónlistarskólanum.

 

Og Danni er sko ekki bara frábær píanisti, hann er líka stórgott tónskáld. Ég kann honum mikla þökk fyrir að hafa nennt að setja saman þessa einsöngsútgáfu af hinu bráðskemmtilega kórlagi sínu Kuldahlátur við ljóð Davíðs Stefánssonar. Mér þykir bara verst að hafa ekki gert söngnum nægilega góð skil þarna á lokatónleikunum mínum - ég get gert miklu betur og lagið á svo sannarlega skilið betri raddbeitingu ... en svona er það að flytja „læv“ - það gengur ekki alltaf allt upp!

 

Vendum nú kvæði í kross. Í söngnáminu fær maður stundum að glíma við óperuaríur sem sumar eru ansi hreint skemmtileg flugeldasýning. Hér er það La calunnia e un venticello (Rógurinn er andvari) úr Rakaranum í Sevilla eftir Giacomo Rossini. Aldeilis hressandi! Þetta var flutt á masterklass hjá Diddú á Sönghátíð í Hafnarborg í júní 2024. Það er Helga Bryndís Magnúsdóttir sem leikur á píanóið. 

 

Já, masterklassar ... þeir eru enn ein unaðssemdin við söngnámið. Sá fyrsti sem ég fór á fyrir utan skólann var masterklass Kristins Sigmundssonar á Sönghátíðinni í Hafnarborg 2020. Þar flutti ég þetta bráðskemmtilega lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, Valagilsá, við bráðskemmtilegt ljóð Hannesar Hafstein. Það er Hrönn Þráinsdóttir sem leikur á píanóið.

 
Þegar maður fer á masterklass, þá er best að vera búinn að æfa vel og vandlega það sem maður ætlar að flytja svo meistarakennarinn geti nú unnið með manni í fíníseringum en þurfi ekki að eyða tíma í grunninn. Ég hefði kannski mátt tileinka mér þetta áður en ég fór aftur á klass hjá Kristni Sigmunds árið eftir, en það vill til að hann er svo þolinmóður, þessi elska, að þetta bjargaðist alveg bara nokkuð vel fyrir horn hjá okkur Helgu Bryndísi. Silent Noon eftir Ralph Vaughan Williams við aldeilis unaðslegt ljóð Dantes Rossetti.
 
Stundum kemst maður ekki á tónleika - það er bara þannig, og þá er lítið annað að gera en syngja bara heima fyrir páfagaukinn og COVID-kittið. Þetta úkraínska þjóðlag var ég búinn að læra og kaupa mér þetta fína úkraínufánabindi fyrir tónleikana, en svo fór sem fór. Hér kemur það þá bara samt og við undirleik Apple iPad. Lagið heitir Vzjaú bíj ja bandúrú (Ef kynni ég á bandúru).
 
Já, maður syngur stundum á tungumálum sem maður kann ekki góð skil á. Ég lagði töluverða vinnu í að læra velskan framburð og var svosem svona nokkurn veginn búinn að læra textann, en guggnaði samt á að syngja þetta blaðalaust á jólatónleikum Tónó 2022. Ar hyd y nos (Út löngu nóttina) er semsagt velskt þjóðlag sem þetta ljóð Johns Ceiriog Hughes er oftast sungið við. Það er Daníel Þorsteinsson sem leikur á píanóið.
 
Það er margt fleira sem leynist á jútjúbinu mínu - sumt sýnilegt gestum og gangandi, annað ekki. Hver veit nema ég bæti einhverntíman fleiri tenglum hér inn, en læt þessu lokið í bili með þeirri aríu sem ég hef sennileg oftast flutt opinberlega. Als Büblein klein an die Mutterbrust (Líkt og yngisbarn á móðurbrjósti) úr gamanóperunni Die lustigen Weiber von Windsor eftir Otto Nicolai. Það er auðvitað Danni sjálfur sem er við píanóið. 
 
 

 

 



 


Náttúruminjar og söfn

Enn og aftur heyrir maður að Náttúruminjasafn Íslands sé á hrakhólum. Sorglegt, en kemur svosem ekki á óvart. Af einhverjum mér algjörlega huldum ástæðum virðist nefnilega vera ómögulegt að fá Ríkið til að standa við skuldbindingar sínar um að reka þessa merku og menningarlega nauðsynlegu sClip_108tofnun af þeim myndarskap sem hún á skilið.

Hvað um það, mig langaði til að skrifa nokkrar línur um náttúruminjasöfn. Þetta eru merkar stofnanir sem mér er hlýtt til, eins og raunar flestum, að mig grunar. Starfs míns vegna er ég oft einsamall á rjáli um mér lítt kunnar borgir í útlöndum og leita þá oftar en ekki í sýningar náttúruminjasafna til að drepa tímann. Hér eru nokkur af mínum uppáhalds söfnum:

Natural History Museum í London. Hreinlega stórfenglegt safn. Stórt og mikið, með mörgum vel upp settum, fróðlegum og skemmtilegum sýningum. Hér er einnig stundað mikið rannsóknastarf, eins og á flestum stærri náttúruminjasöfnum. Ég held ég megi segja, að öðrum söfnum ólöstuðum, að þetta sé með alflottustu náttúrugripasöfnum veraldar.

Museum für Naturkunde í Berlín. Hér höfum við fjölskyldan verið heimangangar til fjölda ára. Skyldustopp í öllum Berlínarheimsóknum. Skemmtilegt safn og líkt og mörg önnur stærri náttúruminjasöfn er bæði fastasýning og breytilegar sérsýningar sem oft eru mjög skemmtilegar og fræðandi (þó ég hafi reyndar orðið frekar foj um árið, þegar upp var sett DNA-sýning af nokkurri vanþekkingu á erfðatækni!)

Bristol Museum & Art Gellery. Þarna stoppaði ég við í fyrra og undi mér heldur betur vel í heilan eftirmiðdag. Náttúrugripasafn + menningarsögusafn + listasafn allt í einum pakka. Af hverju ekki? Ég skemmti mér allavega vel!

Naturhistorisches Museum í Vínarborg er sérlega gaman að heimsækja. Virðulegt safn af gamla, rykfallna skólanum. Maður fær sterklega á tilfinninguna að maður hafi stigið aftur í 19. öldina og á allt eins von á að rekast á Frans gamla Jósef handan við næsta sýningarskáp.

The Houston Museum of Natural Science var mikið uppáhald þegar ég bjó þar um slóðir, enda staðsett við Hermann Park þar sem oft var notalegt að halda til. Skemmtilegt safn og iðandi af lífi.

The Smithsonian National Museum of Natural History í Washington DC er skyldustopp þegar maður er þar í borg. Feykistórt og skemmtilegt, staðsett við The Mall. Steypireyðurin er minnisstæð.

The Field Museum í Chicago. Hvað skal segja? Þetta safn er lifandi klassík!

Zoology Museum í Aberdeen. Ókei – kannski ekki flottasta, stærsta eða ríkasta safn í heimi, en þarna vann maður nú um tíma og það var gaman trítla þarna um í hádegishléinu og njóta sýningarinnar.

... og þannig mætti áfram telja.

Af hverju í ósköpunum getum við íslendingar – sem þykjumst vera svo mikil náttúrubörn – ekki heiðrað náttúru lands okkar með mannsæmandi hætti? Ferðamenn eru margir hverjir gapandi hissa á þessari hrópandi vöntun.

Að lokum, þá er hér tengill í lista yfir helstu náttúruminjasöfn heimsins frá Wikipediu. Njótið!

 

 

  

 

 


Dansandi bakteríur á blogspot

Heil og sæl!

Eins og þeir sem slysast hafa hér inn á bloggið undanfarið hafa kannski tekið eftir, þá hef ég verið mjög lítið virkur hér síðastliðin misseri. Það á sér ýmsar skýringar. Ein er sú að þetta blogg mitt er orðið að óttalegu kraðaki. Hér ægir saman færslum um líftækni, ljóðagerð, fjölskyldumál og hvaðeina. Ég veit hins vegar til þess að einhverjar bloggfærslur mínar hafa vakið áhuga á líftækni og örverufræði, svo ég ákvað að búa til nýtt blogg, eingöngu helgað þeim efnum. Pöddubloggið er sumsé hér: http://orverur.blogspot.com/ og má þar nú finna nýja færslu um dansandi bakteríur sem nærast á spilliefnum. Bráðskemmtilegt efni. Kíkið endilega á það. Smile 


Vettvangskúrs í örveruvistfræði o.fl.

Við í Háskólanum á Akureyri og Háskólanum í Reading erum í óða önn að hamra saman spennandi vettvangsnámskeiði í örveruvistfræði Norðurslóða sem boðið verður upp á í fyrsta sinn sumarið 2012. Af þessu tilefni komu þeir Rob Jackson, Ben Neuman og Glyn Barrett í heimsókn. Við slógum því upp ráðstefnu, skruppum í litla vettvangsferð og skipulögðum framtíðina. Frábært, alveg hreint.

Hilda Jana hjá N4 tók við mig viðtal í tilefni alls þessa og má sjá það hér:

(ef myndbandið ræsist ekki má reyna hér: http://www.n4.is/tube/file/view/1635/).

 


sub-Arctic molecular ecology

Bendi á vinnufund sem haldinn verður í HA á mánudag og þriðjudag. Þarna verður skrafað um ýmislegt tengt örveruvistfræði Íslands. Ýmis spennandi vistkerfi verða skoðuð og rædd útfrá örveruvistfræðilegu sjónarhorni. Einnig verður rætt um sameindalíffræðilega nálgun í vistfræðirannsóknum almennt og nokkrar nýjungar ræddar. Þetta verður bæði skemmtilegt og fræðandi. Allir velkomnir.

Hér er dagskráin:

Workshop on sub-Arctic molecular ecology and environmental microbiology

 

28 March: Talks @ Miðborg (M101)

Morning session (10:00 to 12:00) – Molecular techniques in ecology, physiology and structural biology.·         Kristinn P. Magnússon. Next generation monitoring in the wild with the novel NGS technology.·         Lára Guðmundsdóttir. TBA (molecular ecology of gyrfalcons)·         Benjamin W. Neuman. Energetics and correlates of structural variation in the arenavirus morpheome.·         Hugrún Lísa Heimisdóttir. TBA (proteomics) 

Lunchbreak

 Early afternoon session(13:00 to 15:00) – Microbial interactions with plants and lichens. ·         Robert W. Jackson. Into the wild: identifying mechanisms that plant pathogenic bacteria employ for survival away from the plant.·         Glyn Barrett. From gut to plant: Investigating the molecular adaptations of E. coli O157:H7 to the phyllosphere.·         Glyn Barrett. para-Nitrophenol is differentially broken down by soil bacteria dependent on soil depth.·         Oddur Vilhelmsson. Life in licheno: Non-phototrophic endolichenic bacteria. 

Coffee break

 Late afternoon session (15:30 to 17:30) – Extreme microbial environments in the sub-Arctic (hot springs, glaciers, caves).·         Starri Heiðmarsson. Pristine land appearing: Nunataks of Breiðamerkurjökull and ongoing monitoring.·         Guðrún Lára Pálmadóttir. TBA (Microbial wall slime in the lava tube cave Vatnshellir)·         Hjörleifur Einarsson. Heterotrophs: hot topic from cold Icelandic waters.·         Arnheiður Eyþórsdóttir. Searching antimicrobial compounds of microbial origin in marine environments.·         Jóhann Örlygsson. Bioprospecting hydrogen and ethanol producing thermophilic bacteria from Icelandic hot springs. 

29 March: Talks @ Miðborg (N102)

Morning session (10:00 to 12:00) – Freshwater geomicrobiology and the glacial river Jökulsá á Fjöllum·         Anna Rut Jónsdóttir. The non-phototrophic associate microbiota of Icelandic lichens.·         María Markúsdóttir. TBA (The Glerá microbiome) ·         Helga Árnadóttir. TBA (Jökulsá á Fjöllum)·         Oddur Sigurðsson. Geology and hydrology of Jökulsá á Fjöllum.

Lunchbreak

 Early afternoon session (13:00 to 15:00) – Funding and amenities for field trips in Northern Iceland.·         Tom Barry. TBA (CAFF and the Arctic Council)·         Edward Huijbens. TBA (Svartárkot)·         Hans Kristján Guðmundsson. TBA (amenities @ UnAk)·         Rúnar Gunnarsson. TBA (housing in Akureyri)

Coffee break

 Late afternoon session (15:30 to 17:00) – Field trip course nitty-grittyRoundtable discussion.17:00 to 18:00 – Tour of Borgir 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gerlar í lúpínum og fléttum

Lupinus angustifolius

Í gær var enn einn deildarfundurinn og að venju er mér ekki svefnsamt að honum loknum. Eftir að hafa bylt mér í eitthvað á annan tíma gafst ég upp kl. 04:54 og staulaðist framúr til að blogga. Ekki um fundinn þó. Ég nenni ekki að velta mér upp úr neikvæðni og leiðindum. Ekki á prenti, að minnsta kosti.

Í nýjasta hefti hins ágæta örveruvistfræðirits The ISME Journal er skemmtileg grein um sambýlisbakteríur lúpínu (Lupinus angustifolius) frá einhverju ágætu fólki sem ég þekki ekki í Háskólanum í Salamanca á Spáni. Lúpínan, eins og önnur ertublóm, laðar til sín ákveðna jarðvegsgerla og býður þeim húsaskjól í rótum sínum. Leiguna greiða bakteríurnar á formi köfnunarefnis sem þær binda úr andrúmsloftinu. Báðir aðilar hagnast af samvistinni sem er því raunverulegt sambýli fremur en sníkjulífi bakteríunnar eins og ætla mætti í fyrstu. Hinn sígildi og vel þekkti samlífisgerill lúpínunnar er baktería af Bradyrhizobium ættkvísl, en þær tilheyra flokki alfapróteusargerla líkt og margar fleiri bakteríur sem þrífast á og í plöntum,svo sem meðlimir ættkvíslanna Methylobacterium, Agrobacterium og Rhizobium. Um nokkurt skeið höfum við vitað að Bradyrhizobium situr þó ekki einn að lúpínurótinni. Frankia, sem einnig er niturbindandi en tilheyrir fylkingu geislagerla líkt og ýmsir aggressívari meðlimir jarðvegsörverulífríkisins, svo sem Streptomyces og Actinomyces, á það einnig til að mynda köfnunarefnisbindandi rótarhnýði á lúpínu.

Til skamms tíma var álitið að bíóta rótarhnýðisins væri einföld. Niturbindandi sambýlingurinn einfaldega sýkti rótina og kæmi sér fyrir í hnýðinu sem myndast, líkt og Propionibacterium í unglingabólu. En nýlegar rannsóknir hafa sýnt að í rótarhnýðunum getur þrifist flóknara samfélag. Þau Martha Trujillo og félagar hennar í Salamanca birta nú greiningu sína á Micromonospora bakteríum, sem eru geislagerlar líkt og Frankia, í rótarhnýðum lúpínu. Þau hafa einangrað um 500 Micromonospora stofna úr rótarhnýðum og hafa sýnt fram á (með FISH tækni) að Micromonospora er sannarlega til staðar inni í hnýðinu, svo einangruðu stofnarnir eru ekki einfaldlega yfirborðssmit, og hefst þar við í góðu atlæti og sambýli við Bradyrhizobium.Micromonospora

Hvað er svo Micromonospora að fást við í rótarhnýðunum? Við þeirri spurningu er ekki komið skýrt svar, en þó virðist hugsanlegt að hún hjálpi eitthvað til við niturbindingu, því gen sem mjög líkist nifH úr Frankia er að finna í erfðamengjum a.m.k. sumra stofnanna. Á myndinni hér til hliðar, sem er eftir Ann Hirsch við Kaliforníuháskóla í Los Angeles, má sjá sérstæð kóloníuform Micromonospora.

Það má svo geta þess að við höfum sterkar vísbendingar um að Micromonospora sé einnig að finna í Peltigera og ef til vill fleiri fléttum. Þannig sjáum við merki um hana í raðgreiningargögnum Ólafs Andréssonar og mér sýnist út frá kóloníusvipgerðum að einhverjir geislagerlanna sem við höfum einangrað úr íslenskum fléttum gætu tilheyrt þessari ættkvísl. Stefni á að skera úr um það í náinni framtíð. Hvert hlutverk Micromonospora í fléttuþalinu er liggur enn sem komið er á huldu, en það er spurning sem gaman verður að glíma við.

 


Til hvers er háskólamenntun?

academia.jpg

Á þeim niðurskurðartímum sem við lifum nú og hrærumst í er eðlilegt, raunar nauðsynlegt, að spurt sé áleitinna spurninga um gagnsemi og gæði þeirrar þjónustu sem skattfé borgaranna er varið í. Menntun er líklega af flestum talin einn af hornsteinum nútíma samfélags. Það hlýtur því að vera forgangsatriði að hún skili því sem henni ber, að skattgreiðendur hljóti svo góða menntun sem kostur er fyrir þá fjármuni sem til hennar er varið. En hvað er góð menntun? Er til eitthvað sem heitir slæm menntun? Hvað á menntaður maður að kunna? Hvað á hann að geta? Við þessum spurningum eiga menntunarfræðingar eflaust svör, eða það skyldi maður að minnsta kosti vona, en það eiga allir rétt á að velta þeim fyrir sér og því langar mig til að setja fram nokkra naflaskoðunarpunkta um þetta efni. Hér kemur fyrsti pistillinn. Ég sé svo til hvort ég nenni að skrifa fleiri.

Fyrir þetta einni öld eða svo vissu allir hvað það var að vera menntaður. Lærður maður var vel heima í klassískum fræðum, kunni skil á helstu stefnum og straumum í heimspeki, hugmyndasögu og listum, var ritfær og vel máli farinn en var þó vís til að slá um sig með torskildum latínufrösum og tilvitnunum í Shakespeare, Goethe eða Jónas Halgrímsson. Til viðbótar hafði hann svo afburða þekkingu á kjörsviði sínu, hvort sem það var nú guðfræði, lög eða náttúruvísindi, og skyldi engum dirfast að draga yfirburði hans á því sviði í efa, enda var hann þrautæfður í rökfræði og þrætubókarlist.

Í dag er öldin nokkuð önnur. Sérfræðingar nútímans, og ég undanskil sjálfan mig ekki hvað þetta varðar, eru oftar en ekki hálfvankaðir nördar fastir í hugarheimi eigin kjörsviðs, þekkja hvorki haus né sporð á helstu verkum menningarsögunnar og geta ekki tjáð sig nema í flaumósa biðu fræðiorða sem enginn utan fámenns hóps sérfræðinga skilur. Maður vonar þó að sérfræðiþekking þeirra sé hafin yfir gagnrýni en þorir eiginlega ekki að spyrja af ótta við að drukkna í áðurnefndu fræðiorðaflóði.

geo_1032570.jpg Fyrir nokkrum árum (nánar tiltekið í september 2006) birtist í hinu ágæta leikmannsvísindariti Geo skemmtileg grein þar sem blaðamaðurinn Susanne Paulsen stillti einmitt upp þessum andstæðum (að vísu ekki í þessum orðum) og velti vöngum yfir spurningunni um hvað lærður maður á yfirleitt að kunna og hvernig því er sinnt í háskólum víðs vegar um Evrópu. Mér þótti greinin merkileg og geymdi því eintakið uppi í hillu, hafandi það í huga að gaman gæti verið að blogga um efnið, en kem því ekki í verk fyrr en nú. Greinin er ekki síst áhugaverð fyrir meðfylgjandi mynd sem ég gerðist svo djarfur að stela. Hún samanstendur af 76 tölusettum íkonum sem ritstjórn Geo valdi með það að markmiði að gefa einhvers konar þverskurð af mannlegri þekkingu. Það er gaman að spreyta sig á myndinni og velta vöngum yfir þeim hugrenningatengslum sem hvert íkonanna kveikir. Ég verð að játa að ég áttaði mig ekki strax á öllum myndunum. Er menntun minni þá ábótavant? Eða er það ef til vill nóg að ég þekki mínar bakteríur? Það er freistandi að halda áfram með þessar pælingar, en mynd segir meira en mörg orð, svo ég mæli frekar með að blogglesendur verji tíma sínum í að grannskoða myndina og spreyta sig á þrautinni. ATH: Það þarf að smella á myndina til að opna hana og smella svo aftur á hana til að sjá hana í almennilegri upplausn.

Góðar stundir.


Undur náttúrunnar

Málþing í tilefni af 150 ára útgáfuafmæli Uppruna tegundanna

Þann 24. nóvember 1859, fyrir réttum 150 árum, gaf John Murray, bókaútgefandi í London, út bókina On the Origin of Species eftir tiltölulega lítt þekktan náttúrufræðing, Charles R. Darwin að nafni. Það er kunnara en frá þurfi að segja að bók þessi olli straumhvörfum í lífvísindum og raunar hugmyndasögunni allri. Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Hólum minnast þessarra tímamóta með sameiginlegri málstefnu um lífvísindi í víðu samhengi.

Málþingið, sem samanstendur af 16 fræðandi, skemmtilegum og aðgengilegum erindum um ýmis hugðarefni íslenskra náttúruvísindamanna, verður haldin á afmælisdeginum, þriðjudaginn 24. nóvember í stofu R316 að Borgum við Norðurslóð. Pétur Halldórsson stýrir umræðum.

Hvar? – Borgum við Norðurslóð, 3. hæð, stofu R316 (innst á austurgangi)

Hvenær? – Þingið hefst kl. 9:00, en er skipt í fimm fundi (sjá dagskrá hér fyrir neðan)

Hvað kostar? – Ekkert!

Nánari upplýsingar veitir Oddur Vilhelmsson (oddurv@unak.is, s. 697 4252) . Sjá einnig heimasíðu HA: www.unak.is

Dagskrá:

9:00        Setningarávarp rektors HA, Stefáns B. Sigurðssonar

1233921138undated_charles_darwin-b.jpgFyrsti fundur. Náttúra Norðurlands: Svipmyndir úr dýraríki, jurtaríki og hinum hulda heimi örvera

9:10       Hreiðar Þór Valtýsson, lektor við auðlindadeild HA, flytur erindið Auðlindir hafs í Eyjafirði og áhrif umhverfisins.

9:30       Hjörleifur Einarsson, prófessor við auðlindadeild HA, flytur erindið Margur er knár þó hann sé smár.

9:50       Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, flytur erindið Út í skóg að svipast um í svepparíkinu.

10:10     Jóhannes Árnason, kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri flytur erindið Aspirnar eru illgresi?

10:20     Umræður

10:35     Kaffi

Annar fundur. Sameinaðir stöndum vér: Sambýli örvera, dýra og jurta í náttúru Íslands

10:50     Oddur Vilhelmsson, dósent við auðlindadeild HA, flytur erindið Þröng í þalinu: Ljósóháð bakteríusamfélög í íslenskum fléttum.

11:10     Arnheiður Eyþórsdóttir, aðjúnkt við auðlindadeild HA, flytur erindið Einkalíf svampa.

11:30     Ólafur S. Andrésson, prófessor við Háskóla íslands, flytur erindið Erfðamengi sambýlis: Raðgreining á himnuskóf.

11:50     Umræður

12:05     Matur

Þriðji fundur. Vor dýrasti arfur: Hlutverk erfða í þróun lífvera

13:10     Kristinn P. Magnússon, dósent við auðlindadeild HA og sérfræðingur á Akureryrarsetri NÍ, flytur erindið Ertu skoffín?

13:30     Stefán B. Sigurðsson, rektor HA, flytur erindið Meðfæddir hæfileikar eða þjálfun í íþróttum - Hvort ræður úrslitum?

13:50     Stefán Óli Steingrímsson, dósent við Háskólann á Hólum flytur erindið Ferskvatnsfiskar og fábreytni íslenskrar náttúru.

14:10     Umræður

14:25     Kaffi

Fjórði fundur. Úrsmiðurinn blindi: Þróun mannsaugans, finkugoggsins og annarra furðuverka

14:40     Arnar Pálsson, dósent við Líf-og umhverfisvísindadeild HÍ flytur erindið Náttúrulegt val og fjölbreytileiki lífsins.

15:00     Hafdís Hanna Ægisdóttir, verkefnisstjóri við Landbúnaðarháskóla Íslands, flytur erindið Darwin og lífríki eyja.

15:20     Þórir Haraldsson, kennari við Menntaskólann á Akureyri, flytur erindið Aðlögun hvítabjarna að óvistlegu umhverfi. 

15:50     Umræður

16:00     Kaffi

Fimmti fundur. Hvað þýðir þetta allt? Áhrif þróunarkenninga á hugmyndasögu og vísindaheimspeki

16:15     Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor við Háskóla Íslands, flytur erindið Þróunarkenningin í ljósi vísindaheimspekinnar.

16:35     Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur við Reykjavíkurakademíuna flytur erindið Landnám þróunarkenningarinnar á Íslandi, 1872-1910.

16:55     Guðmundur Guðmundsson, forstöðumaður safnasviðs NÍ, flytur erindið Tegundir, þróun og flokkunarkerfi í ljósi Uppruna tegundanna.

17:15     Umræður

17:30     Samantekt og málstofuslit

17:45     Móttaka

 

 


Minning um afa

Bjartur afi 1 

Hann Guðbjartur afi minn, Bjartur málari, lést þann 12. ágúst síðastliðinn og langar mig til að rifja upp fáeinar af þeim mörgu og góðu minningum sem ég á um hann.

 

Afi var að jafnaði hæglátur maður og dagfarsprúður. Hann var ekki sú manngerð sem göslast í gegn um lífið með hávaða og látum, en þó hafði hann nokkuð gaman af að tala og ef sá gállinn var á honum komu sögurnar á færibandi. Afi kunni líka vel að segja sögur. Hann átti gott með að koma auga á spaugilegu hliðarnar á breyskleika mannanna og hafði sérstaka hæfileika til að finna mönnum lýsandi og eftirminnileg viðurnefni sem voru óspart notuð til að krydda frásagnir hans. Sögurnar hans voru málaðar björtum litum kímni og glettni og blandaðar með hæfilegum skammti af himinhrópandi ýkjum. Maður var aldrei almennilega viss hvar raunveruleikanum sleppti og ævintýrin tóku við í sögunum hans afa og einhvern veginn grunaði mann að hann væri ekki rétt viss sjálfur á stundum, slík var innlifunin. Þó afi væri prúður að jafnaði gat vissulega fokið í hann. Höfðum við þá á orði að „súinn“ væri kominn upp í honum og mun þar vísað til hinna stórlyndu áa hans í Súgandafirði, en föðuramma hans var GOGuðrún hin stórráða Oddsdóttir, annálað kjarnorkukvendi. Ég man að „súinn“ átti það til að ráða ríkjum þegar glímt var við umferðina í Reykjavík. Þá fengu hinir tillitsminni ökuþórar það óþvegið á kjarnyrtri vestfirsku. Sjaldan hef ég heyrt riddurum götunnar blótað af jafn miklu listfengi og innlifun og var það nokkur hrelling litlum patta sem hafði átt öllu blíðlegri tóni að venjast frá hinum barngóða afa sínum. En, maður var fljótur að læra að „súinn“ var jafnan skammlífur og hvarf jafn fljótt og hann brast á.

 

Sköpunargleði afa var hamslaus. Hann gat engan veginn látið sér nægja að mála bara veggi, loft og gólf, eins og hann gerði dag hvern svo sem fag hans bauð, heldur málaði hann einnig þvílík ógrynni af myndum að enginn hefur tölu á. Aldrei hélt hann þó sýningu eða taldi sig á nokkurn hátt í hópi hinna uppnefjuðu listamanna þjóðarinnar. Myndir sínar málaði hann eingöngu sér og sínum til ánægju og yndisauka. Hann þurfti heldur ekki striga og trönur til að skapa listaverk sín. Húsveggir, fjalir, blaðsneplar, spýtukubbar, hvaðeina sem myndaði hæfilega sléttan flöt var málað á, allt frá einföldum skreytingum til flókinna og úthugsaðra listaverka. Mér er minnisstætt þegar ég dvaldi hjá honum vestur á Mýrum í vikutíma eða svo. Hann var þá að smíða einhvern húskofa og þóttist ég, þá tíu ára eða svo, ætla að hjálpa honum eitthvað, en hef nú trúlega gert meira af því að þvælast fyrir. Ég hafði tekið með mér stóra teikniblokk og á kvöldin reyndi afi að kenna mér að teikna. Hann hefur fljótlega fundið að mínir hæfileikar lágu annars staðar, en fyllti sjálfur blokkina hraðar en auga á festi af hinum skringilegustu og skemmtilegustu myndum sem ég dundaði mér svo við að lita.7.4.2007 13 46 49GTABV 0109 1

 

Eftir þau erfiðu og afar langvinnu veikindi sem afi þurfti að glíma við síðustu árin, raunar á annan áratug, er maður eiginlega, fyrir hans hönd, hvíldinni feginn. En, ég sakna hans þó.

Hér er svo albúm með myndum af afa ... og hér er albúm með nokkrum myndum eftir hann.


Líftæknigátt

New Picture

Aðgengilegt, íslenskt fræðsluefni fyrir almenning um líftækni og málefni henni tengd hefur til þessa verið af býsna skornum skammti. Nemendur í líftækni og sjávarútvegsfræði við HA reyna nú, ásamt undirrituðum, að gera einhverja bragarbót þar á. Wikipedia er opin alfræðiorðabók á netinu sem hver sem er getur breytt. Við höfum nú búið til Líftæknigátt í Wikipediu með tenglum í greinar um líftæknileg efni. Greinarnar eru mjög mis langt á veg komnar. Sumar eru aðeins á „orðabókarformi“, en aðrar eru mun lengri. Einnig á eftir að byrja á all mörgum síðum sem við höfum gert ráð fyrir tenglum í. En, ástæða er til að árétta að hver sem er getur bætt við og breytt efni í Wikipediu og um að gera fyrir leika sem lærða að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni með okkur.

Það er von okkar að gáttin geti orðið til þess að vekja áhuga á þessarri stórskemmtilegu og notadrjúgu fræðigrein.

Í leiðinni er ekki úr vegi að geta þess að umsóknarfrestur um nám í líftækni á B.Sc.- og M.Sc.-stigi rennur út föstudaginn 5. júní.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband