22.8.2006 | 09:02
Kæfisvefn
Jæja, þá er maður kominn aftur úr Reykjavíkinni, einu stykki öndunargræju ríkari. Hún er heldur penni og nettari þessi heldur en sú sem ég var með í síðustu viku, en eftir sem áður þarf ég að sofa með þessa líka heljarinnar grímu á andlitinu sem tengd er við barka sem alltaf þvælist fyrir í hvert sinn sem maður byltir sér. Það er því ljóst að ég get gleymt næturleikfiminni. Þetta er semsagt svona CPAP græja (continuous positive airway pressure græja), nánar tiltekið ResMed S8, sem áhugasamir geta lesið um á http://www.advanscpap.com/. Ég sting hér inn mynd af henni, svona til að læra betur á þetta blogg umhverfi ... alltaf gaman að fikta.
Annars verð ég að játa að mér finnst fjandi erfitt að sofa með þetta. Ég er sívaknandi, ýmist af því barkinn þvælist fyrir mér eða að ég er orðinn svo skraufaþurr í hálsinum að mér finnst kokið vera betrekað með sandpappír nr. 100. Svo dreymir mann stöðugt hríðarbyli og mannskaðaveður útaf eilífum hvininum í tækinu, sem minnir óþægilega á páskahret á glugga. Mér skilst þó að maður eigi að venjast þessu á nokkrum vikum og verði þá frískari en nokkru sinni fyrr. Ég vona að rétt sé og hlakkar þá mikið til, því kæfisvefninn (obstructive sleep apnea, sem t.d. má lesa um á vef frá Stanford háskóla) er frekar hvimleiður. Bæði er það að ég er oft það þreyttur að ég á erfitt með að einbeita mér í vinnunni og svo ekki síður hitt að hroturnar í mér halda Anett vakandi og ekki er nú á það bætandi, því hún er vakandi heilu og hálfu næturnar yfir honum Snæbirni litla sem enn er vaknandi á þetta tveggja tíma fresti eða svo, hvað sem öllum ráðum sjálfshjálparbóka og beturvitandi mæðra líður. Það má því með sanni segja fjölskyldan sé hrjáð orðin af svefnleysi og öllum mögulegum úrbótum tekið fegins hendi.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.8.2006 | 21:11
Myndaalbúm
Ég fann mér smá tíma til að fikta aðeins meira og ákvað að setja upp myndaalbúm. Ég byrja að sjálfsögðu á frumburðinum og æðstaráði heimilsins, honum Snæbirni Rolf. Drengurinn ætlar að verða hinn fótógenískasti. Hann er farinn að þekkja myndavélina og glennir sig óspart framaní hana. Að þessu leyti minnir hann mig mjög á Villa bróður sem var hreinasti myndavélasegull á þessum aldri.
Talandi um Villa, þá er hann nú fluttur til ríkis hennar mæjesteðs, Margrétar frænku minnar Þórhildar, og farinn að lesa fróðleikslistir einhverjar við Hafnarháskóla, rétt eins og velflest mektarmenni Íslandssögunnar. Ég efa ekki að hann muni standa sig vel í því eins og hann á vanda til - slíkur afburða námsmaður sem hann er.
18.8.2006 | 15:46
Mitt fyrsta blogg
eins og allir hinir. Ekki það að ég hafi frá neinu að segja. Svona
þannig. Auðvitað er þó alltaf eitthvað að gerast sem maður getur látið
móðann mása um. Hmmm ... er það annars móðann eða móðan? Er það
einhver móði sem á að mása eða erum við að tala um svona móðan másara.
Eða þannig. Annars er sú staðreynd að ég skuli hnjóta um svona
grundvallaratriði íslensks máls strax á þriðju línu fyrsta bloggsins
míns einmitt helsta ástæða þess að ég stofnaði þetta blogg. Mér finnst
einhvernvegin að ég sé kominn úr allri æfingu með að tjá mig í rituðu
máli. Sem er skrítið, því ég er jú sískrifandi í vinnunni ... en það er
náttúrlega öðruvísi ... ekki svona venjulegt mannamál. Mér sárnar
þetta soldið, því ég átti mjög auðvelt með að skrifa hér í denn og
hafði gaman af því. Kannski bloggið sé einmitt vetvangurinn til að
liðka málbeinið á og rækta með sér sómasamlega tjáningarfærni.
18.8.2006 | 15:24