Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Helstu upplýsingar

Það kunngjörist hérmeð og staðfestist að niðjamót þeirra heiðurshjóna Laugu Stefánsdóttur og Ragnars Þorsteinssonar verður haldið að Reykjaskóla í Hrútafirði helgina 27. til 29. júlí næstkomandi. Það þarf vart að taka það fram að hér er um sérstakt einvalalið ljúflinga, listamanna og látúnsbarka að ræða, og er því ljóst að hér er mannfagnaður sem enginn sómakær afkomandi Ragnars & Laugu má fyrir nokkurn mun missa af. Takið því endilega helgina frá og hefjið söng- og málbeinsliðkunaræfingar hið fyrsta.

Vart þarf heldur að fjölyrða um ágæti staðarins, en eins og við öll vitum er Reykjaskóli Paradís á jörðu með sundlaug, gufu, íþróttasal, íþróttavelli, heimavistum, tjaldstæði og frábærum mat, svo nefndir séu fáeinir landkostir og standa þeir gestum til boða – margir ókeypis en aðrir gegn hóflegu gjaldi, svo sem hér má sjá (börn 6-12 ára greiða hálft gjald, fyrir 5 ára og yngri er frítt):

  • Gisting í 2ja manna herbergi: 2.500 kr. á mann á nótt. Gestir eru vinsamlegast beðnir um að koma með eigin rúmfatnað.
  • Gisting á tjaldstæði (í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl): 500 kr. á mann á nótt.
  • Aðgangur að sundlaug, gufu og heitum pottum: 0 kr.
  • Morgunverður fyrir þá sem þess óska: 850 kr.
  • Hátíðarkvöldverður laugardagskvöldið 28. júlí: 3.200 kr. á mann. Vínveitingar verða á staðnum.


Dagskrá mótsins hefur ekki verið skipulögð út í hörgul enn sem komið er og reyndar óvíst hvort nefndinni muni þykja nokkur gustuk af því að njörva fólk niður í prógramm. Það eru því allar líkur á að dagskráin verði fremur laus í reipunum. Hér er þó tillaga:

  • Mæting er á föstudagseftirmiðdegi og er þá óvitlaust að líta í setustofuna í gömlu skólabyggingunni, en hugsanlegt er að þar megi þá finna einhvur ættmenni sitjandi að skrafi (og jafnvel vægu sumbli) eitthvað frameftir kvöldi.
  • Á laugardeginum er lagt til að farin verði rútu-, göngu- og grillferð upp í Ljárskógasel. Þar verða uppeldisstöðvar Ragnars skoðaðar, maulað á grilluðum pulsum, og svo haldið aftur til baka til Reykjaskóla. Gera má ráð fyrir að þetta verði hálfsdagsferð og muni kosta fáeinar spesíur, svona til að kovvera rútuna, pulsurnar, remúlaðið og gosið.
  • Um laugardagskvöldið er boðið upp á hátíðarkvöldverð í matsalnum í gömlu skólabyggingunni. Vínveitingar verða á staðnum. Að kvöldverði loknum er óvitlaust að safnast saman í íþróttahúsinu, taka nokkur létt lög og jafnvel slá upp balli.
  • Á sunnudagsmorgni mætti t.d. fara í leiki á íþróttavellinum áður en við kveðjumst og höldum hver í sína átt.

Svo þetta gangi nú allt létt og lipurlega fyrir sig, þá þætti mér vænt um að þið létuð mig vita eins fljótt og kostur er hvort þið mætið og hversu mörg, hvernig gistingu þið kjósið, o.s.fr.v. Það má gjarnan senda mér þessar upplýsingar í tölvupósti í póstfang oddurv@unak.is eða oddurvilhelms@simnet.is, en einnig er velkomið að hafa samband við mig símleiðis: 462 2215, 697 4252 eða 460 8503.


Ammæli

Þá er Snæbjörn orðinn ársgamall og búið að halda uppá það svo um munar, en Það dugðu auðvitað ekki færri en tvær helgar undir svona merkisafmæli. Um síðustu helgi komu afinn og amman ásamt Lilju í heimsókn og fögnuðu áfanganum með okkur. Það var nú býsna gaman og Snæbjörn var gersamlega úrvinda eftir alla athyglina. Svo sporðrenndum við náttúrlega nokkrum kökusneiðum á sjálfan ammælisdaginn. Að lokum var svo bundinn endi á hátíðarnar með heljarinnar knalli í gær. Anett bakaði þessi líka lifandis ósköp af kökum og tertum (og ég laumaði inn einni brauðtertu líka, svona til að vera með) og við skreyttum allt húsið með blöðrum. Það kom svo slatti af börnum: vinir Snæbjörns úr útlendingamömmuhópnum, Kieron, Linda og Emma (Sía og Eric voru lasin og komust því ekki) mættu, svo var þarna pínulítil dama sem ég held að heiti Elín - nýr meðlimur í hópnum. Og svo mættu skriðdrekarnir úr næsta húsi, Breki og Trausti, og sáu til þess að fagnaðurinn færi nú örugglega fram með hæfilegum skammti af ærslum og óhljóðum. Þessu liði fylgdi svo einhver slæðingur af fullorðnu fólki líka. Mér sýnist þó að við munum lifa á kökum næstu dagana ... en okkur Snæbirni leiðist það nú ekki! Maður var auðvitað búinn að ætla sér að mynda gleðskapinn í bak og fyrir, en svo mikið var fjörið að það gafst eiginlega enginn tími til þess. Þó náðust fáeinar myndir, sumar þeirra svona skítsæmilegar og skelli ég þeim hérmeð í myndaalbúmið.  

Í öllum hamaganginum yfir afmæli Snæbjörns má segja að afmæli Anettar hafi nánast gleymst ... og var það þó svona „hálfmerkisafmæli“. Meira að segja gleymdi ég að skrifa kort til hennar (en mundi þó eftir gjöfinni ... svo ég er ekki alslæmur). Það er þó ekki hægt að segja annað en hún hafi skemmt sér hið besta síðustu vikuna.

Ætli ég láti þetta þá ekki duga í bili. 


stéttin lögð

dsc02325.jpg

Enn er komin helgi og áfram er haldið við húsbyggingar þó svo kominn sé vetur - a.m.k. er farið að snjóa niður í miðjar hlíðar á hverri nóttu og það er ansi napurt, en þó stillt og gott veður. En, sumsé, við erum tekin til við að leggja steinana og verð ég að segja að þetta er nú bara hreint ekki eins erfitt og leiðinlegt og fólk segir. Mér finnst þetta bara hið skemmtilegasta púsl ... ennþá, allavegana. Þetta er þó óumdeilanlega mikil vinna og ólíklegt að okkur takist að klára þetta í haust. Að vísu hef ég ekki mjög mikið fengið að koma nálægt þessu, því Anett nýtur sín framí fingurgóma við stéttarlögnina og Snæbjörn hefur nú ekki slíka þolinmæði að báðum foreldrum líðist að dunda sér við þetta í einu.

Ég ætlaði náttúrlega að skrifa miklu meira, en nú er Snæbjörn vaknaður og heimtar athygli. Ojæja ... knnski tekst mér að gera eitthvað af viti við þessa bloggsíðu einhverntíma seinna. 


hitt og þetta

Þá er undirbúningsnefndin fyrir ættarmótið fullskipuð. Ég hringdi semsagt í Laugu frænku og hún veitti bara merkilega litla mótspyrnu ... svo við þrjú munum væntanlega hittast næst þegar ég á leið þarna suðurfyrir og plotta eitthvað. Ég heyri þó ekki annað en allir séu ánægðir með helgina 27.-29. júlí, svo ég held ég staðfesti það bara.

Annars var ég bara heimavið í mestu makindum í gær. Snæbjörn var að ná sér eftir herpesinn og okkur þótti réttast að láta hann vera heima einn dag. Hann er núna farinn aftur til dagmömmunnar með stokkbólgna vör, en þó öllu hressari. Annars var hann býsna hress í gær og við feðgar nutum góða veðursins til hins ítrasta ... fengum okkur góðan göngutúr um bæinn og splæstum í vöfflur með rjóma og kókómjólk. Mér sýnist að litli maðurinn ætli ekki að verða neinn ættleri hvað rjómafíkn og kókómjólkurlosta varðar.

Það er einnig gaman að segja frá því að Anett er í góðum gír í vinnunni og finnst manni nú sem ÍSOR sé loksins að meta hana að verðleikum og leyfa henni að sýna hverju 7-ára starfsreynsla sem sérfræðingur hjá alþjóðlegu olíufyrirtæki getur skilað. Mér fannst alltaf mjög skrítið hvað henni virtist tekið af miklu fálæti í byrjun, hafandi alla þessa (að maður skyldi halda) verðmætu reynslu ... en kannski var það nú bara þetta íslenska skipulagsleysi og óframfærni sem skapaði það andrúmsloft. Allavega er hún mjög ánægð núna og stolt af því sem hún er að gera og er það vel.

Fleira er það þá ekki í bili. 


ættarmót yfirvofandi

Enn er Snæbjörn kominn með einhverja sýkingu ... þetta er nú meira pestrbælið hjá þessari dagmömmu. Í þetta sinn er hann með einhverskonar veirusýkingu í munninum - líkast til herpes eða eitthvað slíkt. Hann er sosum ekki mjög veikur, en mjög aumur í munninum og þarafleiðandi sípirraður.

Annars gengur lífið bara sinn vanagang. Við drifum okkur að heimsækja Tana gamla um daginn. Það var nú bara gaman. Alltaf jafn eiturhress, kallinn, og þau hjón talandi hvort uppí annað sleitulaust. En ég dáist mjög að því hvað hún Anett er dugleg að halda svona sambandi við fólk - sjálfur er ég kolónýtur í slíku, en hef þó gaman af þegar Anett dregur mig, nauðugan viljugan, til að umgangast fólk. Það er því kannski ákveðin íronía fólgin í því að ég skuli hafi fundið það upp hjá mér (að mestu af sjálfsdáðum) að taka að mér, ásamt Ödda frænda mínum og vonandi einhvejum fleirum, að skipuleggja ættarmót. Þetta er að vísu bara svona mini-ættarmót, varla mjög mikið yfir 100 manns, en fjöldasamkoma engu að síður sem stendur til að halda seinnipart júlí næsta ár á Reykjaskóla. Þetta er sumsé móðurslektið mitt - afkomendur afa og ömmu, sem orðin eru glettilega mörg. Líklega eins gott að segi Stínu ömmu ekki hversu mörg þau eru - hætt er við að það myndi eitthvað koma við keppnisskapið í henni að komast að því að afkomendur Laugu ömmu og Ragnars afa eru töluvert fleiri en hennar. Úrþví ég minnist á þetta er trúlega ekki úr vegi að ég búi til nýtt myndaalbúm og slengi inn nokkrum fjölskyldumyndum.

Annars hefur ósköp lítið gerst hér hjá okkur. Úti á plani eru hellusteinarnir okkar enn í snyrtilegum stöflum. Við höfum ekkert komist í að spreyta okkur á að leggja þá vegna anna í vinnunni og veikinda Snæbjörns. Að vísu var Anett eitthvað að snudda þarna úti eitt kvöldið um daginn og komst að því að okkur vantar meiri sand áður en við getum farið að leggja þetta. Það væri náttúrlega gott að koma þeim niður fyrir veturinn, en kannski gerir ekkert til þó þetta bíði til vors.

Fleiri eru tíðindin ekki að þessu sinni. 


dsc02312.jpg

veikindi og vísindi, trúmál og tungumál

Jæja, þá erum við Anett komin í hóp þeirra foreldra sem geta hallað sér aftur og kinkað gáfulega kolli þegar talið berst að barnaveikindum og andvökunóttum þeirra vegna. Snæbjörn hefur að vísu veikst áður, og er þar skemst að minnast berkjubólgunnar illvígu sem hann fékk í vor, en aldrei hefur hann verið svona veikur áður. 40 stiga hiti nótt eftir nótt - svo mikill hiti að strákgreyið fékk krampakippi hvað eftir annað í fyrrinótt - og þessi líflegi litli karl er eins og umskiptingur, orðinn sljór og daufur í dálkinn - svona hálfkjökrandi flestum stundum. Það er ámátlegt að horfa uppá þetta og skelfilega pirrandi að geta ekkert gert til að láta honum líða betur. Mér finnst þó að hann sé að byrja að braggast. Hann var farinn að líkjast sjálfum sér í morgun og sefur nú lengri lúra.

Annars ætlaði ég mér eiginlega að blogga til að dreifa huganum - hugsa um eitthvað annað í smástund á meðan Snæbjörn sefur. Nú fer misserið að byrja hér hjá okkur (er reyndar byrjað formlega þó mín kennsla byrji ekki fyrr en á miðvikudag) og þar sem fyrstu fyrirlestrarnir í Líffræðinni eru um sögu lífvísindanna, þá leitar hugurinn óneitanlega til þessa merkilega fyrirbæris sem hugmyndasagan er. Hvernig margar góðar hugmyndir falla í gleymskunnar dá um aldir áður en þær eru uppvaktar í nýjum búningi á nýjum forsendum og hvernig aðrar góðar hugmyndir eru skrumskældar og misnotaðar af óprúttnum pólitíkusum og trúarleiðtogum. Ég á erfitt með að fyllast ekki réttlátri reiði þegar ég segi frá afbökun heilags Tómasar frá Akvínó á náttúrufræði Aristótelesar - afbökun sem vafalítið hefti framþróun lífvísindanna um aldaraðir og gerir að sumu leyti enn. Eða þá grófa misnotkun nasistanna á þróunarkenningu Darwins til „mannræktar“. Ástandið virðist síst hafa batnað. Það er áhyggjuefni hvernig útúrsnúningur á rannsóknaniðurstöðum og fræðilegum vangaveltum ríður húsum í fjölmiðlum þessa dagana. Í dag virðist eingöngu hægt að ræða málin í kjarnyrtum, tilvitnunarvænum setningum og slagorðum. Sjaldnast er kafað ofaní málin og þau skoðuð hlutlægt og í smáatriðum. Er þá sama hvort menn eru með eða á móti Kárahnjúkavirkjun - báðir aðilar eru jafn sekir um útúrsnúninga, valháða meðtöku á rannsóknaniðurstöðum og stundum hreinar og beinar rangfærslur. Í báðum herbúðum er völdum sérfræðingum flaggað í topp þar sem þeir hanga eins og hræ í gálga á meðan pólitíkusarnir velja hagstæðar setningar úr skýrslum þeirra til kasta hver í annan. Manni verður hálf bumbult af að horfa uppá þetta. Sama er auðvitað uppi á teningnum varðandi loftslagshlýnun og fleiri málefni.

Og nú virðast trúarleiðtogarnir vera að færa sig upp á skaftið líka ... eins og það hafi nú verið þörf á því. Í sumar var haldin trúleysisráðstefna í Reykjavík. Mig langaði mikið til að fara á hana, enda hef ég bæði lesið og hlustað á Richard Dawkins áður og þykir mikið til hans málflutnings koma, þó hann sé nú kannski full herskár í máli fyrir minn smekk. En það kosta bæði hönd og fót, svo maður sletti nú aðeins, að fá að sitja þessa ágætu ráðstefnu, svo ég tímdi ekki að fara. Í ljósi allrar þeirrar umræðu sem verið hefur síðan, þá sé ég nú soldið eftir því að hafa heima setið, því Dawkins virðist hafa náð að stuða fólk nokkuð vel. Þannig falla biskup og prestar nú hver um annan þveran við að skrifa um ágæti trúar sinnar í blöðin. Það er svosem allt í lagi, en pirrandi að þeir þurfa endilega að blanda vísindum í málið - fara háðuglegum orðum um „vísindahyggju“ og fleira í þeim dúr og hefur jafnvel borið á því að upp sé dreginn gamli fjandskapurinn við þróunarkenningu Darwins. Ég fæ því ekki betur séð en draugur heilags Tómasar hafi verið vakinn upp á ný. Hann hefði nú alveg mátt liggja, að mínu mati, enda þessi tugga orðin all vel jöpluð. Ég er svona að bræða það með mér að fara að skipta mér af þessu rifrildi á síðum blaðanna, en þó er varla að ég nenni því.

En, talandi um trúmál, þá má ég til eð að koma því að hvað ég er gapandi hissa á því hversu gegnsýrt allt okkar líf og menning hér á Íslandi er af blessaðri Þjóðkirkjunni og þeirra eilífa Jesújarmi. Eftir að hafa búið erlendis svona lengi, þá einhverveginn tekur maður miklu meira eftir þessu en áður. Sjálft tungumálið okkar er gegnsýrt af þessari óværu. Þannig hnaut ég um frétt í útvarpinu um daginn þar sem eitthvað var verið að tala um ófriðinn í Írak og þannig komist að orði að allir kirkjugarðarnir í Írak væru að verða fullir af ... einhverju, man ekki hverju. Skyldu vera margir kirkjugarðar í Írak? Ég veit það svosem ekki, en mig grunar að átt hafi verið við þá staði þar sem heimamenn grafa líkin, óháð því hvort kirkja kemur þar við sögu eða ekki. Ég fór því að velta fyrir mér hvort það væri virkilega ekki til í íslensku annað orð en kirkjugarður yfir þessháttar stað? Grafreitur finnst mér einhvernveginn vera annað og þrengra orð, en orðabók Menningarsjóðs gefur ekkert betra. Mér finnst það eiginlega óttalegur dónaskapur við múslima að kalla þeirra grafreiti kirkjugarða. Ég verð nú bara að segja eins og Mikki refur að Einar Ben var rugludallur. Það er barasta tómt kjaftæði og vitleysa að á íslensku sé til orð yfir allt það sem hugsað er á jörðu. Annað þessu skylt sem pirrar mig stundum: af hverju er ekki hægt að segja eitthvað annað en gvöðhjálpiðér þegar maður hnerrar? Mér finnst það bölvuð hræsni af mér að biðja einhvern um hjálp sem ég þykist vita að sé ekki til, enda er ég farinn að grípa til þýskunnar þegar Snæbjörn litli hnerrar. Gesundheit finnst mér miklu vinalegri kveðja, auk þess sem hún fer betur í munni.

 


Um blogg og börn

Þetta bloggdæmi er nú bara hreint ekki svo vitlaust, held ég. Maður getur gasprað hér um hvaðeina sem manni dettur í hug, eða ekki neitt ef því er að skipta. Fólk ræður því svo náttúrlega, hvort það nennir að lesa bullið í manni. En, mér var þó bent á það í gærkvöldi, að maður verður auðvitað að haga orðum sínum eins og maður sé staddur í siðaðra manna hópi - og raunar betur, því ekki gefst manni færi á að leiðrétta misskilning jafnóðum og hann kemur upp. Það var auðvitað hún Anett mín, sem alltaf er svo vel tjúnuð inn á tilfinningar annarra, sem benti mér á þetta. Þannig varð mér á í síðustu færslu að fara léttúðugum orðum um beturvitandi mæður og þeirra heillaráð. Það er rétt að ég rjúki nú til og taki skýrt fram að þar var ég ekki að hugsa um neina tiltekna mömmu, heldur bara þetta þokukennda safn ráðlegginga sem við höfum fengið frá öðrum nýbökuðum foreldrum, og því skyldi engin taka þetta sem neina sneið til sín (ekki það að ég viti til að nein hafi gert það, en allur er varinn góður). Enda þiggjum við svosem öll ráð með þökkum, þó svo ekki reynist þau öll jafn gagnleg. Hann Snæbjörn er nefnilega sterkur og ákveðinn strákur sem lætur ekki gabba sig svo auðveldlega. Það er því ekki alveg laust við að maður sé hræddur um að hann verði ansi frekur þegar hann verður stærri. Ég er þó ekki viss um að svo sé, því hann virðist taka fortölum (að jafn takmörkuðu leyti og það er nú hægt að tala um fyrir 10 mánaða gömlu barni) - a.m.k. studum. 


Kæfisvefn

ResMed S8 græja

Jæja, þá er maður kominn aftur úr Reykjavíkinni, einu stykki öndunargræju ríkari. Hún er heldur penni og nettari þessi heldur en sú sem ég var með í síðustu viku, en eftir sem áður þarf ég að sofa með þessa líka heljarinnar grímu á andlitinu sem tengd er við barka sem alltaf þvælist fyrir í hvert sinn sem maður byltir sér. Það er því ljóst að ég get gleymt næturleikfiminni. Þetta er semsagt svona CPAP græja („continuous positive airway pressure“ græja), nánar tiltekið ResMed S8, sem áhugasamir geta lesið um á http://www.advanscpap.com/. Ég sting hér inn mynd af henni, svona til að læra betur á þetta blogg umhverfi ... alltaf gaman að fikta.

Annars verð ég að játa að mér finnst fjandi erfitt að sofa með þetta. Ég er sívaknandi, ýmist af því barkinn þvælist fyrir mér eða að ég er orðinn svo skraufaþurr í hálsinum að mér finnst kokið vera betrekað með sandpappír nr. 100. Svo dreymir mann stöðugt hríðarbyli og mannskaðaveður útaf eilífum hvininum í tækinu, sem minnir óþægilega á páskahret á glugga. Mér skilst þó að maður eigi að venjast þessu á nokkrum vikum og verði þá frískari en nokkru sinni fyrr. Ég vona að rétt sé og hlakkar þá mikið til, því kæfisvefninn („obstructive sleep apnea“, sem t.d. má lesa um á vef frá Stanford háskóla) er frekar hvimleiður. Bæði er það að ég er oft það þreyttur að ég á erfitt með að einbeita mér í vinnunni og svo ekki síður hitt að hroturnar í mér halda Anett vakandi og ekki er nú á það bætandi, því hún er vakandi heilu og hálfu næturnar yfir honum Snæbirni litla sem enn er vaknandi á þetta tveggja tíma fresti eða svo, hvað sem öllum ráðum sjálfshjálparbóka og beturvitandi mæðra líður. Það má því með sanni segja fjölskyldan sé hrjáð orðin af svefnleysi og öllum mögulegum úrbótum tekið fegins hendi.

 


Myndaalbúm

Ég fann mér smá tíma til að fikta aðeins meira og ákvað að setja upp myndaalbúm. Ég byrja að sjálfsögðu á frumburðinum og æðstaráði heimilsins, honum Snæbirni Rolf. Drengurinn ætlar að verða hinn fótógenískasti. Hann er farinn að þekkja myndavélina og glennir sig óspart framaní hana. Að þessu leyti minnir hann mig mjög á Villa bróður sem var hreinasti myndavélasegull á þessum aldri.

Talandi um Villa, þá er hann nú fluttur til ríkis hennar mæjesteðs, Margrétar frænku minnar Þórhildar, og farinn að lesa fróðleikslistir einhverjar við Hafnarháskóla, rétt eins og velflest mektarmenni Íslandssögunnar. Ég efa ekki að hann muni standa sig vel í því eins og hann á vanda til - slíkur afburða námsmaður sem hann er.


Mitt fyrsta blogg

Nújæjaþá ... ætli maður prófi þá ekki þetta blogg, svona til að vera
eins og allir hinir. Ekki það að ég hafi frá neinu að segja. Svona
þannig. Auðvitað er þó alltaf eitthvað að gerast sem maður getur látið
móðann mása um. Hmmm ... er það annars „móðann“ eða „móðan“? Er það
einhver móði sem á að mása eða erum við að tala um svona móðan másara.
Eða þannig. Annars er sú staðreynd að ég skuli hnjóta um svona
grundvallaratriði íslensks máls strax á þriðju línu fyrsta bloggsins
míns einmitt helsta ástæða þess að ég stofnaði þetta blogg. Mér finnst
einhvernvegin að ég sé kominn úr allri æfingu með að tjá mig í rituðu
máli. Sem er skrítið, því ég er jú sískrifandi í vinnunni ... en það er
náttúrlega öðruvísi ... ekki svona „venjulegt mannamál“. Mér sárnar
þetta soldið, því ég átti mjög auðvelt með að skrifa hér í „denn“ og
hafði gaman af því. Kannski bloggið sé einmitt vetvangurinn til að
liðka málbeinið á og rækta með sér sómasamlega tjáningarfærni.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband