Kæfisvefn

ResMed S8 græja

Jæja, þá er maður kominn aftur úr Reykjavíkinni, einu stykki öndunargræju ríkari. Hún er heldur penni og nettari þessi heldur en sú sem ég var með í síðustu viku, en eftir sem áður þarf ég að sofa með þessa líka heljarinnar grímu á andlitinu sem tengd er við barka sem alltaf þvælist fyrir í hvert sinn sem maður byltir sér. Það er því ljóst að ég get gleymt næturleikfiminni. Þetta er semsagt svona CPAP græja („continuous positive airway pressure“ græja), nánar tiltekið ResMed S8, sem áhugasamir geta lesið um á http://www.advanscpap.com/. Ég sting hér inn mynd af henni, svona til að læra betur á þetta blogg umhverfi ... alltaf gaman að fikta.

Annars verð ég að játa að mér finnst fjandi erfitt að sofa með þetta. Ég er sívaknandi, ýmist af því barkinn þvælist fyrir mér eða að ég er orðinn svo skraufaþurr í hálsinum að mér finnst kokið vera betrekað með sandpappír nr. 100. Svo dreymir mann stöðugt hríðarbyli og mannskaðaveður útaf eilífum hvininum í tækinu, sem minnir óþægilega á páskahret á glugga. Mér skilst þó að maður eigi að venjast þessu á nokkrum vikum og verði þá frískari en nokkru sinni fyrr. Ég vona að rétt sé og hlakkar þá mikið til, því kæfisvefninn („obstructive sleep apnea“, sem t.d. má lesa um á vef frá Stanford háskóla) er frekar hvimleiður. Bæði er það að ég er oft það þreyttur að ég á erfitt með að einbeita mér í vinnunni og svo ekki síður hitt að hroturnar í mér halda Anett vakandi og ekki er nú á það bætandi, því hún er vakandi heilu og hálfu næturnar yfir honum Snæbirni litla sem enn er vaknandi á þetta tveggja tíma fresti eða svo, hvað sem öllum ráðum sjálfshjálparbóka og beturvitandi mæðra líður. Það má því með sanni segja fjölskyldan sé hrjáð orðin af svefnleysi og öllum mögulegum úrbótum tekið fegins hendi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mamma verður búin að koma allri stórfamilíunni í þessar öndunargrjæjur áður en langt um líður. Allt gott hér í danaveldi fyrir utan bansetta rigninguna alla daga. kveðja, Villi

Villi (IP-tala skráð) 23.8.2006 kl. 07:20

2 Smámynd: Oddur Vilhelmsson

Já, það er trúlega rétt hjá þér. Hún ætti nú að athuga með að fá umboðslaun hjá þeim ResMed-mönnum :o)

Það er nú leiðinlegt að það skuli rigna á ykkur Baunverjana, en gefur mér þó tilefni til að monta mig af því hvað það er ógeðslega gott veður hér á Akureyri (eins og náttúrlega alltaf!). Hér er búin að vera brakandi sól, hiti og stafalogn lengur en elstu menn muna, eða a.m.k. síðan á föstudag. Hafðu það nú samt gott í rigningunni. Oddur

Oddur Vilhelmsson, 23.8.2006 kl. 07:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband