Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Myndasíður

Öddi (stóri) hefur einnig sett myndir af ættarmótinuá vefinn. Það má því skoða myndir frá ættarmótinu

hér (myndir Ödda),

hér (myndir Atla),

hér (myndir Tryggva) og

hér (myndirnar mínar).

Gjöriði svo vel! 


enn fleiri myndir

Ég gerðist svo frakkur að hnupla diskunum sem Öddi, Steini og Gísli komu með á ættarmótið og mun reyna að koma einhverju af efni þeirra til skila á þessari síðu. Svona eftir því sem ég hef tíma og nennu til. Ég byrja hér á að setja fáeinar myndir af disk Steina, valdar af handahófi, í þetta albúm. Ég hef ekkert skrifað við þær enn og þekki reyndar fæst af því fólki sem þar má sjá. Athugasemdir eru því þegnar með þökkum.

Postscriptum

Jæja, þá er ættarmótinu lokið og held ég að flestir hafi nú bara haft gaman af. Kærar þakkir fyrir skemmtunina, þið öll!

Veðrið var að vísu ekki tiltakanlega samvinnuþýtt framan af, en þó rættist eitthvað úr því seinnipart mótsins. Dagskráin var að mestu af fingrum fram og lukkaðist það bara býsna vel. Þó voru tvær skipulagðar uppákomur: rútuferð upp í Borgarvirki þar sem varla var stætt fyrir roki, en partahlaðborð Gúu gerði meira en að bæta upp fyrir hrekki veðurguðanna. Hin uppákoman var hinn stórskemmtilegi trommuhringur sem Kalli stjórnaði af hjartans innlifun. Hann vakti gríðarlega lukku jafnt meðal þátttakenda sem áheyrenda. Svo var það náttúrlega hátíðarkvöldverðurinn sem Kalli Örvars eldaði fyrir okkur af sinni alkunnu snilld, en undir borðhaldinu skoðuðum við glærusjóv og gamlar kvikmyndir auk þess sem ófáar bráðskemmtilegar sögur fengu að fjúka. Að matnum loknum fengum við að skoða gömlu íbúðina Laugu og Ragnars sem er líklega eini hluti gamla skólahússins sem enn er svo að segja óbreyttur frá fyrri tíð og röltum um staðinn og rifjuðum upp hitt og þetta ... fengum m.a. tilsögn í rúðubrotum frá meistaranum sjálfum (mynd 1, mynd 2). Að því loknu var farið í kubbaleik - bráðskemmtilegur leikur við allra hæfi. Bæði kvöldin var svo setið í nýja skólahúsinu (Bjarnaborg) og skrafað og sungið langt fram eftir nóttu. Skilst mér að hörðustu partíljónin hafi skriðið í bælið um fimmleytið. Þau systkini, Öddi litli og Drífa eiga öðrum fremur heiðurinn af að halda uppi fjörinu með gítarspili og söng. Að sjálfsögðu voru nokkur rússnesk og kommúnísk lög kyrjuð af stakri innlifun ... en Nallinn gleymdist! Þetta er yfirsjón sem bæta þarf úr á næsta móti.

Talandi um næsta mót, þá var ný nefnd skipuð með harðri hendi. Kiddi, Inga og Valdís voru skipuð í nefndina við dynjandi lófatak og engar mótbárur teknar til greina Smile. Ekki var endanlega skorið úr um hvenær halda skyldi næsta mót, en ýmsum þótti full ástæða til að svona skemmtilegar samkomur væru haldnar annað hvert ár eða svo.

Hér er bæklingur um fjölskylduna og framættir hennar sem ég bjó til fyrir mótið. Hann er sniðinn til útprentunar beggja megin á pappírinn í „booklet-formi“ (þ.e. síðurnar raðast þannig að þær lenda á réttum stað ef pappírinn er brotinn saman í miðjunni). Skjalið er nokkuð stórt (um 30 Mb). 

Ég bjó svo til nýtt albúm og stakk inn nokkrum myndum sem ég tók. Ég hef reyndar aldrei gefið mig út fyrir að vera góður myndasmiður, en það sýnist mér hins vegar hann Tryggvi vera, en hans ættarmótsmyndasíða er hér og hvet ég alla til að kíkja á hana. Flottar myndir! 


Myndir úr Reykjaskóla

Ég bjó til nýtt myndaalbúm og setti nokkrar myndir af Reykjaskóla ásamt fáeinum bekkjarmyndum sem ég átti í pússi mínu. Gaman að þessu.

Annars er það að frétta að þátttakendum fjölgar enn ... samkvæmt nýjustu tölum verðum við ein 67 stykki, þannig að ég er bara mjög ánægður með mætinguna. Ekki alveg eins skemmtilegar eru þær fréttir að það mun ekki vera rútufært upp í Ljárskógasel ... þetta er víst bara illfær jeppatroðningur nú til dags. En, við látum ekki hugfallast: það er ýmislegt annað hægt að fara ef stemmning er fyrir því Ég hef nokkrar hugmyndir, en í bili skulum við bara segja að það verði óvissuferð. 


Gamla skólahúsið

Ég verð að játa á mig þá skömm að hafa ekki staðið mig sem skyldi við að setja saman staðarlýsinguna sem ég var búinn að lofa. Auk þess var ég að frétta að gamla íþróttahúsið hafi verið rifið í vetur! (ég vona bara að kartöflukofinn hafi fengið að standa). Enn eru margar merkar byggingar sem ég á eftir að lýsa ... s.s. smíðahúsið, frystigeymslurnar, skúrarnir, nýja skólahúsið sundlaugin, nýja íþróttahúsið, strákavistin og sjálf einkennisbygging Reykjatanga: Gamla skólahúsið. Það er nokkuð ljóst að ég næ ekki að klára þetta fyrir ættarmótið okkar, en ég krota þó allavega í fljótheitum einhverja punkta um Gamla skólahúsið, ekki má sleppa því.

Það fer auðvitað ekki á milli mála að glæsilegasta og myndrænasta byggingin á Reykjatanga er Gamla skólahúsið. Í dag er þetta eiginlega allt annað hús en það var í þá gömlu góðu, því á árunum ’79 til ‘81 voru gerðar á því verulegar breytingar. Allt var brotið og bramlað – fyrir sunnan húsið myndaðist stærðarinnar haugur af veggjarbrotum og rusli og hið myndarlegasta fjall af pússningasandi sem hentaði ákaflega vel í bíló (þó maður þættist nú reyndar vera fullgamall fyrir svoleiðis ef einhver sá til). Helstu breytingarnar voru þær að eldhúsið og matsalurinn voru færð úr kjallaranum upp á miðhæðina, þar sem skólastofurnar voru áður, og búinn var til nýr aðalinngangur sunnan á húsinu. Nú er semsagt gengið beint inn í það sem áður var kjallari. Við þessar breytingar hvarf stiginn sem lá upp á ganginn framan við skólastofurnar (og reyndar bæði gangurinHrutafjordur-croppedn og stofurnar líka),  þannig að myndin hans Bjarts afa míns af Hrútafirðinum sem sjá má hér til hliðar er nú horfin (mér skilst reyndar að hún sé enn til á bak við eitthvert þil). Myndina hans á Efstuvist má reyndar enn sjá þar, en hún er þó orðin nokkuð skemmd. Talandi um Efstuvist, þá var hún tekin í gegn nokkru seinna ... að mig minnir einhverntíma í kring um ´85. Allt var rifið út og vistin endurbyggð svo að segja frá grunni. Sjaldan hef ég upplifað aðra eins rykmengun og það sumar, en maður var hvítur af gips- og sparslryki frá toppi til táar hvern dag í margar vikur. Hinar vistirnar tvær í Gamla skólahúsinu, Sundlaugarvistin og Vesturvist, voru einnig endurbyggðar á svipuðum tíma. Herbergin sem þið gistið í eru því mun betri vistarverur en kompurnar sem þið munið kannski eftir frá því í gamla daga.

Hér í denn bar maður alltaf ákveðna virðingu fyrir þessu volduga húsi sem Gamla skólahúsið er og þótti spennandi að væflast þar um. Eins og vera vill, þá bráir virðinguna fljótt af og þegar komið var á sundnámskeiðaaldurinn var maður farinn að renna sér á handriðunum niður stigagangana. Þegar breytingarnar voru gerðar á skólahúsinu ’79 til ’80 varð mögulegt að renna sér alla leið ofan af Efstuvist og niður í kjallara í einni bunu. Þetta varð augljóslega mikið sport og mannraun hin mesta að reyna þetta án þess að detta af á leiðinni. Handriðið var fremur hátt járnvirki með einhverskonar plastslíðri ofan á. Plastið var býsna hált og gat maður því náð sæmilegum hraða. Einhverra hluta vegna var svo all stæðilegur kinkur á plastslíðrinu á milli inngangsins og fyrstu hæðarinnar og var manni gjarnan óþægur ljár í þúfu. Þurfti ákveðið lag til þess að komast yfir þessa hindrun án þess að skaða æxlunarfærin sem rétt voru tekin að þroskast á þessum árum.

Gamla íþróttahúsið

Þá er ég líklega búinn að trassa það nógu lengi að halda áfram með staðarlýsinguna: 

Ef við fikrum okkur í suðurátt frá Kartöflukofanum rekumst við fyrst á Gamla íþróttahúsið. Reyndar minnir mig að þvottahús hafi staðið þar við endann á einhverjum tímapunkti - gott ef maður átti það ekki til að klifra upp á þak á því - en það má þó vera að mig misminni. Ekki man ég eftir Gamla íþróttahúsinu í notkun sem slíku, enda nýja íþróttahúsið byggt fyrir mína tíð, en hins vegar man ég vel eftir því sem skúr og draslgeymslu. Nyrsti hluti hússins var þá einhverskonar bílskúr, en í restinni af húsinu hafði verið klastrað saman íbúð og var ofan á þeirri hrákasmíð all stórt geymsluloft. Þar uppi kenndi ýmissa grasa og mátti m.a. finna gamlar leikmyndir og búninga sem nemendur höfðu búið til í gegn um árin. Þarna gat verið gaman að gramsa, en maður þurfti að passa sig, því mannvirkið var ekki ýkja traust.

Sumarið ´81, þessa fáeinu daga milli unglingavinnunnar og skólans, fékk ég svo aðstöðu þarna í skúrnum til að menja þakrennur og niðurföll sem setja átti upp á gamla skólahúsinu sem þá var verið að taka í gegn að innan sem utan. Þarna var kjörið að dunda sér við að menja á rignigardögum eða þegar of hvasst var til að ég gæti verið uppi á þaki að bera á kantinn, sem var hitt meginverkefni mitt, því þarna var skjól fyrir rigningunni og bölvuðum næðingnum sem látlaust beljar inn Hrútafjörðinn ... og svo var býsna stutt í kaffi, því það innbyrðum við, ásamt óhemju magni af kleinum og hnallþórum, inni í áðurnefndri hrákasmíð. Ekki man ég hvers vegna ... trúlega hefur matsalurinn bara ekki verið tilbúinn eftir endurbygginguna.

Verandi barnið í hópnum varð ég að sjálfsögðu fyrir barðinu á uppáhaldstómstundargamni allra iðnaðarmanna - senda græningjann eftir uppdiktuðum tækjum og tólum. Smiðir virðast einkar duglegir við að mjólka þennan gamla og úr sér gengna brandara. Það hafa því líklega verið þeir sem reyndu trekk í trekk að senda mig upp á geymsluloftið eftir plankastrekkjurum, stikknöglum, rörapenslum, rósóttri árabátamálningu og öðru ámóta drasli. Það virðist kannski ekki mikil rökvísi í því að ætla þessum þarfaamboðum stað uppi á gömlu og rykföllnu geymslulofti, en þar gekk þeim það til að hér var ekki aðeins verið að senda mig erindisleysu heldur einnig að gera mér þann stórskemmtilega grikk að láta mig húrra niður úr loftinu og beina leið ofan í súpupottinn hjá matseljunni (sem einnig hafði aðstöðu þarna í skríflinu). En, ég sá nú aldeilis við þeim, hafandi margra ára reynslu af þessu ágæta lofti og vitandi full vel hve ótraust það var, hvar mátti stíga niður og hvar ekki. Ég tiplaði því ósmeykur eftir burðarbitunum um loftið þvert og endilangt, kom hróðugur til baka og tilkynnti hátt og snjallt að ég hefði leitað um allt loftið en gæti hvergi fundið þessa fjandans rishallaréttskeið - hún hlyti bara að vera einhversstaðar annarsstaðar. 

Ég minni svo aftur og enn á kladdann. Vel má vera að ég hafi gleymt að færa inn einhverjar upplýsingar í hann, svo það er um að gera að kíkja á hann.  

Svo má geta þess að það eru komnar nokkrar nýjar gamlar myndir í safnið ... fleiri bætast við von bráðar. Njótið vel! 


Júbilering 2007

Vegna mikils fjölda áskorana birtist hér með ræðan sem ég flutti fyrir hönd júbilanta við útskrift ML síðasta laugardag. Reyndar var nokkur hluti ræðunnar spunninn upp á staðnum, en eftirfarandi er nokkuð nærri lagi, að ég held:

Kæru stúdentar,

Fyrir hönd júbilanta vil ég óska ykkur kærlega til hamingju með áfangann ... og skólanum til lukku með þennan föngulega hóp.  

Þegar ég var beðinn um að halda stutta tölu fyrir ykkur var ég fljótur að segja já, enda taldi ég að þar sem ég hef eytt lunganum af þessum tuttugu árum frá minni útskrift innan veggja háskóla, ýmist við nám eða önnur störf, þá hlyti ég að hafa eitthvað fram að færa sem þjónað gæti sem hvatningarorð og móralskur stuðningur fyrir yfirvofandi háskólanám, því ef tölfræðin lýgur ekki, þá munu flest ykkar, ef ekki þið öll, halda áfram innan skamms að feta menntaveginn. Það reyndist svosem rétt ályktað hjá mér, en ég áttaði mig þó fljótt á því að til þess að gera því öllu viðhlýtandi skil þyrfti ég að tala hér í allan dag, og því nenni ég satt að segja ekki. Ég get þó sem snöggvast sagt ykkur að sá undirbúningur sem ég hlaut hér á Laugarvatni mér ómetanlegt vegarnesti fyrir mína löngu háskólaferð. Og, það er ekki bara ég sem hef slíka sögu að segja. Innan þess smáa en knáa hóps kennara sem sinnir kennslu í líftækni við Háskólann á Akureyri eru ekki færri en 4 með stúdentspróf frá ML upp á vasann – um þriðjungur fastráðins kennarliðs í auðlindafræðum. Þetta segir sína sögu um gæði þess undirbúnings sem ML færir sínum nemendum í stúdentsgjöf. Ég er því ekki í nokkrum vafa um að fræðilegan undirbúning undir háskólanám hafið þið fengið góðan og ég býð ykkur hjartanlega velkomin til náms í líftækni við Háskólann á Akureyri (umsóknarfrestur er til 5. júní).

En, nóg um framtíðina. Hún hleypur ekki í burtu frá okkur. Við skulum frekar líta um öxl, og af því ég veit að þið eruð fróðleiksfúst fólk sem unir sér frekar við auðgun andans en froðublástur dægur- og gamanmála, þá ætla ég að lesa fyrir ykkur valda kafla úr merkri og háalvarlegri skýrslu þar sem greint er frá rannsóknum rannsóknateymisins Mímis sem stundaði rannsóknir á velflestum sviðum mannlegrar þekkingar að Laugarvatni veturna 1983-1987.  

Tíminn er naumur, svo við sleppum bara Inngangi og Aðferðum og vindum okkur beina leið í Niðurstöðurnar:

Á sviði eðlisvísinda fóru fram ítarlegar mælingar á hegðun Vimms í andrúmslofti, og var þar einkum hugað að svifgetu, dreifni og sethraða við staðalaðstæður í staðalvistarverum staðalnemanda í staðalástandi. Niðurstöður voru eftir væntingum og krefjast ekki endurtekningar. Jafnframt fóru fram hjóunarfræðilegar tilraunir þar sem mæld voru hornhröðun, fallhraði og öskurstyrkur hjóaðra nemenda við staðlaðar aðstæður, sem og í frávikatilfellum til samanburðar. Ekki fannst tölfræðilega marktæk fylgni milli fallhraða nemenda og líkamsþyngdar og er það í góðu samræmi við brautryðjendarannsóknir Galileos í hjóunarfræðum ... sem skoðast þá hér með staðfestar. 

Á sviði líftækni var unnið ötullega að rannsóknum á framleiðslu líftækniafurða á fljótandi formi með gersveppum af Saccharomyces ættkvísl úr tilfallandi hráefni, svo sem strásykri, mólassa, rúgbrauði og mjólk. Meðal niðurstaðna má nefna að heimtur líftækniafurðanna stóðu í beinu samhengi við hversu vel falið gerjunarílátið var, svo og hve vandlega ilmrænir eiginleikar framleiðslunnar voru skermdir með angan af kæstum sokkum og undirfatnaði.

Líftæknirannsóknirnar voru einnig samþættar við geðjunarrannsóknir, svo og, af stakri fórnfýsi, rannsóknir á lífeðlisfræðilegum áhrifum neyslu afurðanna á þætti á borð við námsgetu og félagslega færni neytenda. Þrátt fyrir fádæma elju rannsóknateymisins tókst ekki að kryfja þessi atriði til mergjar með fullnægjandi hætti, en áhugasömum má benda á að nám og rannsóknir í líftækni fara nú fram af fullum þunga við þá menntastofnun háskólastigsins sem ágætust er hér á landi, Háskólann á Akureyri (umsóknarfrestur er til 5. júní).   

Rannsóknir á líkamsbyggingu nemenda voru stundaðar af kappi, og var þar einkum hugað að rúmmáli nafla, sem og að fótafýsíógnómíu, einkum hvað varðar formfegurð táa. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir og gott bókhald mælingarniðurstaðna reyndist ekki unnt að draga tölfræðilega marktækar ályktanir af niðurstöðunum og mælir rannsóknateymið Mímir því með áframhaldandi rannsóknum á þessu sviði.

Á sviði hugvísinda var kastað fram fyrriparti og beðið botna. Enn er beðið. 

Á sviði viðskipta- og hagfræða voru áhrif tappagjalds á verðmætasköpun í sjálfstæðum atvinnurekstri bíleigandi nemenda metin. Í ljós kom að þó áhrif gjaldsins á vísitölu framfærslukostnaðar hins almenna nemanda væru veruleg reyndist fælingarmáttur gjaldsins óverulegur og áhrif á verðmætasköpun voru því jákvæð.

Á sviði matvæla- og næringarfræða eru þær niðurstöður helstar að mæjónes er, þrátt fyrir allt, ekki gott með hverju sem er. Ennfremur leiddu rannsóknir teymisins í ljós að hnullungar kálfa drullu eru og verða bölvað eiturbras. 

Unnið var að rannsóknum á sviði stjórnmálafræða af fádæma elju. Einkum var beitt rökræðu- og argaþrassaðferðum og voru þær niðurstöður helstar að Bolsévisminn blífur og er raunar aðeins tímaspursmál hvenær fullnaðarsigur næst í byltingunni gegn kapítalísku aurasálunum  ... lengi lifi félagi Andrópoff!

Þá látum við þetta gott heita úr þessari skýrslu, en hún mun birtast innan skamms, eða um líkt leyti og alisvínin taka flugið.

Megi ykkur farnast vel. Lifið heil.


Kartöflukofinn og lækurinn

2002_Reykjaskóli_004

Eins og glöggir hafa tekið eftir, þá hafa bæst fáeinar myndir í albúmið. Þessar komu frá Ingu og eru teknar í Ráðleysu. Gaman að þessu.

Á dögunum lofaði ég því að ég myndi setja hér inn einhverja pistla um Reykjaskóla, svona úr því við ætlum að hittast þar. Reykjaskóli hefur skipað all stóran sess í mínu lífi – reyndar væri varla ofsagt að kalla hann einn af tiltölulega fáum föstum punktum lífs míns. Eins og gildir um flest okkar, þá átti ég þar margar góðar stundir á meðan amma og afi bjuggu þar enn, en eftir að þau fluttu suður var þó mínum tengslum við staðinn engan veginn lokið, því pabbi var af og til að mála þar á sumrin og var ég þá gjarnan að sniglast í kringum hann á milli þess sem ég sótti sundnámskeið hjá Höskuldi Goða, sællar minningar. Mína allra fyrstu alvöru vinnu stundaði ég svo að sjálfsögðu á Reykjaskóla síðsumars 1981, eftir að unglingavinnunni á Hvammstanga lauk, en þá var verið að leggja lokahönd á breytingarnar miklu á Gamla skólahúsinu og fékk ég að menja þakrennur, mála þakkannta, grindverk og sitthvað fleira. Þau voru ófá, sumrin á 9. áratuginum sem ég fékkst við málningarvinnu í hinum ýmsustu byggingum skólans og telst mér til að það láti nærri að einu húsin á Reykjatanga í hverjum ég hef aldrei lyft pensli séu Byggðasafnið, Sæberg og Kartöflukofinn. Veturinn ´82-´83 var ég nemandi í 9. bekk (sem nú heitir 10. bekkur) á Reykjaskóla. Það er svo einstaklega viðeigandi að eftir að ég fluttist aftur til Íslands 2004 var það mitt fyrsta verk, á meðan ég beið í óþreyju eftir að fá að vita hvort ég fengi starfið mitt á Akureyri eða ekki, að mála að utan gluggana á Gamla skólahúsinu á Reykjaskóla. Að lokum má svo geta frábærs fjölskyldumót Stínu ömmu minnar og hennar niðja það sama sumar, en það var mikið skrall og skemmtilegt.
<!--[if !supportLineBreakNewLine]-->
<!--[endif]-->

Það má því nærri geta að mér þykir nokkuð annt um staðinn og þykist geta dregið fáeinar minningar honum tengdar upp úr götóttum hausnum – að minnsta kosti þegar vel árar. Ég hef því hugsað mér að stinga hér inn á síðuna fáeinum pistlum um helstu kennileyti Reykjatanga. Minni mitt er reyndar löngu úr sér gengið af gegndarlausri ofnotkun og ofskólun, svo ég skammast mín bara ekkert þó eitthvað slæðist inn af villum og rangfærslum. Hér kemur þá fyrsti pistillinn og var ég að hugsa um að byrja þessa yfirferð á Kartöflukofanum, þeirri stórmerku byggingu:

Í mínum huga er og verður Kartöflukofinn hennar ömmu einhver merkasta byggingin á Reykjatanga. Hann lætur lítið yfir sér, blessaður. Bara svona lítill hóll með dvergadyrum í og er ég ekki frá því að hann hafi skroppið all mikið saman frá því í denn. En, þegar maður var fjögurra ára var hann hinn dægilegasti ævintýrakastali. Þarna mátti hæglega sjá fyrir sér að álfakóngur og -drottning ættu sér höll hvaðan þau stjórnuðu ríki sínu af hinum mesta myndugskap. Eða, ef sá gállinn var á manni, var kofinn hið myndarlegasta fjall sem beið þess að verða klifið af hugumprúðum könnuði, nú eða þá rennibraut sem skilað gat þessari líka eðal-grasgrænku á bossann, skelfileg draugakompa og ... jú, kartöflugeymsla sosum líka.

Þarna átti ég margar góðar stundir. Lengi vel var ég reyndar dál´tið smeykur að fara inn í hann – þar var dimmt og skrýtin lykt. En, eins og með svo margt annað sem maður hræðist, þá var óttinn blandinn óstjórnlegri forvitni og ævintýraþrá. Að utanverðu var Kartöflukofinn einnig afar áhugaverður. Það var endalaust hægt að hlaupa upp á mæni og rúlla sér niður aftur – og ekki spillti ef maður hafði lítinn frænda til að hnoðast með í leiðinni.

Einnig er það meðal sérstakra landkosta Kartöflukofans að hann er býsna nálægt læknum. Þaðan er því stutt að fara og sulla aðeins á milli bylta og annarra ævintýra, en lækurinn var einstaklega vel sullhæfur á þeim árum sem hér um ræðir, og helgaðist það einkum af tvennu: hann var alveg passlega volgur þarna í nánd við Kartöflukofann (en full heitur ofar og farinn að verða pínu svalur neðan við Sæbergsveginn), og svo hinu að í lækjarbotninum var þetta líka herlegasta slím og allnokkuð af leir líka. Slímið gerði það að verkum að lækjarbotninn var nokkuð háll, en það, ásamt leirnum, varð þess valdandi að sullið vildi verða nokkuð svona sjabbí á tíðum. Rétt neðan við Kartöflukofann rann lækurinn í gegn um ræsi sem var svo haganlega gert að fjögurra ára snáðar áttu tiltölulega hægt með að vaða þar inn og jafnvel alveg í gegn um veginn, en þrautin að komast út hinum megin var heldur þyngri, því þar féll lækurinn út í litlum fossi oní dálítinn hyl. En þetta var verðug þraut, þó svo sumum frændum manns hafi þótt þetta brambolt full glannalegt. Einnig voru bakkarnir brattir í þessum hluta lækjarins, svo maður varð eiginlega að vaða nokkurn spotta þar til maður komst með góðu móti uppúr aftur. Það var segin saga að þá væri löngu flotið ofaní stígvélin.


Pull the other one ...

Svo maður slái nú um sig með útlendum orðatiltækjum: „tosaðu bara í hinn fótinn líka, góurinn“. Hvernig dettur háttvirtum nefndarmönnum í hug að heilvita fólk trúi því að þeim hafi verið „ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans“? Maður sér það bara alveg fyrir sér: „Já, og svo höfum við hér umsókn frá Manneskju X til heimilis að Götu Y númer A. Jáneisko ... hún á bara heima í sama húsi og hæstvirtur ráðherra. Þvílík tilviljun! Skyldu þær nokkuð þekkjast, haldiði?“

Annars óska ég auðvitað konugarminum bara alls hins besta og til lukku með nýja ríkisfangið. Bara verst að hún mun að líkindum kjósa Framsókn. Mín vegna mætti gjarnan losa aðeins um þetta ferli, frekar en að herða það eins og virðist reyndar vera tískuálitið í augnablikinu. Anett velti því einmitt fyrir sér hvort hún ætti að sækja um íslenskt ríkisfang fyrir kosningarnar, en ákvað að sleppa því.  Þann 5. maí hefur hún verið búsett hér á landi í þrjú ár og þar sem við erum gift, þá ætti það að sleppa samkvæmt reglunum (hvað sem þessu sjö ára tali í fréttunum líður). Hins vegar þarf hún að sækja um undanþágu til Þýskalands til að mega vera með tvöfalt ríkisfang (sem má semsagt ekki samkvæmt þýskum reglum) og við þekkjum af biturri reynslu hve skilvirkir þýsu bjúrókratarnir eru ... svo Anett ætlar bara að sleppa því að kjósa í þetta sinnið.

Annars hef ég sosum ekkert að segja frekar en venjulega ... langaði bara að prófa þetta Moggafréttablogg til að vera eins og allir hinir - ég er jú alltaf svo upptekinn af því að falla í hópinn :o)


mbl.is Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ættarmótssíða

Búin hefur verið til ný síða hér þar sem hugmyndin er að fréttir og spjall um væntanlegt ættarmót verði aðgengileg á einum stað.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband