Doktorsvörn í prótínmengjagreiningu

 IMG_2934Það var einkar ánægjulegt að vera viðstaddur doktorsvörn Hólmfríðar Sveinsdóttur við Háskóla Íslands síðastliðinn föstudag. Hólmfríður vann verkefni sitt undir aðalleiðsögn Ágústu Guðmundsdóttur prófessors við matvæla- og næringarfræðideild HÍ, en meðleiðbeinendur voru auk mín þau Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir við HÍ og Helgi Thorarensen á Hólum. Verkefnið er því réttnefnt samstarfsverkefni þriggja háskóla: HÍ, HA og Hólaskóla. Frétt HÍ um verkefnið og vörnina má lesa hér.

Hólmfríður vann feikilega vandað og gott verkefni um þær breytingar sem verða á prótínmengi þorsklirfa við þroskun þeirra og þau áhrif sem ýmsir þættir í umhverfi og fæði hafa þar á. Að greina prótínmengi er ekkert áhlaupsverk. Það þekki ég af eigin reynslu. Nálgun Hólmfríðar er byggð á tvívíðum rafdrætti gjörvalls prótínmengis þorsklirfanna, en sú aðferð er tæknilega krefjandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Að auki fylgja ýmsar tæknilegar hindranir því að vinna með prótínmengi þorsklirfa. Þar má nefna að illgerlegt er að aðgreina vefi og því vann Hólmfríður með heildarmengi allrar lífverunnar, en það torveldar sjóngervingu og greiningu þeirra prótína sem eru til staðar í hlutfallslega litlu magni. Einnig er viss farartálmi fólginn í því að gagnabankar (oftast er hentugast að notast við hin ýmsu undirsöfn GenBank) eru fremur rýrir þegar kemur að þorskfiskum. Það ástand mun vonandi batna innan tíðar, því verið er að raðgreina gjörvallt erfðamengi Atlantshafsþorsksins.IMG_2944_ed

Þrátt fyrir þessar tæknilegu hindranir vann Hólmfríður afar gott verkefni að mínu mati, þó auðvitað sé ég hlutdrægur Smile. Of langt mál væri að rekja hér niðurstöðurnar, en benda má á að gerð er grein fyrir þeim í fimm ritrýndum tímaritsgreinum og einum ritrýndum bókarkafla, auk doktorsritgerðarinnar sjálfrar. Þar af eru tvær greinar þegar birtar: önnur í Aquaculture og hin í Comparative Biochemistry and Physiology.

Andmælendur voru þeir Phil Cash frá Háskólanum í Aberdeen og Albert Imsland frá Háskólanum í Bergen og ráku þeir báðir erindi sín snöfurmannlega og af stakri prýði. Vörn Hólmfríðar og athöfnin öll var HÍ til mikils sóma og þakka ég pent fyrir mig.


Lögfræði vs. umhverfis- og orkufræði

Án þess að ég þekki nokkuð til þessa ágæta manns eða hafi nokkra ástæðu til að efast um vinnubrögð hans og hæfi til að semja þessa skýrslu (hef raunar dáðst nokkuð að „orkublogginu“ hans um nokkurt skeið, en það er býsna vandað, vel skrifað og læsilegt), þá velti ég því óneitanlega fyrir mér hvers vegna „lögfræðingur og MBA“ er fenginn til þessa verks fremur en fólk sem er sérstaklega til þess lært, þ.e. umhverfis- og orkufræðingar? Mér býður í grun að við hér í raunvísindaskor HA séum ekki nógu dugleg við að koma okkar námslínum og þeim möguleikum sem þær bjóða á framfæri.

Það er svo gaman að segja frá því að nemendur í umhverfis- og orkufræðum voru einmitt að vinna verkefni á þessu sviði nýverið undir stjórn Sigþórs Péturssonar prófessors. Hér kemur smá tilvitnun í skýrslu þeirra:

„[V]eðurfræðilega og landfræðilega séð er ekkert því til fyrirstöðu að nýta vindorku á Íslandi en eins og staðan er í dag er kostnaðurinn of mikill. Vindorkuiðnaðurinn er þó í stöðugri þróun og það sem er óhagkvæmt í dag getur verið hagkvæmt í framtíðinni.“ (Atli Steinn Sveinbjörnsson, Björgvin friðbjarnarson og Ragnheiður Ásbjarnardóttir. 2009. Vindorka á Íslandi. Háskólinn á Akureyri)

 

 


mbl.is Telur virkjun vindorku raunhæfan kost
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DNA í eldhúsinu

Untitled-TrueColor-01

Á laugardaginn verður mikið um dýrðir hér hjá okkur í HA, en þá verður vori fagnað með Opnu Húsi hér á háskólasvæðinu. Gestir og gangandi geta kynnt sér það sem fram fer í deildum skólans, þegið léttar kaffiveitingar og bara átt með okkur notalegt síðdegi. Dagskrá fagnaðarins má sjá hér á síðu markaðs- og kynningarsviðs.

Ég vil að sjálfsögðu einkum benda á mitt „sjóv“, en ég mun freista þess að einangra DNA úr jarðarberjum með eldhúsáhöldum, sjampói, matarsalti og sótthreinsispritti. DNAið mun ég vefja upp á plaströr eins og hvert annað spagettí og geta áhugasamir gestir fengið að taka í. Aðferðinni er lýst í bæklingnum sem tengt er í hér að neðan (prentist út báðum megin á pappírinn þ.a. hann flettist um stutthlið; brjóta svo saman í þríbroti).


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Richard Örn

 

Það kunngjörist hér með að Richard Örn kom í heiminn með keisaraskurði í morgun kl. 09:50. Drengurinn stendur vel undir sínu riddaralega nafni: Hann er stór og hraustur, orgaði eins og herforingi nánast um leið og rist var á kviðinn og kastaði þvagi á barnalækninnn við fyrsta tækifæri.

Móður og barni heilsast vel. Myndir eru hér ... og svo eru enn fleiri myndir á Facebook


Stína amma

5.4.2007 17 43 58GTABV 00031Hún Stína amma mín er nú látin eftir nokkuð erfið veikindi undanfarna mánuði. Það er auðvitað ekki hægt að segja að andlát hennar hafi komið á óvart – úr því sem komið var – en samt finnst manni þetta pínulítið skrítið. Manni fannst einhvern veginn eins og lífsgleði hennar og þróttur hlytu að vara að eilífu eða þar um bil, slík var útgeislun hennar alveg fram undir það síðasta.

Það var alltaf gaman að koma til ömmu. Þar var líf og fjör, og stöðugt rennerí af fólki, þó svo aldrei væri nóg um að vera að dómi þeirrar þróttmiklu félagsveru sem amma var. Hvernig má enda annað vera, hafandi bæði alist upp í hinni fjölmennu og líflegu „Lúðrasveit Maríu“ og svo alið upp annan eins og síst fyrirferðarminni skara?

Mínar fyrstu minningar um ömmu eru frá Bergstaðastrætinu – Hótel Skrölt, eins og það var ævinlega kallað. Rifsberin í garðinum, kleinur í poka, nýsteiktar lummur ... einhvern veginn var amma alltaf nátengd við góðan mat í mínum huga. Jólin á Hótel Skrölt eru öllum ógleymanleg sem þeirra fengu að njóta. Jafnvel litlum pöttum sem mest lítið skildu í öllum þeim fyrirgangi sem þeim fylgdu. Þá var nú skarkað í pottum, glamrað í diskum og bollum, skrafað og hlegið hátt og hvellt. Þá var tekið hraustlega til matar síns, og það þó slíkur væri fjöldinn að sérhver borðflötur var þétt setinn og við krakkarnir máttum tylla okkur á kolla eða bara á gólfið með diskana í kjöltunni.

Minningar mínar um ömmu frá hinum síðari árum eru skýrari, eins og vonlegt er, en ekki síður hlýlegar. Sumarið 2003, komin vel á níræðisaldur, heimsótti hún okkur Anett í Skotlandi, ásamt 26.2.2009 19 31 04 0002pabba, mömmu og Fannari. Við dáðumst mjög að krafti hennar og úthaldi – ekki mátti á það minnast að taka því rólega hennar vegna – og ekki síður að hlýju hennar og lífsnautn. Samband okkar ömmu styrktist svo enn frekar eftir að við Anett fluttum hingað heim aftur. Það var sérlega gaman að sjá hve hún ljómaði í hvert sinn sem við kíktum við í Sólholtinu, enda var Snæbjörn litli snemma farinn að hlakka mikið til að hitta langömmu sína í hvert sinn sem brugðum okkur suður yfir heiðar.

Ömmu er sárt saknað, en nokkur huggun er þó að vita að fáir munu hafa lifað lífinu betur en hún.

Hér eru nokkrar myndir til minningar um hana.


Fleiri myndir (loksins)

Jæja, þá dreif ég mig loksins í því að ganga frá síðustu kvikmyndunum sem ég er með frá Ragnari afa mínum. Reyndar er nú eitthvað meira í því efni sem ég er með, en það er af það slöku2008 07 22 10 34 48 003411m gæðum að það þjónar tæpast tilgangi að setja það hér inn. Ég tek reyndar eftir því að þessar wmv-myndir eru í frekar slakri upplausn, en upphaflegu myndirnar sem Gísli brenndi á disk eru í mun betri gæðum, svo ef einhvern langar í betri kópíu, þá er bara að láta mig vita!

Ég bætti líka inn nokkrum ljósmyndum í leiðinni (í „ansi gömlu“ möppuna). Þetta skannaði ég eftir slides-myndum frá afa. En, annars vil ég endilega benda á síðuna hans Steina: 123.is/steini, þar eru ógrynni af gömlum myndum frá afa og hafa verið skrifaðar athugasemdir við all margar þeirra. Mjög gaman að skoða þetta.

Njótið vel.


Tækifæri í raunvísindum og grunnrannsóknum

Óhætt er að segja að naflaskoðunarskriða hafi farið af stað í þjóðfélaginu á umliðnum vikum þar sem meginstoðir íslensks efnahagslífs og samfélagsins alls hafa verið teknar til gagngerrar ítarskoðunar. Sitt sýnist hverjum, eins og vonlegt er. Sumir finna hugarfróun í að benda á það sem aflaga hefur farið, á meðan aðrir einbeita sér að því að leita nýs upphafs og skima eftir möguleikum og tækifærum. Háskólinn á Akureyri (HA) ætlar sér að taka þátt í þessari umræðu og leggja þar á vogarskálar þá miklu þekkingu og reynslu sem finna má meðal sérfræðinga skólans. Í þessum greinarstúfi verður sjónum beint að raunvísindum og rannsóknastarfi almennt, en við HA er starfandi raunvísindaskor þar sem fram fara bæði kennsla og rannsóknir á nokkrum sviðum hagnýtra raunvísinda, nánar tiltekið líftækni, sjávarútvegs- og fiskeldisfræðum, tölvunarfræðum og umhverfis- og orkufræðum.

Fáir munu andhæfa þeirri staðhæfingu að í hagnýtum rannsóknum á sviði vísinda og tækni felist fjölmörg tækifæri. Í gegn um hagnýtar rannsóknir fyrirtækja, stofnana og háskólasamfélagsins opnast tækifæri til nýsköpunar og myndunar sprotafyrirtækja sem með tíð og tíma geta vaxið og dafnað í leiðandi hátæknifyrirtæki. Á hinn bóginn heyrast þær raddir af og til, að grunnrannsóknir með fræðilegt ekki síður, og jafnvel fremur en, hagnýtt gildi séu dragbítur á samfélaginu. Þær séu rándýr gæluverkefni sérlundaðra fílabeinsturnbúa úr öllum tengslum við þarfir og kröfur þjóðarinnar. Í þessu sambandi er skemmst að minnast ummæla Söru Palin, varaforsetaefnis bandaríska repúblikanaflokksins í nýafstöðnum forsetakosningum þar vestra, en hún fór mikinn í vandlætingu sinni á fjáraustri í grunnrannsóknir á erfðafræðum ávaxtaflugna1. En, skyldi þessi afstaða vera nægilega vel ígrunduð? Hvernig ákveðum við hvaða rannsóknir hafa hagnýtt gildi og hverjar ekki?

David Baltimore, forseti bandarísku vísindaþróunarakademíunnar (American Academy for the Advancement of Science), skrifaði áhugaverða grein sem birtist 24. október síðastliðinn í vísindafréttaritinu Science2. Þar kemur m.a. fram sú skoðun hans að það sé einmitt áhersla Bandaríkjastjórnar á stuðning við grunnrannsóknir, óháð meintu hagnýtu gildi eða annarri þarfagreiningu, sem hefur verið „leynivopn“ Bandaríkjanna í efnahagslegu kapphlaupi þjóða heimsins undanfarna áratugi. Í grein sinni veltir Baltimore því fyrir sér hvaða lærdóm önnur ríki geti dregið af reynslu Bandaríkjanna á stjórnun vísindastarfsemi, einkum hvað varðar skipulag og stefnumörkun háskóla og annarra rannsóknastofnana. Hann leggur fram fimm einfaldar reglur sem ég tel rétt að ráðamenn mennta- og vísindamála hér á landi taki til skoðunar:

1.       Gæði séu ávallt í öndvegi, jafnt í mannaráðningum sem á öðrum vettvangi. Baltimore telur það óráð að reynt sé að fylla í faglegar eyður þegar ráðið er í nýjar stöður. Fremur skuli stilla nýráðningum í hóf og einblína á þá kandidata sem skara fram úr á sínu sviði.

2.       Kröftum sé ekki dreift um of. Augljóst er að lítil hagkerfi geta ekki skarað fram úr á öllum sviðum.

3.       Byggja skal upp smáar einingar. Smæð er kostur að mörgu leyti og mun hægara er um vik að halda uppi háum gæðakröfum í smáum, þröngt skilgreindum einingum heldur en á stórum, víðtækum stofnunum.

4.       Ekki aðskilja kennslu og rannsóknir. Háskólastúdentar eru vísindamenn morgundagsins og hagur bæði nemenda og annars rannsóknafólks  af nánu samstarfi er ótvíræður.

5.       Akademískt frelsi til rannsókna skal tryggt. Afskipti ríkis eða annarra utanaðkomandi aðila af verkefnavali vísindamanna hefur hvergi gefist vel. Í frelsinu liggur sköpunarkrafturinn.

Rétt er að benda á að Baltimore nefnir hvergi í grein sinni að ákveðnar greinar vísindanna séu öðrum mikilvægari, þó reyndar bendi hann á líftæknigeirann í heild sinni sem dæmi um frábæran árangur bandarískrar vísindastefnu undanfarna áratugi. Þvert á móti verður honum tíðrætt um gildi akademísks frelsis og getur þess að það séu einmitt grunnrannsóknir sem skila þeim stökkum í skilningi og hugsun sem eru grundvöllur tækniframfara og nýsköpunar.

 Heimildir:

1.            Rutherford, A., Palin and the fruit fly, á vef The Guardian (www.guardian.co.uk), 27. október 2008.

2.            Baltimore, D., A global perspective on science and technology, Science 322, 544-551, 2008.

 (Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag.)

Skröggskvæði

New PictureÖll þekkjum við Grýlu gömlu og Leppalúða, og óþekktarormana þeirra, jólasveinana. Önnur grýlubörn, eins og Láp, Skráp, Lepp, Skrepp og Leiðindaskjóðu þekkja líka margir. En, minna hefur í seinni tíð farið fyrir hálfbróður jólasveinanna úr „hinni helvítis ættinni“, honum Skröggi Leppalúðasyni, og er hann þó ódámur hinn versti og rammgöldróttur í þokkabót eins og sjá má í kvæðinu sem fer hér á eftir. Ekki veit ég hver orti þessa stórskemmtilegu þulu, en hún mun hafa verið all þekkt í Dölunum í kring um þarsíðustu aldamót. Njótið vel.  

 

S K R Ö G G S K V Æ Ð I

Eitt vil ég kvæði kveða til gamans mér,

og skemmta með því börnunum hvað skeður nú hér.

Og skemmta með því börnunum og skiljið þið nú,

út gekk ég eitt sinn, mín ætlan var sú.

Út gekk ég eitt sinn og ætlaði út í fjós,

fínt var þá veður og fagurt tunglsljós.

Fínt var þá veður, en frost nokkuð hart,

sá ég hvar hann Skröggur skundaði snart.

Sá ég hvar hann Skröggur skringilegur fór,

ærið mjög var ygldur og yfirburðastór.

Ærið mög var ygldur, mig óttaði af þeim segg,

með kafloðna kjálkana og kolsvart var skegg.

Með kafloðna kjálkana og kampa þandi út,

nasirnar víðar og nefið sem á hrút.

Nasirnar víðar og nóg kinnbeinin há,

eins voru augun og þar sæi í skjá.

Eins voru augun, ég þetta sá,

hundsbelgur loðinn á höfðinu lá.

Hundsbelgur loðinn á  höfðinu var,

harla stóran klasserk á herðunum bar.

Með harla stóran klasserk hann heilsar upp á mig

með kurteisi nóga og knébeygði sig.

Með kurteisi nóga hann kveður svo til mín:

"Nauðstaddur kem ég núna til þín.

Nauðstaddur kem ég að náðir þú mig fljótt,

vildi  ég fá að vera að vísu í nótt.

Vildi ég fá að vera, ef veittirðu það mér,

Kalt er mér næsta því kvöldað nú er.

Kalt er mér næsta og kemst ei lengra nú,

Segi ég þér sannleikann og sver það við trú."

"Ef segirðu mér sannleikann," svaraði ég þá,

"hermdu mér þitt heiti og hvaðan ertu frá?

Hermdu mér þitt heiti og hver er þín ætt,

ef ég hefi áður heyrt um hana rætt."

"Ef ég hefi áður heyrt," ansaði hann þá

„Skröggur er mitt heiti, ég skýri svo frá.

Skröggur er mitt heiti, ég skrafa nú um hitt

að hérna uppi í Hyrnunni er heimilið mitt.

Hérna uppi í Hyrnunni hef ég til þess von,

lýstur hef ég verið Leppalúðason.

Lýst hefur verið Lúpa móðir mín,

dáfalleg næsta, dyggðug og fín.

Dáfalleg næsta, dróst það svo til nú,

giftur var hann Leppalúði, en Grýla hét hans frú.

Giftur var hann Leppalúði, en Grýla lagðist sjúk,

heilt lá hún árið og hrærði ei sinn búk.

Heilt lá hún árið og hlaut minn faðir þá

að biðja sér styrktar um búið að sjá.

Að biðja sér styrktar því börn hann átti mörg,

þau voru þybbin, þrálynd og körg

Þau voru þybbin, þar var ei stans,

þá fékk hann Lúpu að þjóna krökkum hans.

Þá fékk hann Lúpu, þæg var honum sú,

furðu mjög var framsýn og forstóð hans bú.

Furðu mjög var framsýn, það frétta sérhver má,

hann gekk í sæng til hennar og gjörðist ég þá.

Hann gekk í sæng til hennar en hún Grýla þar

fór á fætur aftur þá fullbatnað var.

Fór á fætur aftur með fólskulegt geð,

varð hún næsta ybbin, er vissi hún hvað var skeð.

Varð hún næsta ybbin og yggldi þá sig,

út rak hún Lúpu og einnig líka mig.

Út rak hún Lúpu æði langt sér frá,

ekki vildi hún okkur með augunum sjá.

Ekki vildi hún okkur una neins góðs,

þó var honum Leppalúða þetta til móðs.

Þó var honum Leppalúða þrautamikið bann,

eitt fékk okkur eyland til uppeldis hann.

Eitt fékk okkur eyland, æði langt sér frá

og bátskip eitt lítið að bjarga okkur á.

Með bátskip eitt lítið bjuggum við svo þar

allt til þess að ára tólf orðinn ég var.

Allt til þess að ára tólf, uppá féll svo þá,

missti ég hana móður mína mér í burtu frá.

Missti ég hana móður mína, mest það harma ég nú,

einn var ég þar eftir um árin heil þrjú.

Einn var ég þar eftir, en eitt sinn svo til bar

að herkóngur nokkur hélt að eyjunni þar.

Að herkóngur nokkur hélt álfheimum frá,

ég vék í ferð með honum og var ég glaður þá.

Ég vék í ferð með honum, víst ég um það get,

heyrði ég það skrafað að Hængur hann hét.

Heyrði ég það skrafað að Hængur væri hans nafn,

við flesta þótti hann frægðunum fremur en jafn.

Við flesta þótti hann frægðunum fjárafla von,

giftur var hann Hængur, en Gnípa hét hans kvon.

Giftur var hann Hængur, gildur höfðings mann,

listirnar margar lét mér kenna hann.

Listirnar margar lærði ég honum hjá.

Dávæna dóttur sá döglingur á.

Dávæna dóttur, dygg var hún og trú,

Skröfuðu það margir að Skjóða héti sú.

Skröfuðu það margir, ég skrökva ekki má

að drjúga lagði ég elskuna dóttur kóngsins á.

Að drjúga lagði ég elskuna, dóttur kóngs ég bað,

ég meinti að mér gengi vel málefni það.

Ég meinti að mér gengi að mægjast við hann hér,

Reiddist þá Hængur svo réði varla sér.

Reiddist þá Hængur, en ráð ég annað tók,

kennt hafði hann mér listir, en kunnáttuna ég jók.

Kennt hafði hann mér listir, en kólna tók mitt geð,

dóttur kóngs ég náði svo dimmrúnum með.

Dóttur kóngs ég náði, því drós mér unni blíð,

vildi ég þaðan halda, þá hentug var tíð.

Vildi ég þaðan halda, því heitt hún unni mér,

þótt heimanfylgju enga hefði með sér.

Þótt heimanfylgju enga hafa með sér má,

eftir það héldum við álfheimum frá.

Eftir það héldum við Eyrarhyrnu að,

höfum við svo verið hingað til við það.

Höfum við svo verið með harla lítinn auð,

á meðan við gátum unnið, þá veittist okkur brauð.

Á meðan við gátum unnið og vorum bæði ung,

við áttum þar börnin og ómegð var þung.

Við áttum þar börnin tuttugu og tvö,

af þeim deyði fimmtán, en eftir lifðu sjö.

Af þeim deyði fimmtán, en uppólust hin,

eftir það kom bólan, sem ekki þótti lin.

Eftir það kom bólan, öll þau deyði þá,

síðan af þeim misstum ég segja víst má.

Síðan hefur kerlingin karar legið mín,

ei kemst hún á fætur, það eykur mér pín.

Ei kemst hún á fætur, eins erum bæði við

örvasa orðin, um ölmusu því bið.

Örvasa orðin, af því fýsti mig,

fór ég því að heiman að finna vildi ég þig.

Fór ég því að heiman að frétt hafði ég enn

að góðsöm þú værir við gustukamenn.

Að góðsöm þú værir og gustukagjörn,

herði ég það skrafað að hér væru börn.

Heyrði ég það skrafað að hér væru piltar tveir.

Guðmundur og Egill, greindir eru þeir.

Guðmund og Egil girnir mig að fá,

ég heyri í þeim hrinurnar og hljóðin ósmá.

Ég heyri í þeim hrinurnar hvern dag sem nátt,

skrafa þá margir að Skröggur sé í gátt.

Skrafa þá margir, ég skríði gluggum á,

hlusti ég til barnanna hvort þau ýli þá.

Hlusta ég til barnanna og heyri þeirra són,

seldu mér hann Guðmund sú er mín bón."

"Ég sel þér ei hann Guðmund, því gott barn hann er,

eins er um hann Egil, aldrei gefst hann þér.

Eins er um hann Egil, til orða svo ég tek,

þó heyra þykist þeirra hljóðin og brek.

Þó heyra þykist þeirra hljóðin svo há,

þá eru þeir að syngja Saltarann á.

Þá eru þeir að syngja sín bænavers.

Ekki þarftu Skröggur að ætlast til þess.

Ekki þarftu Skröggur að ætlast sílks af mér,

þú ert ei svo haltur , sem hinkrar þú hér.

Þú ert ei svo haltur, þó hafir þú hér dvöl,

busla máttu í fjörunni marinkjarna og söl.

Busla máttu i fjörunni marinkjarna um sker,

grásleppuroðin, þau gefast líka þér.

Grásleppuroðin þau gefast þér í lóg,

í Hyrnunni hjá þér af hrafnsungum er nóg.

Í Hyrnunni hjá þér, hafa máttu það,

þá máttu brytja þér alla í spað.

Þá máttu brytja svo þú sért nokkru nær,

ekki þarftu að svelta, ef allt þetta fær."

"Þótt ei þurfi ég að svelta," ansaði hann þá.

"Það er ekki af þínu, þó þetta megi ég fá.

Það er ekki af þínu," og þá espaði hann sig,

Hann gerðist svo reiður að gleypa ætlaði hann mig,

Hann gerðist svo reiður og gegndi ég honum þá:

"Lifur og lungu úr lambi skaltu fá.

Lifur og lungu láttu nægja þér,"

Gladdist þá Skröggur og gjörði þakka mér.

Gladdist þá Skröggur og gekk sig svo á burt,

hefi ég ekki síðan neitt af honum spurt.

Hefi ég ekki siðan heyrt hvar hann heldur sig,

virði menn til góða, vísir báðu mig.

Virði menn til góða vísnastefja tón.

Blessuð veri börnin en bragar hverfur són.

 


Líftækni á Króknum

LaufeyÞetta eru vissulega ánægjuleg tíðindi og er ég sannfærður um að þetta framtak mun skila Sauðkræklingum, og raunar þjóðinni allri, verulegum ávinningi þegar fram líða stundir. Kreppa hvað?

Svo má náttúrlega benda á að þessi nýja líftækniverksmiðja /rannsóknastofa er einstaklega vel í sveit sett - aðeins steinsnar, svo að segja, frá eina háskóla landsins sem býður upp á sérhæft nám í líftækni, og það bæði á bakkalár- og meistarastigi. Háskólanum á Akureyri, sumsé ... þar sem enn er opið fyrir innritun nýnema í líftækni á vormisseri. Smile

Á myndinni hér til hliðar, sem Gísli Hjörleifsson tók fyrir Háskólann á Akureyri, má sjá Laufeyju Hrólfsdóttur pósa við smásjá. Laufey útskrifaðist með B.Sc. í líftækni síðastliðið vor.


mbl.is Líftækniverksmiðja opnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töfrasprotar?

Það var ánægjulegt að sjá í Morgunblaðinu í dag opnuumfjöllun um Nýsköpunarsjóð (atvinnulífsins sumsé, ekki námsmanna) og sprotafyrirtæki hans. Á nýliðnum tímum auðmannadýrkunar og síbyljandi væntinga um skjótfenginn gróða úr tómu lofti fór harla lítið fyrir lítillátum en lúsiðnum frumkvöðlum sem vildu skapa eiginleg verðmæti úr alvöru hráefnum og hugviti. Þeir læddust með veggjum, að því er manni virtist, eða féllu að minnsta kosti alveg í skuggann af útrásandi bönkum og fjárglæframönnum. Þeir voru þó, til allra heilla, á meðal vor, þó ekki færi það hátt.

Þeirra á meðal er að finna all nokkuð af smáum en knáum líftæknifyrirtækjum. Í Morgunblaðinu er minnst á nokkra gamla kunningja, svosem Genis og Primex, en einnig sé ég þarna minnst á fyrirtæki sem ég hef minna heyrt um, eins og BP-lífefni og Lífeind. Raunar hefur HA_liftaekniótrúleg gróska verið í frumkvöðlastarfi í líftækni hérlendis á síðustu árum. Í skýrslu Dillingham og Nilssen frá í fyrra eru talin upp 32 lítæknifyrirtæki starfandi hérlendis og má m.a. sjá þann lista hér. Sá listi er þó ófullkominn og inniheldur t.d. hvorki BP-lífefni né hið áhugaverða sjávarlíftæknifyrirtæki BioPol á Skagaströnd. Ég vil því leyfa mér að vera bjartsýnn og spái íslenskri líftækni glæstri framtíð. Líftækni mun eiga sinn þátt, og það jafnvel ríkulegan, í rífa Ísland upp úr kreppunni. Þrátt fyrir að vissulega sé alltaf áhætta að leggja fé í sprotafyrirtæki, þá vitum við þó í það minnsta að hér er fjárfest í heiðarlegum tilraunum til raunverulegrar verðmætasköpunar, en ekki í innistæðulausum rembingi og töfrabrögðum.

Á myndinni hér til hliðar má sjá Máneyju Sveinsdóttur og Kristjönu Hákonardóttur (og Laufeyju Hrólfsdóttur í bakgrunni), nýútskrifaða líftæknifræðinga frá Háskólanum á Akureyri. Ef til vill eiga þær og aðrir líftæknifrömuðir eftir að bjarga þjóðarbúinu með vasklegri frumkvöðlastarfsemi? Myndina tók Gísli Hjörleifsson fyrir Hásólann á Akureyri.

Góðar stundir.


mbl.is Ársreikningar verði í evrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband