Færsluflokkur: Menntun og skóli

Vettvangskúrs í örveruvistfræði o.fl.

Við í Háskólanum á Akureyri og Háskólanum í Reading erum í óða önn að hamra saman spennandi vettvangsnámskeiði í örveruvistfræði Norðurslóða sem boðið verður upp á í fyrsta sinn sumarið 2012. Af þessu tilefni komu þeir Rob Jackson, Ben Neuman og Glyn Barrett í heimsókn. Við slógum því upp ráðstefnu, skruppum í litla vettvangsferð og skipulögðum framtíðina. Frábært, alveg hreint.

Hilda Jana hjá N4 tók við mig viðtal í tilefni alls þessa og má sjá það hér:

(ef myndbandið ræsist ekki má reyna hér: http://www.n4.is/tube/file/view/1635/).

 


Til hvers er háskólamenntun?

academia.jpg

Á þeim niðurskurðartímum sem við lifum nú og hrærumst í er eðlilegt, raunar nauðsynlegt, að spurt sé áleitinna spurninga um gagnsemi og gæði þeirrar þjónustu sem skattfé borgaranna er varið í. Menntun er líklega af flestum talin einn af hornsteinum nútíma samfélags. Það hlýtur því að vera forgangsatriði að hún skili því sem henni ber, að skattgreiðendur hljóti svo góða menntun sem kostur er fyrir þá fjármuni sem til hennar er varið. En hvað er góð menntun? Er til eitthvað sem heitir slæm menntun? Hvað á menntaður maður að kunna? Hvað á hann að geta? Við þessum spurningum eiga menntunarfræðingar eflaust svör, eða það skyldi maður að minnsta kosti vona, en það eiga allir rétt á að velta þeim fyrir sér og því langar mig til að setja fram nokkra naflaskoðunarpunkta um þetta efni. Hér kemur fyrsti pistillinn. Ég sé svo til hvort ég nenni að skrifa fleiri.

Fyrir þetta einni öld eða svo vissu allir hvað það var að vera menntaður. Lærður maður var vel heima í klassískum fræðum, kunni skil á helstu stefnum og straumum í heimspeki, hugmyndasögu og listum, var ritfær og vel máli farinn en var þó vís til að slá um sig með torskildum latínufrösum og tilvitnunum í Shakespeare, Goethe eða Jónas Halgrímsson. Til viðbótar hafði hann svo afburða þekkingu á kjörsviði sínu, hvort sem það var nú guðfræði, lög eða náttúruvísindi, og skyldi engum dirfast að draga yfirburði hans á því sviði í efa, enda var hann þrautæfður í rökfræði og þrætubókarlist.

Í dag er öldin nokkuð önnur. Sérfræðingar nútímans, og ég undanskil sjálfan mig ekki hvað þetta varðar, eru oftar en ekki hálfvankaðir nördar fastir í hugarheimi eigin kjörsviðs, þekkja hvorki haus né sporð á helstu verkum menningarsögunnar og geta ekki tjáð sig nema í flaumósa biðu fræðiorða sem enginn utan fámenns hóps sérfræðinga skilur. Maður vonar þó að sérfræðiþekking þeirra sé hafin yfir gagnrýni en þorir eiginlega ekki að spyrja af ótta við að drukkna í áðurnefndu fræðiorðaflóði.

geo_1032570.jpg Fyrir nokkrum árum (nánar tiltekið í september 2006) birtist í hinu ágæta leikmannsvísindariti Geo skemmtileg grein þar sem blaðamaðurinn Susanne Paulsen stillti einmitt upp þessum andstæðum (að vísu ekki í þessum orðum) og velti vöngum yfir spurningunni um hvað lærður maður á yfirleitt að kunna og hvernig því er sinnt í háskólum víðs vegar um Evrópu. Mér þótti greinin merkileg og geymdi því eintakið uppi í hillu, hafandi það í huga að gaman gæti verið að blogga um efnið, en kem því ekki í verk fyrr en nú. Greinin er ekki síst áhugaverð fyrir meðfylgjandi mynd sem ég gerðist svo djarfur að stela. Hún samanstendur af 76 tölusettum íkonum sem ritstjórn Geo valdi með það að markmiði að gefa einhvers konar þverskurð af mannlegri þekkingu. Það er gaman að spreyta sig á myndinni og velta vöngum yfir þeim hugrenningatengslum sem hvert íkonanna kveikir. Ég verð að játa að ég áttaði mig ekki strax á öllum myndunum. Er menntun minni þá ábótavant? Eða er það ef til vill nóg að ég þekki mínar bakteríur? Það er freistandi að halda áfram með þessar pælingar, en mynd segir meira en mörg orð, svo ég mæli frekar með að blogglesendur verji tíma sínum í að grannskoða myndina og spreyta sig á þrautinni. ATH: Það þarf að smella á myndina til að opna hana og smella svo aftur á hana til að sjá hana í almennilegri upplausn.

Góðar stundir.


Undur náttúrunnar

Málþing í tilefni af 150 ára útgáfuafmæli Uppruna tegundanna

Þann 24. nóvember 1859, fyrir réttum 150 árum, gaf John Murray, bókaútgefandi í London, út bókina On the Origin of Species eftir tiltölulega lítt þekktan náttúrufræðing, Charles R. Darwin að nafni. Það er kunnara en frá þurfi að segja að bók þessi olli straumhvörfum í lífvísindum og raunar hugmyndasögunni allri. Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Hólum minnast þessarra tímamóta með sameiginlegri málstefnu um lífvísindi í víðu samhengi.

Málþingið, sem samanstendur af 16 fræðandi, skemmtilegum og aðgengilegum erindum um ýmis hugðarefni íslenskra náttúruvísindamanna, verður haldin á afmælisdeginum, þriðjudaginn 24. nóvember í stofu R316 að Borgum við Norðurslóð. Pétur Halldórsson stýrir umræðum.

Hvar? – Borgum við Norðurslóð, 3. hæð, stofu R316 (innst á austurgangi)

Hvenær? – Þingið hefst kl. 9:00, en er skipt í fimm fundi (sjá dagskrá hér fyrir neðan)

Hvað kostar? – Ekkert!

Nánari upplýsingar veitir Oddur Vilhelmsson (oddurv@unak.is, s. 697 4252) . Sjá einnig heimasíðu HA: www.unak.is

Dagskrá:

9:00        Setningarávarp rektors HA, Stefáns B. Sigurðssonar

1233921138undated_charles_darwin-b.jpgFyrsti fundur. Náttúra Norðurlands: Svipmyndir úr dýraríki, jurtaríki og hinum hulda heimi örvera

9:10       Hreiðar Þór Valtýsson, lektor við auðlindadeild HA, flytur erindið Auðlindir hafs í Eyjafirði og áhrif umhverfisins.

9:30       Hjörleifur Einarsson, prófessor við auðlindadeild HA, flytur erindið Margur er knár þó hann sé smár.

9:50       Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, flytur erindið Út í skóg að svipast um í svepparíkinu.

10:10     Jóhannes Árnason, kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri flytur erindið Aspirnar eru illgresi?

10:20     Umræður

10:35     Kaffi

Annar fundur. Sameinaðir stöndum vér: Sambýli örvera, dýra og jurta í náttúru Íslands

10:50     Oddur Vilhelmsson, dósent við auðlindadeild HA, flytur erindið Þröng í þalinu: Ljósóháð bakteríusamfélög í íslenskum fléttum.

11:10     Arnheiður Eyþórsdóttir, aðjúnkt við auðlindadeild HA, flytur erindið Einkalíf svampa.

11:30     Ólafur S. Andrésson, prófessor við Háskóla íslands, flytur erindið Erfðamengi sambýlis: Raðgreining á himnuskóf.

11:50     Umræður

12:05     Matur

Þriðji fundur. Vor dýrasti arfur: Hlutverk erfða í þróun lífvera

13:10     Kristinn P. Magnússon, dósent við auðlindadeild HA og sérfræðingur á Akureryrarsetri NÍ, flytur erindið Ertu skoffín?

13:30     Stefán B. Sigurðsson, rektor HA, flytur erindið Meðfæddir hæfileikar eða þjálfun í íþróttum - Hvort ræður úrslitum?

13:50     Stefán Óli Steingrímsson, dósent við Háskólann á Hólum flytur erindið Ferskvatnsfiskar og fábreytni íslenskrar náttúru.

14:10     Umræður

14:25     Kaffi

Fjórði fundur. Úrsmiðurinn blindi: Þróun mannsaugans, finkugoggsins og annarra furðuverka

14:40     Arnar Pálsson, dósent við Líf-og umhverfisvísindadeild HÍ flytur erindið Náttúrulegt val og fjölbreytileiki lífsins.

15:00     Hafdís Hanna Ægisdóttir, verkefnisstjóri við Landbúnaðarháskóla Íslands, flytur erindið Darwin og lífríki eyja.

15:20     Þórir Haraldsson, kennari við Menntaskólann á Akureyri, flytur erindið Aðlögun hvítabjarna að óvistlegu umhverfi. 

15:50     Umræður

16:00     Kaffi

Fimmti fundur. Hvað þýðir þetta allt? Áhrif þróunarkenninga á hugmyndasögu og vísindaheimspeki

16:15     Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor við Háskóla Íslands, flytur erindið Þróunarkenningin í ljósi vísindaheimspekinnar.

16:35     Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur við Reykjavíkurakademíuna flytur erindið Landnám þróunarkenningarinnar á Íslandi, 1872-1910.

16:55     Guðmundur Guðmundsson, forstöðumaður safnasviðs NÍ, flytur erindið Tegundir, þróun og flokkunarkerfi í ljósi Uppruna tegundanna.

17:15     Umræður

17:30     Samantekt og málstofuslit

17:45     Móttaka

 

 


Líftæknigátt

New Picture

Aðgengilegt, íslenskt fræðsluefni fyrir almenning um líftækni og málefni henni tengd hefur til þessa verið af býsna skornum skammti. Nemendur í líftækni og sjávarútvegsfræði við HA reyna nú, ásamt undirrituðum, að gera einhverja bragarbót þar á. Wikipedia er opin alfræðiorðabók á netinu sem hver sem er getur breytt. Við höfum nú búið til Líftæknigátt í Wikipediu með tenglum í greinar um líftæknileg efni. Greinarnar eru mjög mis langt á veg komnar. Sumar eru aðeins á „orðabókarformi“, en aðrar eru mun lengri. Einnig á eftir að byrja á all mörgum síðum sem við höfum gert ráð fyrir tenglum í. En, ástæða er til að árétta að hver sem er getur bætt við og breytt efni í Wikipediu og um að gera fyrir leika sem lærða að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni með okkur.

Það er von okkar að gáttin geti orðið til þess að vekja áhuga á þessarri stórskemmtilegu og notadrjúgu fræðigrein.

Í leiðinni er ekki úr vegi að geta þess að umsóknarfrestur um nám í líftækni á B.Sc.- og M.Sc.-stigi rennur út föstudaginn 5. júní.

Doktorsvörn í prótínmengjagreiningu

 IMG_2934Það var einkar ánægjulegt að vera viðstaddur doktorsvörn Hólmfríðar Sveinsdóttur við Háskóla Íslands síðastliðinn föstudag. Hólmfríður vann verkefni sitt undir aðalleiðsögn Ágústu Guðmundsdóttur prófessors við matvæla- og næringarfræðideild HÍ, en meðleiðbeinendur voru auk mín þau Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir við HÍ og Helgi Thorarensen á Hólum. Verkefnið er því réttnefnt samstarfsverkefni þriggja háskóla: HÍ, HA og Hólaskóla. Frétt HÍ um verkefnið og vörnina má lesa hér.

Hólmfríður vann feikilega vandað og gott verkefni um þær breytingar sem verða á prótínmengi þorsklirfa við þroskun þeirra og þau áhrif sem ýmsir þættir í umhverfi og fæði hafa þar á. Að greina prótínmengi er ekkert áhlaupsverk. Það þekki ég af eigin reynslu. Nálgun Hólmfríðar er byggð á tvívíðum rafdrætti gjörvalls prótínmengis þorsklirfanna, en sú aðferð er tæknilega krefjandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Að auki fylgja ýmsar tæknilegar hindranir því að vinna með prótínmengi þorsklirfa. Þar má nefna að illgerlegt er að aðgreina vefi og því vann Hólmfríður með heildarmengi allrar lífverunnar, en það torveldar sjóngervingu og greiningu þeirra prótína sem eru til staðar í hlutfallslega litlu magni. Einnig er viss farartálmi fólginn í því að gagnabankar (oftast er hentugast að notast við hin ýmsu undirsöfn GenBank) eru fremur rýrir þegar kemur að þorskfiskum. Það ástand mun vonandi batna innan tíðar, því verið er að raðgreina gjörvallt erfðamengi Atlantshafsþorsksins.IMG_2944_ed

Þrátt fyrir þessar tæknilegu hindranir vann Hólmfríður afar gott verkefni að mínu mati, þó auðvitað sé ég hlutdrægur Smile. Of langt mál væri að rekja hér niðurstöðurnar, en benda má á að gerð er grein fyrir þeim í fimm ritrýndum tímaritsgreinum og einum ritrýndum bókarkafla, auk doktorsritgerðarinnar sjálfrar. Þar af eru tvær greinar þegar birtar: önnur í Aquaculture og hin í Comparative Biochemistry and Physiology.

Andmælendur voru þeir Phil Cash frá Háskólanum í Aberdeen og Albert Imsland frá Háskólanum í Bergen og ráku þeir báðir erindi sín snöfurmannlega og af stakri prýði. Vörn Hólmfríðar og athöfnin öll var HÍ til mikils sóma og þakka ég pent fyrir mig.


Lögfræði vs. umhverfis- og orkufræði

Án þess að ég þekki nokkuð til þessa ágæta manns eða hafi nokkra ástæðu til að efast um vinnubrögð hans og hæfi til að semja þessa skýrslu (hef raunar dáðst nokkuð að „orkublogginu“ hans um nokkurt skeið, en það er býsna vandað, vel skrifað og læsilegt), þá velti ég því óneitanlega fyrir mér hvers vegna „lögfræðingur og MBA“ er fenginn til þessa verks fremur en fólk sem er sérstaklega til þess lært, þ.e. umhverfis- og orkufræðingar? Mér býður í grun að við hér í raunvísindaskor HA séum ekki nógu dugleg við að koma okkar námslínum og þeim möguleikum sem þær bjóða á framfæri.

Það er svo gaman að segja frá því að nemendur í umhverfis- og orkufræðum voru einmitt að vinna verkefni á þessu sviði nýverið undir stjórn Sigþórs Péturssonar prófessors. Hér kemur smá tilvitnun í skýrslu þeirra:

„[V]eðurfræðilega og landfræðilega séð er ekkert því til fyrirstöðu að nýta vindorku á Íslandi en eins og staðan er í dag er kostnaðurinn of mikill. Vindorkuiðnaðurinn er þó í stöðugri þróun og það sem er óhagkvæmt í dag getur verið hagkvæmt í framtíðinni.“ (Atli Steinn Sveinbjörnsson, Björgvin friðbjarnarson og Ragnheiður Ásbjarnardóttir. 2009. Vindorka á Íslandi. Háskólinn á Akureyri)

 

 


mbl.is Telur virkjun vindorku raunhæfan kost
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DNA í eldhúsinu

Untitled-TrueColor-01

Á laugardaginn verður mikið um dýrðir hér hjá okkur í HA, en þá verður vori fagnað með Opnu Húsi hér á háskólasvæðinu. Gestir og gangandi geta kynnt sér það sem fram fer í deildum skólans, þegið léttar kaffiveitingar og bara átt með okkur notalegt síðdegi. Dagskrá fagnaðarins má sjá hér á síðu markaðs- og kynningarsviðs.

Ég vil að sjálfsögðu einkum benda á mitt „sjóv“, en ég mun freista þess að einangra DNA úr jarðarberjum með eldhúsáhöldum, sjampói, matarsalti og sótthreinsispritti. DNAið mun ég vefja upp á plaströr eins og hvert annað spagettí og geta áhugasamir gestir fengið að taka í. Aðferðinni er lýst í bæklingnum sem tengt er í hér að neðan (prentist út báðum megin á pappírinn þ.a. hann flettist um stutthlið; brjóta svo saman í þríbroti).


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tækifæri í raunvísindum og grunnrannsóknum

Óhætt er að segja að naflaskoðunarskriða hafi farið af stað í þjóðfélaginu á umliðnum vikum þar sem meginstoðir íslensks efnahagslífs og samfélagsins alls hafa verið teknar til gagngerrar ítarskoðunar. Sitt sýnist hverjum, eins og vonlegt er. Sumir finna hugarfróun í að benda á það sem aflaga hefur farið, á meðan aðrir einbeita sér að því að leita nýs upphafs og skima eftir möguleikum og tækifærum. Háskólinn á Akureyri (HA) ætlar sér að taka þátt í þessari umræðu og leggja þar á vogarskálar þá miklu þekkingu og reynslu sem finna má meðal sérfræðinga skólans. Í þessum greinarstúfi verður sjónum beint að raunvísindum og rannsóknastarfi almennt, en við HA er starfandi raunvísindaskor þar sem fram fara bæði kennsla og rannsóknir á nokkrum sviðum hagnýtra raunvísinda, nánar tiltekið líftækni, sjávarútvegs- og fiskeldisfræðum, tölvunarfræðum og umhverfis- og orkufræðum.

Fáir munu andhæfa þeirri staðhæfingu að í hagnýtum rannsóknum á sviði vísinda og tækni felist fjölmörg tækifæri. Í gegn um hagnýtar rannsóknir fyrirtækja, stofnana og háskólasamfélagsins opnast tækifæri til nýsköpunar og myndunar sprotafyrirtækja sem með tíð og tíma geta vaxið og dafnað í leiðandi hátæknifyrirtæki. Á hinn bóginn heyrast þær raddir af og til, að grunnrannsóknir með fræðilegt ekki síður, og jafnvel fremur en, hagnýtt gildi séu dragbítur á samfélaginu. Þær séu rándýr gæluverkefni sérlundaðra fílabeinsturnbúa úr öllum tengslum við þarfir og kröfur þjóðarinnar. Í þessu sambandi er skemmst að minnast ummæla Söru Palin, varaforsetaefnis bandaríska repúblikanaflokksins í nýafstöðnum forsetakosningum þar vestra, en hún fór mikinn í vandlætingu sinni á fjáraustri í grunnrannsóknir á erfðafræðum ávaxtaflugna1. En, skyldi þessi afstaða vera nægilega vel ígrunduð? Hvernig ákveðum við hvaða rannsóknir hafa hagnýtt gildi og hverjar ekki?

David Baltimore, forseti bandarísku vísindaþróunarakademíunnar (American Academy for the Advancement of Science), skrifaði áhugaverða grein sem birtist 24. október síðastliðinn í vísindafréttaritinu Science2. Þar kemur m.a. fram sú skoðun hans að það sé einmitt áhersla Bandaríkjastjórnar á stuðning við grunnrannsóknir, óháð meintu hagnýtu gildi eða annarri þarfagreiningu, sem hefur verið „leynivopn“ Bandaríkjanna í efnahagslegu kapphlaupi þjóða heimsins undanfarna áratugi. Í grein sinni veltir Baltimore því fyrir sér hvaða lærdóm önnur ríki geti dregið af reynslu Bandaríkjanna á stjórnun vísindastarfsemi, einkum hvað varðar skipulag og stefnumörkun háskóla og annarra rannsóknastofnana. Hann leggur fram fimm einfaldar reglur sem ég tel rétt að ráðamenn mennta- og vísindamála hér á landi taki til skoðunar:

1.       Gæði séu ávallt í öndvegi, jafnt í mannaráðningum sem á öðrum vettvangi. Baltimore telur það óráð að reynt sé að fylla í faglegar eyður þegar ráðið er í nýjar stöður. Fremur skuli stilla nýráðningum í hóf og einblína á þá kandidata sem skara fram úr á sínu sviði.

2.       Kröftum sé ekki dreift um of. Augljóst er að lítil hagkerfi geta ekki skarað fram úr á öllum sviðum.

3.       Byggja skal upp smáar einingar. Smæð er kostur að mörgu leyti og mun hægara er um vik að halda uppi háum gæðakröfum í smáum, þröngt skilgreindum einingum heldur en á stórum, víðtækum stofnunum.

4.       Ekki aðskilja kennslu og rannsóknir. Háskólastúdentar eru vísindamenn morgundagsins og hagur bæði nemenda og annars rannsóknafólks  af nánu samstarfi er ótvíræður.

5.       Akademískt frelsi til rannsókna skal tryggt. Afskipti ríkis eða annarra utanaðkomandi aðila af verkefnavali vísindamanna hefur hvergi gefist vel. Í frelsinu liggur sköpunarkrafturinn.

Rétt er að benda á að Baltimore nefnir hvergi í grein sinni að ákveðnar greinar vísindanna séu öðrum mikilvægari, þó reyndar bendi hann á líftæknigeirann í heild sinni sem dæmi um frábæran árangur bandarískrar vísindastefnu undanfarna áratugi. Þvert á móti verður honum tíðrætt um gildi akademísks frelsis og getur þess að það séu einmitt grunnrannsóknir sem skila þeim stökkum í skilningi og hugsun sem eru grundvöllur tækniframfara og nýsköpunar.

 Heimildir:

1.            Rutherford, A., Palin and the fruit fly, á vef The Guardian (www.guardian.co.uk), 27. október 2008.

2.            Baltimore, D., A global perspective on science and technology, Science 322, 544-551, 2008.

 (Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag.)

Líftækni á Króknum

LaufeyÞetta eru vissulega ánægjuleg tíðindi og er ég sannfærður um að þetta framtak mun skila Sauðkræklingum, og raunar þjóðinni allri, verulegum ávinningi þegar fram líða stundir. Kreppa hvað?

Svo má náttúrlega benda á að þessi nýja líftækniverksmiðja /rannsóknastofa er einstaklega vel í sveit sett - aðeins steinsnar, svo að segja, frá eina háskóla landsins sem býður upp á sérhæft nám í líftækni, og það bæði á bakkalár- og meistarastigi. Háskólanum á Akureyri, sumsé ... þar sem enn er opið fyrir innritun nýnema í líftækni á vormisseri. Smile

Á myndinni hér til hliðar, sem Gísli Hjörleifsson tók fyrir Háskólann á Akureyri, má sjá Laufeyju Hrólfsdóttur pósa við smásjá. Laufey útskrifaðist með B.Sc. í líftækni síðastliðið vor.


mbl.is Líftækniverksmiðja opnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töfrasprotar?

Það var ánægjulegt að sjá í Morgunblaðinu í dag opnuumfjöllun um Nýsköpunarsjóð (atvinnulífsins sumsé, ekki námsmanna) og sprotafyrirtæki hans. Á nýliðnum tímum auðmannadýrkunar og síbyljandi væntinga um skjótfenginn gróða úr tómu lofti fór harla lítið fyrir lítillátum en lúsiðnum frumkvöðlum sem vildu skapa eiginleg verðmæti úr alvöru hráefnum og hugviti. Þeir læddust með veggjum, að því er manni virtist, eða féllu að minnsta kosti alveg í skuggann af útrásandi bönkum og fjárglæframönnum. Þeir voru þó, til allra heilla, á meðal vor, þó ekki færi það hátt.

Þeirra á meðal er að finna all nokkuð af smáum en knáum líftæknifyrirtækjum. Í Morgunblaðinu er minnst á nokkra gamla kunningja, svosem Genis og Primex, en einnig sé ég þarna minnst á fyrirtæki sem ég hef minna heyrt um, eins og BP-lífefni og Lífeind. Raunar hefur HA_liftaekniótrúleg gróska verið í frumkvöðlastarfi í líftækni hérlendis á síðustu árum. Í skýrslu Dillingham og Nilssen frá í fyrra eru talin upp 32 lítæknifyrirtæki starfandi hérlendis og má m.a. sjá þann lista hér. Sá listi er þó ófullkominn og inniheldur t.d. hvorki BP-lífefni né hið áhugaverða sjávarlíftæknifyrirtæki BioPol á Skagaströnd. Ég vil því leyfa mér að vera bjartsýnn og spái íslenskri líftækni glæstri framtíð. Líftækni mun eiga sinn þátt, og það jafnvel ríkulegan, í rífa Ísland upp úr kreppunni. Þrátt fyrir að vissulega sé alltaf áhætta að leggja fé í sprotafyrirtæki, þá vitum við þó í það minnsta að hér er fjárfest í heiðarlegum tilraunum til raunverulegrar verðmætasköpunar, en ekki í innistæðulausum rembingi og töfrabrögðum.

Á myndinni hér til hliðar má sjá Máneyju Sveinsdóttur og Kristjönu Hákonardóttur (og Laufeyju Hrólfsdóttur í bakgrunni), nýútskrifaða líftæknifræðinga frá Háskólanum á Akureyri. Ef til vill eiga þær og aðrir líftæknifrömuðir eftir að bjarga þjóðarbúinu með vasklegri frumkvöðlastarfsemi? Myndina tók Gísli Hjörleifsson fyrir Hásólann á Akureyri.

Góðar stundir.


mbl.is Ársreikningar verði í evrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband